Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:37:14 (125)


[15:37]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þjóðin hefur öll fordæmt hin siðlausu bílakaup Jóns Sigurðssonar. Það er auðvitað athyglisvert að ráðherra Alþfl., viðskrh. Sighvatur Björgvinsson, fordæmdi þau ekki hér áðan. Það er líka athyglisvert að hann kaus ekki að svara neinni af þeim spurningum sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir bar fram, en hún upplýsti það hér að í Seðlabankanum kynni að vera að gerast margt fleira sem er álíka siðlaust og þau jeppakaup sem hér hafa verið til umræðu að undanförnu. Þess vegna er óhjákvæmilegt að ítreka, hæstv. viðskrh.: Er það rétt að Jóhannes Nordal sé áfram með bíl frá Seðlabankanum þó hann sé hættur þar? Er það rétt að Jóhannes Nordal verði áfram með skrifstofuaðstöðu í Seðlabankanum og að það sé verið að innrétta sérstaka hæð ofan á safnhús bankans til að auðvelda það þó Jóhannes Nordal sé hættur þar og Tómas Árnason eigi einnig að fá skrifstofuaðstöðu í bankanum eftir að hann hættir? Er það virkilega rétt að þessir tveir bankastjórar muni fá greiðslur fyrir ýmis sérverkefni fyrir bankann ofan á eftirlaunin eftir að þeir eru hættir? Hvers konar siðleysi er verið að innleiða í þessu þjóðfélagi hjá hinni embættislegu yfirstétt þessa lands? Hætta þeir aldrei að ganga á sjóði almannafjár með þessum hætti? Það er óhjákvæmilegt að viðskrh. svari því sem hann er spurður um hér í þingsalnum en fari ekki með langar lagaskýringar um eitthvað sem sé ekki á hans valdi. Auðvitað er það á valdi viðskrh. að beina tilmælum til Seðlabankans um að afturkalla þessi bílakaup. Hann þekkir sem heilbrrh. tilmælavald ráðherra. Ríkisspítalarnir hafa auðvitað sérstaka stjórn eins og Seðlabanki bankaráð. Engu að síður beinir heilbrrh. tilmælum til Ríkisspítalanna. Sama getur viðskrh. gert í þessu máli ef viljinn er fyrir hendi, hæstv. ráðherra. Og auðvitað er það líka athyglisvert að oddvitar stjórnarflokkanna, forsrh. og formaður Alþfl., flýja úr salnum þegar þessi umræða fer fram. Þeir vilja ekki vera hér til svara þó ég hefði viljað beina því til forsrh. hvort hann væri ekki tilbúinn til að viðhalda siðferðilegu valdi þjóðstjórnarinnar í landinu, allrar, að beina þeim tilmælum ekki bara til Seðlabankans heldur Þjóðhagsstofnunar og Byggðastofnunar að þessi bílakaup verði þegar í stað afturkölluð.