Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 16:58:00 (197)

[16:58]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Ríkisfjármálin og stjórn þeirra munu ráða miklu um hina efnahagslegu framvindu á næsta ári og þess vegna er það deginum ljósara að fjárlögin munu hafa mikil áhrif hér á landi á næstu árum, fjárlagagerðin nú eins og fjárlagagerðin endranær. Að undanförnu hefur fjárlagagerðin mótast af því að við höfum verið að aðlaga okkur að lægri tekjum en við bjuggum við á árunum á undan. Markmið fjárlaganna er auðvitað margþætt, m.a. það að tryggja hér tiltekið efnahagslegt jafnvægi, en ekki síður hitt, sem ég held að skipti kannski hvað mestu máli, að markmið fjárlaganna er í sjálfu sér það að skapa tiltekinn efnahagslegan ramma sem er atvinnulífinu hagfelldur og gerir það að verkum að atvinnulífið sjálft geti eflst og dafnað. Þetta held ég að sé í raun og veru það sem mestu máli skiptir þegar við erum að tala um ríkisfjármálin. Þau hafa ekki í sjálfu sér tilgang að öðru leyti en því auðvitað að við erum með tiltekinn ríkisbúskap og við erum með tiltekna þjónustu á vegum ríkisins, en aðalatriðið er auðvitað það að með ríkisfjármálunum erum við að tryggja það að gangverk atvinnulífsins sem er undirstaða ríkisfjármálanna í reynd verði sem ótruflaðast og sem öflugast.

    Það er auðvitað hægt að benda á það að mjög margt hefur verið okkur öndvert upp á síðkastið í efnahagsmálum okkar og þá alveg sérstaklega það að tekjurnar hafa verið að dragast saman. Þrátt fyrir það held ég að sé hægt að benda á með nokkrum rökum að við höfum líka verið að ná verulegum árangri, árangri sem máli skiptir.
    Ég vil í þessu sambandi nefna tvö atriði sem undirstrika það sem ég sagði hér áðan að væru grundvallaratriði varðandi ríkisfjármálin sjálf. Það er í fyrsta lagi það að eins og fram kemur hér í greinargerð með fjárlagafrv. og þjóðhagsáætlun þá hefur tekist að stöðva skuldasöfnun við útlönd þó að því miður sé það svo vegna minnkandi landsframleiðslu að hlutfall erlendra skulda af landsframleiðslu hafi farið vaxandi. Hins vegar hitt sem ég held að skipti ekki síður máli og er grundvallandi hagstærð fyrir okkur og það er að lánsfjárþörf hins opinbera, sem er atriði sem menn hafa meira og meira beint sjónum sínum að, hefur verið að dragast saman og minnka ár frá ári allt frá árinu 1991 þegar lánsfjárþörfin nam um 45 milljörðum kr. á núgildandi verðlagi og gerði meira en éta upp allan nýjan, innlendan sparnað hér á landi á því ári. Á næsta ári stefnir í það að þessi lánsfjárþörf verði 23 milljarðar kr. sem er nokkru minna heldur en á þessu ári.
    Af hverju nefni ég þetta? Af hverju tek ég þetta hugtak sérstaklega út úr, hina opinberu lánsfjárþörf? Ástæðan er sú að menn hafa horft á þetta og sagt sem svo: Það er hin opinbera lánsfjárþörf, það er þörf og þorsti ríkisins eftir lánsfé sem mun ráða mjög miklu um vaxtastigið í landinu. Vaxtastigið hefur áhrif á kjör og afkomu allra heimila í landinu. Vaxtastigið hefur líka áhrif á stöðu atvinnulífsins og er örugglega grundvallandi þáttur fyrir framvindu atvinnulífsins að öllu leyti.
