Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:35:33 (124)


[15:35]
     Árni Johnsen :
    Virðulegur forseti. Í bílakaup stofnana og fyrirtækja ríkissjóðs, aksturskostnað og samninga þar að lútandi hafa farið um 2 milljarðar kr. á undanförnum árum, eða nær 2% fjárlaga. Þessa upphæð má að mínu mati stórlækka og standa eðlilegar að verki en gert hefur verið. Þess ber að geta að stór hluti bílasamninga er klár kaupuppbót og kemur ekkert við akstursþörf fyrir viðkomandi stofnanir. Í mörgum tilvikum er verið að láta menn hafa einkabíla, forstöðumenn ríkisstofnana, jafnvel menn sem hafa enga sérstaka ástæðu eða þörf fyrir bíl tengdan sinni vinnu. Ef stofnun hefur þörf fyrir bíl þá á hún að hafa hann og reka hann sjálf til daglegra þarfa en ekki til einkaafnota fyrir starfsmenn. Það er líka mjög einkennileg sú þörf margra forstöðumanna ríkisstofnana að eiga jeppa, fokdýr tæki og búin til aksturs á allt öðrum vettvangi en þessir menn eru að starfa. Ekki er til að mynda Seðlabanki Íslands eða Þjóðhagsstofnun með útibú á hálendinu og ættu ekki þar af leiðandi að hafa svo ríkulega búna jeppa. En í tilefni af því að þessar stofnanir kaupa slík tæki þá er svo sem ekkert undarlegt þó menn komi af fjöllum þegar slíkir samningar eru gerðir.