Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:30:29 (122)


[15:30]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ríkisstjórnin hefur boðað það að flytja hér frv. um Seðlabanka Íslands á þessu löggjafarþingi. Væntanlega verður hægt að taka á þessum málum í því frv. og taka þau til athugunar. Ég vil hins vegar af þessu tilefni fara þess á leit við ríkisstjórnina, og þá fyrst og fremst hæstv. fjmrh., að gera nú eina tilraun enn til að samræma reglur um bílakaup og bílanotkun. Þetta mál er búið að vera til umfjöllunar á Alþingi og í þjóðfélaginu árum saman ef ekki áratugum saman. Hins vegar er niðurstaðan orðin sú að bankastjórar og forstöðumenn margra stofnana keppast við að kaupa mjög dýrar torfærubifreiðar. Það hlýtur að vera eitthvað athugavert við það. Ég gagnrýni það ekki og tala þar m.a. af eigin reynslu að ráðherrar hafi hæfilegar bifreiðar til sinna afnota enda eru það menn sem eiga mjög langan vinnudag og þurfa að komast á milli í landinu. Það sama á ekki við um forstöðumenn ýmissa stofnana og þar á meðal bankastjóra. Og það getur ekki verið að þeim sé brýn þörf á því að hafa svo dýrar bifreiðar til afnota. Þetta á því miður ekki bara við um þá heldur á þetta líka við um ýmsa forstjóra fyrirtækja sem virðast kaupa þessa bíla og þeir virðast vera orðnir einhvers konar ,,status symbol``. Þá held ég að það hljóti að vera betra að greiða mönnunum eitthvað hærri laun þannig að þeir taki ekki út óþarfa kostnað með því að kaupa þessa rándýru jeppa. Og ég vil mælast til þess af hæstv. fjmrh., ég veit að hann hefur góðan vilja til þess, að hann reyni enn á ný að koma á samræmdum reglum um þetta mál sem því miður verður ekki í fyrsta skiptið.