Jöfnunar- og undirboðstollar á skipasmíðaverkefni

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:04:11 (155)


[17:04]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hér flutti hæstv. fjmrh. dæmalausa undansláttarræðu. Á 6--10 árum hafa Íslendingar tapað 600--800 störfum í íslenskum skipasmíðaiðnaði. Enn verðum við að þola það að ráðherrar komi hér upp og segi: Það er verið að skoða, það er verið að safna gögnum. Það er verið að gera ekki neitt. Nú er þó Jón Sigurðsson farinn upp í Seðlabanka. Hann þvælist ekki lengur fyrir þessu máli. Það er undarleg staða --- íslenska þjóðin lifir á sjávarútvegi --- að það skuli vera að gerast í þessu landi að hér verður hvorki hægt að smíða skip né gera við þau. Þess vegna hlýtur það að vera krafa okkar að þessi mikilvæga atvinnugrein verði ekki drepin af erlendu valdi. Ég velti því oft fyrir mér, hæstv. forseti, hvort embættismennirnir hér í ráðuneytunum séu á mála hjá erlendum verktökum hvað þetta varðar. Þeir drepa allavega alla heilbrigða hugsun ráðherranna og frumkvæði af þeirra hálfu.