Veiði togara innan 12 mílna landhelginnar skv. reglugerð nr. 402/1993

9. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:14:17 (138)


[16:14]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Kjarni þessa máls er sá að í athugasemdum sem í þrígang hafa fylgt þessu heimildarákvæði hingað inn á Alþingi er gefin sú leiðbeining um notkun þessa ákvæðis að það eigi sérstaklega við um nýtingu á skarkola og það á tilteknum svæðum. Þannig að í þeirri leiðbeiningu, sem gefin er og Alþingi tekur gilda hvað eftir annað, og þar á meðal hv. þm., þá kemur skýrt fram við hvað er átt og til hvers er verið að setja þessa lagagrein. Það er mín skoðun að forveri minn í embætti hafi verið að fylgja lögum en ekki brjóta lög þegar hann framfylgdi þessu lagaákvæði og ég er þeirrar skoðunar að svo sé enn. Hitt er annað mál, sem hér kom fram í umræðunum hjá öðrum hv. þm. en hv. málshefjanda, að þetta mál snýst í raun og veru um sambúð stærri skipa, togveiðiskipa og minni báta, og það er fullkomin ástæða á hverjum tíma að horfa á ákvarðanir af þessu tagi í ljósi þess að menn verða að finna eðlilegar leikreglur þar á milli. Ég hef, þennan skamma tíma sem ég hef verið í ráðuneytinu, tekið ákvarðanir um þessi svæði sem hafa miðað að því að þrengja þau heldur og seinka því að þau væru opnuð í þeim tilgangi að koma til móts við þau sjónarmið að eðlilegar leikreglur gildi þarna á milli. Það er fullkomlega eðlilegt á hverjum tíma að meta þetta og ekkert sjálfgefið að hlutir standi að þessu leyti óbreyttir um alla framtíð.
    Þetta er sjálfsagt og eðlilegt skoðunarefni. Hinu vísa ég á bug, að hér hafi verið gengið á svig við lögin með tilvísun í þær skýru athugasemdir sem hvað eftir annað hafa fylgt þessari lagagrein inn á Alþingi og hv. þm. hefur aldrei gert athugasemdir við fyrr.