    Ég er þess vegna alveg sammála því að það skiptir afar miklu máli fyrir framvindu efnahagslífsins, ekki síst fyrir atvinnulífið, hvernig til tekst um stjórn ríkisfjármála og hvernig til tekst um það að draga úr hinni opinberu lánsfjárþörf. Út af fyrir sig er það auðvitað rétt að það er ýmislegt sem bendir til þess að hin opinbera lánsfjárþörf, lánsfjárþörf opinberra aðila, hafi minni efnahagslega þýðingu hér á landi en sums staðar annars staðar og það er í sjálfu sér líka rétt að hallarekstur ríkissjóðs hér á landi er hlutfallslega minni en t.d. í OECD-ríkjunum eða Evrópuríkjunum þar sem hallareksturinn er allt að 10% af landsframleiðslu. Það er því í sjálfu sér rétt að þessi þáttur er kannski ekki alveg jafnráðandi um vaxtamyndunina í landinu og stundum hefur verið látið í veðri vaka. Þetta stafar m.a. af því að við höfum hér á landi mjög veikburða atvinnulíf, atvinnulíf sem er skuldugra en atvinnulíf annarra þjóða almennt talað og þess vegna hefur eftirspurn eftir lánsfé að svo miklu leyti komi fram hjá atvinnulífinu sjálfu. Þess vegna er það mikið öfugmæli þegar menn tala sem svo að þær efnahagslegu skattaráðstafanir, sem gerðar voru á þessu ári og miðuðu að því að styrkja eiginfjárstöðu atvinnulífsins með því að lækka skatta þess, séu eitthvað neikvætt, eitthvað sem menn geti fundið að. Ég held þvert á móti að afnám aðstöðugjaldsins og lækkun tekjuskatta hafi verið mjög veigamikill þáttur í því að tryggja það að lánsfjárþörf atvinnulífsins gæti minnkað að hægt væri að bæta eiginfjárstöðu atvinnulífsins og þannig hafa áhrif á það að hin efnahagslegu skilyrði til vaxtalækkunar yrðu til staðar.
    Í mínum huga er það enginn vafi að það sem er neikvæðast í þeirri efnahagslegu þróun sem hefur verið á Íslandi undanfarin allmörg ár er hið háa raunvaxtastig. Og ég er sammála því sem fram hefur komið í athyglisverðri grein eftir Ragnar Árnason prófessor í Háskóla Íslands að til viðbótar við hina ytri efnahagslegu erfiðleika hafi hið háa raunvaxtastig í raun og sannleik orðið til þess að bæði dýpka hina efnahagslegu lægð sem við erum stödd í og framlengja hana. Það er svo eins og hann hefur bent á í athyglisverðri grein í tímaritinu Vísbendingu hinn 6. sept. sl. að þessir háu vextir hafi átt ríkan þátt í því að koma atvinnurekstri á kné og draga úr fjárfestingu einkaaðila. Og hann vekur athygli á því að bæði hafa heildarfjárfestingar á Íslandi dregist saman um fjórðung frá árinu 1987 og það sem er kannski alvarlegast, fjárfestingar ativnnulífsins sjálfs hafa minnkað um hér um bil helming. Síðan segir Ragnar Árnason:
    ,,Jafnframt þessu hefur hávaxtastefnan aukið verulega rekstrarerfiðleika fyrirtækjanna. Augljóst er að hvort tveggja, samdrátturinn í fjárfestingum og rekstrarerfiðleikar fyrirtækjanna, hefur dregið verulega úr eftirspurn úr hagkerfinu og þar með umsvifum í þjóðarbúskapnum.``
    Það er mitt mat að nú séu til staðar mjög miklar og ríkar efnahagslegar forsendur til mikillar vaxtalækkunar hér á landi og ég ætla að nefna í þessu sambandi fimm atriði sem að mínu atriði skipta mjög miklu:
    1. Eins og ég hef þegar rakið, þá hefur tekist á undanförnum tveimur árum og gott betur að draga svo úr lántökuþörf hins opinbera að hún er núna um helmingur af því sem hún var á árinu 1991. Þarna hefur auðvitað verið stigið hvað mikilvægasta skrefið til þess að skapa forsendur til verulegrar vaxtalækkunar í landinu.
    2. Hér ríkir samdráttur í efnahagslífi. Það er engin hætta á þenslu núna eins og var t.d. á árunum 1987 eða 1988 vegna þess að tekjurnar hafa verið að dragast saman. Og þess vegna er engin hætta á því þó það verði veittur einhver slaki á peningamálastjórninni með því að lækka vexti verulega, þá mun það ekki kalla á neina efnahagslega þenslu. Það mun ekki leiða til þess t.d. að hér hefjist gegndarlaus ótímabær innflutningur.
