Skráning blóðflokka í ökuskírteini

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:21:11 (140)


[16:21]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Því er til að svara að ökuskírteinunum hefur fyrst og fremst verið ætlað að vera vitnisburður um þau ökuréttindi sem hver einstaklingur hefur. Það hefur á hinn bóginn verið lauslega kannað hvort tilefni væri til þess að gera þær breytingar sem hv. fyrirspyrjandi innir hér eftir. Á það hefur verið bent af hálfu þeirra sem með framkvæmd þessara mála fara að það kunni að vera varasamt að útvíkka skírteinið með þessum hætti þar sem hætta geti falist í því þegar nákvæmnisupplýsingar af þessu tagi eru yfirfærðar frá einum aðila til annars, hætta á mistökum við yfirfærslu skráningarinnar yfir á ökuskírteinið geti verið fyrir hendi og fyrir þá sök hafa komið varnaðarorð af hálfu þeirra sem um útgáfu ökuskírteina fjalla.
    Á það hefur einnig verið bent að skráning á blóðflokkum geti verið trúnaðarmál af því tagi að huga þurfi sérstaklega að því hvort almenn skráning þeirra í skýrslum lögreglunnar sé eðlileg. Þetta eru fyrst og fremst þau atriði sem hafa gert það að verkum að af hálfu dómsmrn. hafa ekki verið uppi áform um að færa út þau efnissvið sem ökuskírteinið felur í sér.
    Á hinn bóginn er það svo að ef heilbrigðisyfirvöld telja að það sé fallið til aukins öryggis, sérstaklega í slysatilvikum, að taka upp skráningu með þessum hætti, þá væri dómsmrn. vissulega reiðubúið til viðræðna um þau efni.