Aukatekjur ríkissjóðs og gjaldtaka ríkisstofnana

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 16:47:37 (149)


[16:47]

     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Ég er út af fyrir sig mjög ánægður með að það skuli vera stefnt að því að leggja fram í vetur breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs. En ég verð að segja það eins og er að mér eru það dálítil vonbrigði að ekki skuli vera farið að vinna af fullum krafti að því að koma einhverri reglu á hlutina í sambandi við innheimtu hinna ýmsu stofnana ríkisins á gjöldum. Ég hélt satt að segja að það væri þessari hæstv. ríkisstjórn sem nú situr dálítið kappsmál að koma skikki á þá hluti. Hún hefur innleitt hér meira af þjónustugjöldum að ég held en nokkur önnur ríkisstjórn sem hefur setið og það er þess vegna full ástæða til að vanda sig svolítið við það hvernig farið er að þeim sem eiga að greiða þessi gjöld. Ég tel að ríkið hafi gengið fram með ótrúlega ósiðlegum hætti í innheimtu þjónustugjalda af ýmsu tagi. Menn hafa vogað sér að setja fram gjaldtöku sem hefur ekki verið í neinu samræmi við þá þjónustu sem hefur verið leyst af hendi. Öll höfum við sjálfsagt upplifað það að mæta á einhverri skrifstofu hins opinbera og þurfa að greiða peninga, fyrir einhverja eins eða tveggja mínútna afgreiðslu, þúsundkall eða eitthvað því um líkt sem virðist vera ákveðið bara svona út í loftið, ekki með neinu tilliti til þess hvað verið er að gera á viðkomandi stað fyrir viðkomandi viðskiptavin. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju að Alþingi Íslendinga samþykkti þessa þáltill.
    Ég vona að hæstv. ráðherra beiti sér nú fyrir því að þetta verði látið ganga hratt fyrir sig. Ég held satt að segja að það væri a.m.k. þessari ríkisstjórn, ef hún lifir eitthvað áfram, fyrir bestu að það yrði komið skikki á þessi mál.