    3. Raungengi íslensku króununnar er núna lægra heldur en það hefur verið mjög lengi. Er hér auðvitað um að ræða mjög mikilvæga vísbendingu um samkeppnisstöðu atvinnulífsins, sjávarútvegsins, iðnaðarins, samkeppnisgreinanna, en hér er hins vegar ekki um að ræða nægjanlega forsendu vegna þess að

ýmsar ytri aðstæður eru okkur mjög óhagstæðar.
    4. Sem betur fer hefur tekist að vinda svo ofan af viðskiptahallanum að hann er minni núna heldur en hann hefur verið um margra ára skeið. Og vöruskiptajöfnuðurinn, þ.e. sambland útflutnings og innflutnings, vöruskiptajöfnuðurinn núna er okkur hagstæðari heldur en hann hefur verið um mjög langt árabil og þess vegna er það svo að áhyggjur okkar af því að lægri vextir kalli á mikinn innflutning eru tilefnislausar.
    5. Eins og fram hefur komið í máli nokkurra annarra ræðumanna hér áðan erum við með minni fjárfestingu núna sem hlutfall af landsframeiðslu heldur en við höfum þekkt árum saman. Ég tel að það sé engin ástæða til að setja beint samband á milli fjárfestinga og lífskjara í landinu. Við vitum auðvitað um það að við Íslendingar höfum fjárfest í gegnum tíðina meira á löngum tímum en aðrar þjóðir án þess að það hafi skilað okkur samsvarandi bata í okkar efnahagslífi. Við höfum auðvitað gert okkar efnahagslegu fjárfestingarmistök og við höfum bundið meira af fjárfestingum okkar, t.d. í húsnæði, sem ekki hefur skilað auknum arði inn í okkar efnahagslíf umfram aðrar þjóðir, þannig að í sjálfu sér má ekki setja beint samband á milli fjáfestinga og batnandi eða versnandi lífskjara. En engu að síður er það svo að þessar litlu fjárfestingar, sem við erum með núna, eru auðvitað komnar niður í svo alvarlegt lágmark að það hlýtur að hafa afgerandi áhrif á lífskjör okkar til lengri tíma litið.
    Ég hef heyrt þeim rökum fleygt að ástæðan fyrir því að hér séu háir vextir sé sú að bankakerfið í landinu hafi orðið að afskrifa mikið fé vegna tapaðra útlána. Það er rétt. Bankakerfið í landinu hefur þurft að afskrifa meira fé undanfarin ár en áður vegna tapaðra útlána þótt þær afskriftir séu verulega minni en t.d. á Norðurlöndunum. En hins vegar er það þannig að reynsla annarra þjóða bendir einfaldlega til þess að lægri vextir muni þvert á móti bæta hag útlánakerfisins, bankakerfisins í landinu. Það er mjög fróðlegt og mjög eftirtektarvert að rifja það upp sem fram kom í frétt í Morgunblaðinu núna í haust að einmitt lægri vextir í sænska bankakerfinu hafi haft mest að segja um það að hagur þess hefur farið batnandi á síðustu mánuðum og menn hafa þar verið að snúa miklu tapi í hagnað að nýju. Það er örugglega rétt sem fram hefur komið hjá mjög mörgum að okkar fjármagnskerfi er fábrotið, okkar fjármagnskerfi er á margan hátt ólíkt því sem gerist hjá öðrum þjóðum. Menn hafa sagt sem svo að einmitt vegna þess hve fjármagnskerfið er fábrotið og að sumu leyti vanþróað þá tekst okkur ekki að færa hér niður vextina.
