Rjúpnastofninn

10. fundur
Mánudaginn 11. október 1993, kl. 17:36:48 (171)


[17:36]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. hafa e.t.v. ekki hlýtt nægilega vel á mál mitt. Eins og ég greindi frá áðan þá eru hendur mínar bundnar af því að í lögum er skýrt tekið fram að ég verð að fá tillögur frá Fuglafriðunarnefnd Íslands um þessar friðunaraðgerðir. Það er skemmst frá því að segja að þar eru menn ekki sammála þessu og þær friðunaraðgerðir sem ég hef ákveðið að grípa til ganga talsvert lengra heldur en menn þar vildu gera. Það er nefnilega þannig, eins og hv. þm. Árni M. Mathiesen sagði áðan, að núverandi lög eru algjörlega ófullnægjandi. Ráðherra hefur nær ekkert svigrúm til þess að grípa til friðunaraðgerða og þess vegna er svo nauðsynlegt að samþykkja það frv. sem hér hefur legið fyrir tvö þing án þess að hljóta náð fyrir augum þingsins. Varðandi þá gagnrýni sem hér hefur komið fram að það hefði frekar átt að stytta veiðitímann í hinn endann þá hefur það nokkuð til síns máls að því leyti til að það mundi leiða til þess að mun færri fuglar yrðu skotnir. Líffræðingar eru hins vegar þeirrar skoðunar að fall rjúpunnar sé fyrst og fremst í fyrstu hausthretunum og í vetrarstormunum. Með öðrum orðum: Þeir fuglar sem

enn eru á lífi þegar kemur fram í desember eru hraustustu og sterkustu fuglar stofnins og það ríður á að friða þá. Þó að þessi friðunaraðgerð geti einungis leitt til þess að veiðiálagið minnki um 15% þá þýðir það eigi að síður að það er miklu stærri hluti af þeim fuglum sem eiga von um að verða sterkir og komast áfram og byggja upp stofninn sem lifa af heldur en ef það væri stytt í hinn endann.
    Þetta vildi ég segja til þess að útskýra á hvaða rökum þessi ákvörðun er byggð. Ég vil hins vegar að það komi fram að ef niðurstöður þeirra rannsókna, sem væntanlega verða gerðar á næsta ári, sýna það svart á hvítu sem um er deilt hjá fuglafræðingum að stofninn sé í algjörri lægð --- það er bara einn fuglafræðingur sem heldur þessu fram, hinir telja að svo sé ekki, sumir segja jafnvel að stofninn sé ekkert sérstaklega lágt staddur um þessar mundir --- þá mun ég íhuga að grípa til frekari friðunaraðgerða eins og m.a. þess að friða miðhálendið einmitt fyrir þeirri tegund styrjaldar sem hv. þm. Guðni Ágústsson lýsti svo vel hér áðan.