Rjúpnastofninn

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:25:53 (166)


[17:25]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrir hönd umbjóðenda minna, rjúpunnar í landinu, þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir þá samúð sem hún hefur með þessum hrjáða fugli og ég vænti þess, af því að mér er einkar hlýtt til þessa þingmanns, að sú samúð sé gagnkvæm.
    Það er hárrétt hjá hv. þm. að rjúpnastofninn er í lægð. Hún varpar til mín tveimur spurningum og sú fyrri er: Liggja fyrir upplýsingar um stofnstærð rjúpunnar? Því er til að svara að það liggja ekki fyrir nándar nærri nógu nákvæmar upplýsingar um stofnstærðina. Það er að vísu svo að fyrir skömmu gerði Skotvís, Skotveiðifélag Íslands, skoðanakönnun um neyslu á rjúpu og þá kom fram að landsmenn neyta u.þ.b. 100 þúsund rjúpna um sérhver jól. Á þeim grundvelli töldu fuglafræðingar mögulegt að reikna út að hauststofninn væri 1 milljón fugla. Ég vil draga þá útreikninga í efa. En eigi að síður er það svo að talningum hefur verið beitt um árabil til þess að reyna að meta breytingar á stofnstærðinni. Þessar talningar ásamt könnunum á útflutningi á rjúpu sem var talsverður milli áranna 1840 og 1950 sýndu einmitt þessar reglubundnu sveiflur á stofnstærðinni sem hv. þm. gat um áðan. Þær taka að jafnaði 10 ár og eru svipaðar og koma fram hjá fjölmörgum dýrastofnum á norðurhveli jarðar og engin einhlít skýring er á. En talningagögn frá 1950 sýna að það er líklegt að fjöldi para hafi sveiflast frá 50 þús. pörum og upp í 200 þús. pör og líkast til var stofninn minnstur árin 1969 og 1970. Nú hefur um skeið verið talið á ellefu stöðum á landinu og þær talningar benda til þess að stofninn sé í mikilli lægð. Sumir fuglafræðingar segja í mestri lægð en um það er deilt.
    Það er sérstakt áhyggjuefni, sem einmitt kom fram í máli hv. þm., að stofninn sýnir engin batamerki því miðað við fyrri reynslu þá ætti hann nú þegar að vera farinn að stækka. Það er mögulegt að aukið veiðiálag á síðustu árum sem tengist til að mynda stórfelldum veiðum jeppa- og snjósleðamanna eigi hér einhverja sök.
    Seinni spurningin, virðulegi forseti, er hvort ráðherrann hyggist beita sér fyrir aðgerðum til verndar rjúpnastofninum.
    Svarið er já. Mér er að vísu nokkur vandi á höndum. Það er bundið í lög hvenær veiðitíminn á að vera og það er einungis hægt að víkja frá því ef gild rök liggja til þess, en það er eins og ég sagði áðan deilt um þetta á meðal fuglafræðinga, og ef fuglafriðunarnefnd, sem er hinn faglegi aðili sem á að vera ráðherra til ráðgjafar, telur að það sé rétt. Ég hef í framhaldi af mjög eindregnum tilmælum sem til mín hefur verið beint og vegna fjölmargra fyrirspurna frá bændum og reyndar líka skotveiðimönnum um land allt, beint mjög sterkum tilmælum til fuglafriðunarnefndar að hún kannaði hvaða aðgerða væri hægt að grípa til, til þess að draga úr rjúpnaveiði. En samkvæmt 13. gr. laganna sem gilda um fuglaveiði og fuglafriðun þá getur umhvrh. ákveðið hertar friðunaraðgerðir varðandi rjúpu að fenginni tillögu nefndarinnar. Ég hef á grundvelli þeirrar niðurstöðu sem nefndin komst að ákveðið að stytta veiðitímann á þessu ári. Í stað þess að hann verði frá 15. okt. til 22. des. mun ég á næstu dögum tilkynna formlega þá ákvörðun mína að veiðitíminn verði einungis frá 15. okt. til 22. nóv.
    Nú er rétt að það komi fram að þetta felur ekki í sér verulega friðun á rjúpunni vegna þess að langmesta átakið er á fyrri hluta tímabilsins, áður en snjór er kominn, en rjúpan er búin að taka á sig hinn hvíta lit og er þess vegna auðveldara að veiða hana. Þetta birtir eigi að síður þá stefnu þessa ráðherra að varúðarreglan á að vera einn af hornsteinum umhverfisverndar og samkvæmt henni ber náttúrunni að njóta vafans þegar ákvarðanir um svona aðgerðir eru teknar. En ég mun í framhaldi af þessu og þeim gögnum sem fyrir liggja beita mér fyrir því að það verði hafnar auknar rannsóknir á rjúpnastofninum.
    Varðandi veiðiálagið sem hv. þm. ræddi um þá er það í sjálfu sér alls ekki rétt að það þurfi endilega að vera meiri veiðigeta núna heldur en áður fyrr. Ég bendi á, eins og ég sagði áðan, að talið er að það séu veiddar u.þ.b. 100 þús. rjúpur á ári hverju, en t.d. voru árið 1927 fluttar út 253 þús. rjúpur.