Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 17:28:02 (205)


[17:28]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það þarf náttúrlega ekki annað en að líta á það fjárlagafrv. sem hér er verið að

ræða og fjárlögin frá síðasta ári til þess að sjá það að tekjur ríkisins á milli ára eru að dragast saman þannig að þetta er auðvitað alrangt sem hv. þm. var að halda fram í sínu máli.
    Í annan stað hitt, þá vita það náttúrlega allir og hv. þm. Finnur Ingólfsson ætti að vita það a.m.k., þá hefur núv. hæstv. ríkisstjórn verið að stórauka fjárfestingarframlög ríkisins, bæði í vegamálum og ýmsum öðrum málum beinlínis til þess að treysta atvinnuna í landinu. Þess vegna er það alveg fráleitt þegar hv. þm. segir það að sú stefna í ríkisfjármálunum hafi orðið til þess að dýpka kreppuna og framlengja hana og draga úr fjárfestingu því fjárfestingunum hefur þó verið haldið uppi með þessum hætti. Ég hef hins vegar verið að halda því fram að nú sé komið lag til þess vegna ábyrgrar ríkisfjármálastefnu hæstv. ríkisstjórnar að lækka vexti mjög verulega. Hv. þm. hefur aldrei í sínu máli andmælt því að þetta lag sé til staðar. Hins vegar fór hann með þessa gömlu plötu Framsfl. að það sé eina leiðin til þess að skapa hér líf að nýju í þessu þjóðfélagi að það eigi að taka erlend lán. Það væri fróðlegt ef hv. þm. mundi upplýsa okkur um það hvaða leið aðra Framsfl. hefði viljað fara að þessu. Hefði Framsfl. viljað taka aukin erlend lán, hækka skatta eða skera eitthvað annað niður? Það hefði verið fróðlegt að heyra það í andsvari hans áðan.