    Ég hef hins vegar leyft mér að halda því fram áður að einmitt það hversu fjármagnskerfið er fábrotið og að sumu leyti vanþróað gerir það að verkum að það er auðveldara að færa niður vexti og lækka vexti hér á landi heldur en víða annars staðar. Menn tala stundum um þennan fjármagnsmarkað sem eitthvað óskilgreinanlegt stærðarinnar fyrirbrigði sem erfitt sé að ná utan um. Þannig er þetta auðvitað hjá milljónaþjóðfélögunum en hvernig er þetta hjá okkur? 40% af öllu lánsfé í landinu er í eigu lífeyrissjóðanna. Hverjir ráða þeim? Eru það ekki hinir sömu í veigamestu atriðum sem kallast aðilar vinnumarkaðarins og hafa verið að biðja um vaxtalækkun? Hverjir eru aðrir aðilar að þessum fræga fjármagnsmarkaði? Það eru í öðru lagi bankarnir, sparisjóðirnir og að hluta til þar með ríkisbankarnir. Og loks er það auðvitað ríkisvaldið sjálft með því að vera stærsti einstaki lántakandinn á innlendum fjármagnsmarkaði. Þetta finnst mér benda til þess að vandi okkar við það að lækka vexti eftir að vera búin að skapa hin efnahagslegu skilyrði eins og gert hefur verið með traustri og góðri fjármálastjón undanfarinna tveggja ára hefur auðvitað gert það að verkum að möguleikar okkar á því að lækka vexti verulega og tafarlaust eru núna fyrir hendi miklu ríkari heldur en oftast nær áður. ( Gripið fram í: Samt hækka þeir alltaf.) Og samt hækka þeir alltaf. Hver er ástæðan? Hún er einfaldlega þessi: Þeir sem ráða yfir peningunum í landinu og tala í öðru orðinu um mikilvægi þess að lækka vexti, ekki síst fulltrúar lífeyrissjóðanna, hafa auðvitað ekki staðið við það að vilja lækka vextina eins og eðlilegt er og ég tel að allar efnahagslegar forsendur séu til staðar til að gera. ( SvG: Ert þú á móti kapítalismanum?) Alls ekki. Hér greip fram í fulltrúi einkavæðingarinnar sem hefur mjög flutt þann málstað í þingsölunum. Ég held að menn þurfi að átta sig á því hvert raunvaxtastigið í landinu er hjá öllum almenningi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn átti sig á því að sú raunvaxtalækkun, sem nauðsynleg er og ég hef verið að tala mjög ákveðið fyrir, þarf að gerast bæði hratt og hún þarf að gerast með trúverðugum hætti. Ég tel að það sé mjög raunhæft markmið vegna þeirra aðstæðna, þeirra ágætu efnahagslegu forsendna, sem ég hef rækilega rakið að raunvextir lækki á mjög skömmum tíma um 3%. Hvaða staða er uppi samt sem áður í landinu eftir 3% raunvaxtalækkun? Almenningur í landinu sem fer í banka á möguleika á að fá lán, skuldabréfalán með verðtryggðum kjörum og raunvöxtum sem eru á bilinu 9--10%. Þriggja prósentustiga lækkun á raunvöxtum í landinu gerði það samt sem áður að verkum að raunvextir væru enn þá á milli 6 og 7%.
    Það sjá auðvitað allir að þetta háa raunvaxtastig getur ekki gengið og það er ekki bara um að ræða hagsmuni einstaklinganna og atvinnulífsins, það er ekki síður um að ræða hagsmuni ríkissjóðs sjálfs. Það hefur komið fram og kemur fram í fjárlagafrv. að eins prósentustigs lækkun á raunvöxtum þýðir 800 millj. kr. í betri afkomu á ríkissjóði. Þetta eru hin beinu áhrif. Hin óbeinu áhrif, sem mundu verða sjálfkrafa með raunvaxtalækkun, mundu efla og örva atvinnulífið og hefðu líka áhrif á jákvæðan hátt fyrir ríkissjóð sjálfan.
    Virðulegi forseti. Ég hef eins og aðrir kosið að ræða ekki einstök efnisatriði þessa fjárlagafrv., ég tel að það sé eðlilegra að það bíði bæði vinnu fjárln. og 2. umr. fjárlaga. Ég hef hins vegar fjallað um þann efnahagslega ramma sem ríkisfjármálin eru og hefur mikla þýðingu fyrir atvinnulífið og einstaklingana. Ég

tel að eitt markmið ríkisfjármála sé, eins og ég nefndi áðan, að tryggja efnahagslegt jafnvægi og skapa atvinnulífinu og þar með einstaklingunum rekstrarlegan grundvöll og það verður ekki síst gert með því að ríkisfjármálin séu trúverðug og að þau skapi skilyrði til raunvaxtalækkunar. Ég tel að núv. hæstv. ríkisstjórn hafi með ágætri fjármálastjórn ríkisfjármálanna skapað þessi skilyrði eins og ég hef þegar rakið og með því að vinna öflugt starf á þeim grundvelli séu forsendur til þess að lækka mjög verulega vexti í landinu.