Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 14:29:28 (176)


[14:29]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. hefði getað sparað sér það að koma hér upp með í þessu andsvari vegna þess að ég hef þegar svarað fyrirspurn hans í minni ræðu. Þar kom fram í fyrsta lagi að ég og hæstv. utanrrh. erum að vinna að því að tína saman hugmyndir sem má nota þegar að því kemur að ríkisstjórnin . . .   ( ÓÞÞ: Hvar fer tínslan fram?) ( SJS: Í berjamó.) Tínslan fer m.a. fram með því að fletta fjárlagafrv. og koma fram með þær hugmyndir sem hægt er til sparnaðar í ríkisrekstrinum, en mér þykir hins vegar ekkert einkennilegt að hv. þm. sem hér talaði, sé hissa á því að það sé reynt því að enginn var meiri eyðsluseggur í ríkisfjármálum en hann. Hann gat aldrei neitt þegar átti að koma við sparnaði. (Gripið fram í.) Þetta er annar þátturinn.
    Ef ég fæ svo, virðulegi forseti, að halda áfram með svarið í þessu andsvari, þá hefur það farið fram hjá virðulegum þingmanni að í fyrsta skipti í nokkuð mörg ár hefur verið unnin ítarleg skýrsla um skattsvik. Það var ekki gert þegar síðasta ríkisstjórn sat að völdum. Í þessari skýrslu er ítarlega fjallað um skattsvikin og vörn gegn þeim. Í nefndinni sátu fulltrúar aðila vinnumarkaðarins og á þeim málum hefur þegar verið tekið eins og kom fram í framsöguræðu minni. Annaðhvort hefur hv. þm. verið sofandi eða ekki í þingsalnum þegar um þessi mál var fjallað.