Embætti ríkislögmanns

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:24:29 (142)

[16:24]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Þegar lögin um embætti ríkislögmanns voru sett, ég hygg á árinu 1986, urðu nokkrar deilur um það hér í þessari virðulegu stofnun. Sumir þingmenn, þar á meðal sá sem hér stendur, töldu að þetta embætti væri óþarfi og gæti í raun og veru ekki þjónað þeim markmiðum sem því var ætlað vegna þess að það lýtur eingöngu boðvaldi fjmrh. en ekki annarra ráðherra. Á það var bent í umsögn Lögmannafélagsins á sínum tíma að svo gæti farið að tvö ráðuneyti væru í innbyrðis málaferlum svo að segja og þá gæti staða embættis ríkislögmanns orðið býsna flókin. Það varð engu að síður niðurstaða Sjálfstfl. að það væri óhjákvæmilegt að stofna þetta embætti aðallega vegna innanhússvandræða í fjmrn. Það var vegna þess að það þurfti að koma fyrir manni í skikkanlegt embætti og þá var stofnað embætti ríkislögmanns af því að það var ekki annað til sem honum þótti nægilega gott miðað við þær aðstæður sem þá voru innan Sjálfstfl.
    Niðurstaðan hefur svo orðið sú að þetta embætti hefur í raun og veru verið meira og minna þarflaust að mínu mati. Ég tel að það sé langeðlilegast að lögmannsstörf af því tagi sem hér er um að ræða séu hjá lögmönnum úti í bæ að verulegu leyti. Ég tel að yfirsýn yfir verkið eigi að vera hjá einstökum starfsmönnum fjmrn. en ekki í höndunum á sérstöku embætti sem er í fjmrn. og lýtur boðvaldi fjmrh. Lögin um embætti ríkislögmanns voru reyndar mjög sérkennileg á sínum tíma þegar þau voru sett vegna þess að í frv. fólst staðfesting á reglugerð um breytingar á reglugerð um Stjórnarráð Íslands sem hafði verið sett áður. Með öðrum orðum, reglugerðinni var breytt í lög eftir á og mun það vera nýmæli og hefur ekki verið reynt síðar svo mér sé kunnugt um. Ég tel þess vegna, virðulegi forseti, að með hliðsjón af öllu sé langeðlilegast að leggja þetta embætti niður.
    Nú í sumar gerðist það að það urðu nokkur undur á milli utanrrh. og fjmrh. þar sem utanrrh. komst loksins að þeirri niðurstöðu að það væri langeðlilegast að leggja þetta embætti niður vegna þess að það léti honum ekki í té þær upplýsingar sem ráðherrann óskaði eftir. Þar tel ég að embætti ríkislögmanns hafi í raun og veru verið í fullum rétti vegna þess að embætti ríkislögmanns lýtur boðvaldi fjmrh. og einskis annars ráðherra, samkvæmt ákvörðun Alþingis. Með hliðsjón af því að mér hefur bæst í þessu máli óvæntur liðsauki sem er formaður Alþfl. og hæstv. utanrrh. þá taldi ég ástæðu til að bera þessa fyrirspurn fram og spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé tilbúinn til þess að beita sér fyrir því að minnka báknið --- báknið burt --- og leggja niður embætti ríkislögmanns? Byrja á því, hæstv. ráðherra.