Málefni Seðlabankans

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 15:44:35 (128)


[15:44]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir hans svör þó þau væru nú raunar ekki efnismikil. Ég vil taka fram til að vera sanngjörn að ég hefði sennilega átt að lesa honum fyrirspurnir mínar áður en þessi fundur hófst, en hitt er annað að ég hygg að hann ætti að vita hvort seðlabankastjórar yrðu í framtíðinni fimm eða þrír eins og hingað til hefur verið gert ráð fyrir.
    Það er jafnframt rangt hjá hæstv. fjmrh. að ákvörðun um bílakaup sé tekin í bankaráði. Hún er tekin í bankastjórn og í bankastjórn Seðlabankans eru þrír bankastjórar bankans. ( Fjmrh.: Starfskjörin eru frá bankaráðinu.)
    Þetta hefur satt að segja verið heldur raunaleg umræða. Nýskipaður formaður fjárln. og talsmaður jafnaðarmanna hér á þingi sagði nokkurn vegin orðrétt að það væri ekki sanngjarnt að svipta seðlabankastjóra starfskjörum sínum frekar en að okkur þætti eðlilegt að svipta hjúkrunarfræðinga þeim starfskjörum og forréttindum að hafa börnin á dagheimilum. Ég held nú að þessar tvær starfsstéttir séu ekki sambærilegar á nokkurn hátt og nálgast raunar að vera móðgun að tala um þetta tvennt í sama orðinu. Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir hvað hér er um að ræða. Í lögum um Seðlabanka Íslands segir svo í 4. gr.:
    ,,Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstjórnina og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar.``
    Það eru efnahagsmál að kaupa bifreið undir einn bankastjóra að jafnvirði 100 mánaðarlauna iðnverkafólks. 10 bifreiðar í þessum verðklassa, ef ég má nota það orð, eru jafngildi 1000 mánaðarlauna þess fólks. Er þetta sæmandi, hæstv. forseti, á þeim tímum þegar almenningi í landinu er sagt að herða ólina og taka höndum saman um að spara? Svar mitt er auðvitað nei og ég fagna því ef ég hef skilið hæstv. viðskrh. rétt að hann muni nú beita valdi sínu til þess að stöðva þennan ósóma, og ekki bara einhvern tíma heldur eins fljótt og unnt er, áður en ríkisstjórnin verður rúin öllu trausti til nokkurra athafna.