Embætti ríkislögmanns

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:27:53 (143)


[16:27]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mér er ánægja af því að svara hv. þm. Svarið er nei. Ég vil taka það fram vegna orða hv. þm. að þetta var ekki lausn á innanflokksvandræðum Sjálfstfl. á sínum tíma. Albert Guðmundsson, þáverandi fjmrh., flutti frv. í þinginu, ég hef kynnt mér þau gögn. Það kom fram í ræðum hans nákvæmlega hvert markmiðið var með þessari breytingu. Mér er hins vegar kunnugt um að á þeim tíma hafði hv. þm. Svavar Gestsson nokkra sérstöðu í málinu, þó ekki eins mikla og hann getur um nú. Mest kom þó sú sérstaða fram í svokölluðu ,,Sturlumáli`` sem kom upp á sínum tíma og ég ætla ekki að rifja upp í þessari umræðu en þá lýsti hv. þm. því yfir að hann teldi að leggja ætti þetta embætti niður og skal ekki frekar fjallað um það hér að sinni nema tilefni gefist til.
    Það að breyta reglugerð í lög er ekkert nýtt og ekkert gamalt. Við í fjmrn. urðum að gera þetta fyrir fáeinum árum vegna þess að fráfarandi fjmrh. stóð þannig að útgáfu reglugerðar um aukatekjur ríkissjóðs að það varð að gera lög úr reglugerðinni til að hún stæðist að áliti umboðsmanns Alþingis.
    En þetta gefur mér allt saman, virðulegur forseti, tækifæri til þess að gera aðeins grein fyrir embætti ríkislögmanns. Hlutverk embættisins er þríþætt:
    Í fyrsta lagi, og aðallega, rekstur dómstóla. Þetta eru yfirleitt einkamál sem höfðuð eru á hendur ríkinu og mál ríkisins á hendur öðrum. Hin síðarnefndu mál eru einkum á sviði skattaréttar og vinnuréttar.
    Í öðru lagi þá vinnur ríkislögmaður að uppgjöri bótakrafna en fjölda slíkra krafna er beint að ríkinu. Þess skal getið að fjöldi bótakrafna sem hefur borist í ár er um 78 talsins.
    Í þriðja lagi er um að ræða lögfræðilegar álitsgerðir eftir því sem einstakir ráðherrar kunna að óska eftir. Í reynd koma fram fleiri óskir en hægt er að verða við.
    Fjöldi starfsmanna ríkislögmanns eru þrír lögmenn auk eins deildarstjóra. Sl. eitt og hálft ár hefur einn hæstaréttarlögmaður að auki verið í tímavinnu hluta úr degi.
    Það sem af er árinu hafa verið til meðferðar um 180 dómsmál, þar af hafa 62 mál verið höfðuð á þessu ári. Þau eru mörg hver mjög umfangsmikil. Þessi mál eru ýmist fyrir héraðsdómstólum, Hæstarétti eða Félagsdómi en þó nokkur hafa gengið fyrir matsnefnd eignanámsbóta og þá hefur embættið tekið þátt í rekstri mála fyrir íslenska ríkið hjá Mannréttindanefnd Evrópu og Mannréttindadómstóli Evrópu.
    Kostirnir við það að halda úti ríkislögmannsembætti eru: Í fyrsta lagi að samræma afstöðu til krafna á hendur ríkinu. Í öðru lagi að samræma í túlkun og framkvæmd laga að öðru leyti við rekstur mála fyrir dómstólum. Í þriðja lagi er um ótvíræðan sparnað að ræða og þar höfum við gert nokkra athugun á.
    Mér er ljóst að þetta útilokar ekki að neinu leyti að aðrir lögmenn komi til ákveðinna starfa og í raun og veru er það svo að leitað er að talsverðu leyti til lögmanna sem eru starfandi á lögmannsskrifstofum úti í bæ.
    Ég tek það fram að ríkislögmannsembættið er ekkert einskorðað við Ísland, til að mynda er í Noregi til ríkislögmannsembætti. Kostnaður við embættið á árinu 1992 var u.þ.b. 16,7 millj. kr.
    Varðandi lögfræðiálitin þá skal ég taka það fram að lögfræðiálit frá embætti ríkislögmanns eru ekkert æðri lögfræðiálitum frá öðrum lögmönnum og ber að skoða þau með tilliti til þess. Það er rétt sem hefur komið fram að þau tilvik geta komið upp að valdsvið ráðuneyta skarast með þeim hætti að fleiri en einn ráðherra getur með réttu óskað eftir slíkri álitsgerð að því er hans valdsvið varðar. Í framkvæmd hefur það oftast verið svo að ráðuneyti hafa, þegar þannig stendur á, leitað sameiginlega álits embættis ríkislögmanns.
    Þá hefur forsrn. í einhverjum tilvikum óskað eftir álitsgerð þegar ágreiningur hefur verið kominn upp um valdsvið ráðuneyta. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að hagsmunir ráðuneyta kunna að skarast í dómsmáli. Það liggur í eðli málsins að það er ekki á verkefnasviði embættis ríkislögmanns að reka mál þegar svo stendur á að aðilar dómsmáls eru sitt hvor fyrirsvarsmaður ríkisvaldsins. Þegar svo stendur á að þeir aðilar sem embætti ríkislögmanns á að annast málarekstur fyrir fari í dómsmál gegn hvor öðrum yrðu þeir báðir að leita til sjálfstætt starfandi lögmanna. Ekkert hefur reynt á slíkt þótt nærri hafi reyndar legið upp á síðkastið.
    Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að svarið sem var stutt nægi. Það var eitt orð, nei. En útskýringar komu fram frekar í minni ræðu.