Jöfnunar- og undirboðstollar á skipasmíðaverkefni

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:01:20 (153)


[17:01]
     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Það þolir enga bið að snúa vörn í sókn í íslenskum skipaiðnaði sem hefur búið við miklar þrengingar í hátt í áratug. Nú er svo komið að starfsmönnum í þessari grein hefur fækkað um a.m.k. helming og flest skipaiðnaðarfyrirtækin eru á síðasta snúningi og þola ekki óbreytt ástand miklu lengur. Það sem veldur þessu ástandi fyrst og fremst eru undirboð og ríkisstyrkir samkeppnisþjóða okkar sem hafa leitt til þess að flest meiri háttar nýsmíða- og endurbótaverk hafa verið framkvæmd erlendis á undanförnum árum. Við þessu verður að bregðast. Við megum ekki missa niður þá þekkingu og reynslu sem er í þessari iðngrein og mun glatast ef svo fer sem horfir. Þjóð sem byggir afkomu sína á fiskveiðum og útgerð verður að hafa öflugan skipaiðnað sem getur veitt flotanum góða þjónustu. Þjóðin hefur áhyggjur af atvinnuleysi og menn leita stöðugt að nýjum atvinnutækifærum. Í skipaiðnaðinum er möguleiki á stórfjölgun starfsmanna ef okkur tekst að beina verkefnunum heim. Þess vegna verður að finna ráð til að mæta ríkisstyrkjum og undirboðum samkeppnisþjóðanna. Það þolir enga bið og til skoðunar hljóta að koma ýmsir möguleikar, þar á meðal þeir jöfnunartollar sem getið er um í þeirri fyrirspurn sem hér er til umræðu.
    Virðulegi forseti, ég vil að lokum lýsa ánægju minni með það sem kom fram í máli hæstv. fjmrh. að ríkisstjórnin skuli vera að fjalla um þetta mál um þessar mundir.