Embætti ríkislögmanns

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:37:08 (146)


[16:37]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hér hefur orðið og þeim sem tekið hafa til máls vegna þess að ég held að það hafi sannarlega skýrt ýmislegt fyrir okkur sem hér störfum. Þá sérstaklega það hvernig líta ber á úrskurði, eða réttara sagt álitsgerðir ríkislögmanns, ekki sem úrskurði eða dómsniðurstöðu. Því er stundum haldið fram, alveg réttilega kom það fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að niðurstöður Ríkisendurskoðunar og niðurstöður ríkislögmanns séu einhvers konar dómsúrskurðir. Svo er alls ekki.
    Við í fjmrn. höfum skoðað það hvort það borgi sig að leggja niður þetta embætti og út frá ríkissjóði séð sjáum við ekki annað en að það væri talsvert dýrara að leggja niður embættið með þeim hætti að vísa öllum málum til lögfræðinga úti í bæ. Hitt er svo annað mál að í stórum stíl er það gert og við höfum staðið að slíku upp á síðkastið, a.m.k. í tveimur tilvikum sem ég man eftir nýlegum, að fela lögmönnum á lögmannsskrifstofum annars staðar en í ráðuneytunum að taka að sér ákveðin mál.
    Þá vil ég einnig taka það fram að til að koma í veg fyrir misnotkun á þessu embætti hefur sá háttur verið hafður á að ríkislögmannsembættið tekur gjald fyrir álitsgerðir til þess að koma í veg fyrir að viðkomandi ráðherrar séu að ofnota ríkislögmann og til þess að hvetja þá m.a. til þess að versla við aðra aðila sem auðvitað eiga sinn rétt á því, eins og aðrir, að fá að taka þátt í að vinna álitsgerðir fyrir hið opinbera. Þannig að komi fram síðar á þessu þingi þingmál eins og hv. þm. boðaði þá fagna ég því, því þá gefst okkur tækifæri til að ræða þessa hluti betur þótt ég geti ekki á þessari stundu sagt að það þingmál verði til þess að breyta minni skoðun á málinu.