Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 15:49:15 (185)


[15:49]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það má vera að það sé til gagns að ég nefni hér bara tvö atriði að þessu sinni. Ég vil mótmæla því sem kom fram frá hv. þm. að yfirlýsing í fréttatilkynningu um heildarskattbyrði landsmanna sé röng. Þar stendur skýrum stöfum að það sé verið að tala um heildarskattbyrðina, þ.e. skattbyrði bæði af fyrirtækjum og einstaklingum.
    Ég hef látið taka saman skatta og eins skatta miðað við landsframleiðslu sem hefur farið lækkandi þannig að nefnarinn lækkar sem hefur auðvitað tilhneigingu til þess að hækka hlutfallið. Það kemur í ljós að á yfirstandandi ári eru skatttekjur yfir 24,3%. Það er nákvæmlega sama hlutfall og var árið 1991 og 1990 þótt landsframleiðslan hafi dregist verulega saman. Á næsta ári verður hún 24,5%.
    Ef litið er á skatttekjurnar á föstu verðlagi kemur í ljós að á næsta ári er hún lægri, það þarf að leita allt aftur til ársins 1987 og í ár er hún lægri heldur en 1989, 1990 og 1991. Þetta held ég að sé nauðsynlegt að hafa í huga þegar rætt er um þetta og menn, eins og ég veit að hv. þm. vill, hafa það sem sannara reynist.
    Hv. þm. minntist líka á það hvernig frávik vilja verða frá fjárlögum til niðurstaðna á viðkomandi ári. Ég hef einnig látið taka þetta saman og það er ljóst að á yfirstandandi ári má búast við því að mismunurinn verði um 97--100% eða þar um bil, á sl. ári um 75% en árið 1991 var munurinn 208%. Árið 1990 var munurinn minnstur eða 20%. Árið 1989 var munurinn hins vegar hvorki meira né minna en 1000% og rúmlega það og mestur 1988 þegar hann var 13.000%, svo að notaður sé prósentureikningur. Þetta þýðir að sjálfsögðu að smám saman hefur þetta farið batnandi og skýringar hafa komið fram hvers vegna mismunurinn er í ár, hann er m.a. vegna kjarasamninga. Vona ég að þetta skýri rækilega það sem kom fram hjá hv. þm.