Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 17:29:57 (206)


[17:29]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegur forseti. Hér hefur mikil umræða farið fram um frv. til fjárlaga. En fjárlög eru að sjálfsögðu stýritæki í fjármálum ríkisins. Það stýritæki hefur augljóslega verið mjög bilað undanfarin tvö ár eins og hér hefur mjög greinilega komið fram í umræðunum. Menn tala hér mikið um trúverðuga stefnu í ríkisfjármálum og það er einmitt á bls. 245 í fjárlagafrv. sérstakur kafli um það sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Lykilatriði í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar er að fylgt verði trúverðugri stefnu í ríkisfjármálum þar sem markvisst verði dregið úr halla ríkissjóðs á næstu árum án þess að hækka skatta.
    Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að hallinn á ríkissjóði á árinu 1994 verði umtalsvert minni en 1993. [Og þykir engum mikið.] Þessu marki verður náð með lækkun ríkisútgjalda en ekki skattahækkunum.``
    Þetta er ekki rétt því allir verða varir við skattahækkunina og hún er hér bæði leynt og ljóst í þessu frv. Síðan er áfram fjallað um þetta, hver lykillinn sé í þessu máli að ná trúverðugri stefnu í ríkisfjármálum. Það er alveg öruggt mál að ríkisstjórnin er ekki með rétta lykilinn og í frv. er ekki ljóst hvernig eigi að framkvæma ýmsa liði. Það er einmitt það sem fólkið í landinu spyr að. Hvernig á að framkvæma? Vegna þess að við höfum áður fengið slík fjárlög og það hefur ýmislegt komið fram í þeim sem er óframkvæmanlegt. Þess vegna er það sem brennur á mönnum hvernig eigi að framkvæma ýmsa liði fjárlaga. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. um það einmitt. Það minnir mig á að það var einhver ræðumaður sem sagði hér í umræðu um stefnuræðu forsrh.: ,,Við lifum á tímum sem stöðugt koma á óvart.`` Það voru orð að sönnu því þessir tímar sem við lifum á koma stöðugt á óvart.
    En mig langar sem sagt að spyrja hæstv. fjmrh. hvernig eigi að framkvæma ýmsa liði fjárlaga. Mig langar að spyrja hæstv. fjmrh. að því hvernig hann hafi hugsað sér hinn nýja meðferðarskatt varðandi vímuefnaneytendur? Ég sé hér að það á að ná 17,5 millj. kr. frá þessum aðilum. Ég hef kynnt mér þessi mál töluvert og það vill nú svo til að þeir sem neyta þessara efna eru því miður að stórum hluta til mjög ungt fólk. Ég fór einmitt á stofnun ekki alls fyrir löngu þar sem 30 sjúklingar voru á slíkri meðferðarstofnun og algengasti aldurinn var 15--18 ára. Ég spyr: Hvernig er ætlast til að þessir aðilar greiði fyrir sig? Og þeir sem eldri eru hafa lifað lengi í þessari óreglu og eiga einfaldlega ekki neina peninga. Mig langar líka að spyrja að því varðandi hin nýju heilsukort hvort þessir aðilar eigi líka að borga heilsukortin. Mig langar líka að fá nánari útfærslu á þessum heilsukortum.
    Það er fleira sem mig langar að spyrja um. Mig langar að spyrja hvernig gengur að semja við sveitarfélögin um rekstur dagheimila sjúkrastofnana. Það kom fram í umræðu fyrir nokkrum dögum að hæstv. heilbrrh. taldi að hann væri farinn að ræða við sveitarfélögin um þessi mál en ég hef kynnt mér það síðan að a.m.k. þau sveitarfélög sem hann sérstaklega tilgreindi að hann væri farinn að semja við hafði hann þá ekki haft samband við. En nú spyr ég: Hvernig standa þessar viðræður? Það þarf ekki að orðlengja það að mikil óvissa ríkir á mörgum heilbrigðisstofnunum og ef þessum dagheimilum verður lokað, sem ýmislegt bendir til, þá loka líka margar deildir sjúkrahúsanna því þær verða ekki færar um að hafa opið vegna skorts á sérhæfðu starfsfólki.
    Mig langar líka að spyrja að því hvað menn hafi hugsað sér varðandi lokun á ýmsum sýsluskrifstofum á landinu. Það er greinilegt ef maður lítur hér yfir fjárlagafrv. að það er ætlast t.d. til að það sé lokað í Borgarnesi. Þar eru aðeins áætlaðar 9 millj. kr. fyrir allt árið sem mér sýnist að dugi til að reka sýsluskrifstofuna í tvo mánuði. Það skýtur nú svolítið skökku við að á sama tíma og verið er að tala um að flytja ríkisfyrirtæki út á land og nýbúið er að koma með tillögur þar að lútandi þá er verið að taka ákvörðun um að loka öðrum. Og ef það fer sem horfir að það verði t.d. lokað í mínu kjördæmi, það má víst ekki tala um sitt kjördæmi lengur hér því það eru víst sérhagsmunir, þá er þjónustu almannatrygginga þannig háttað að fólk verður að keyra allt að 150--200 km til að nálgast þessa þjónustu. Og til að menn glöggvi

sig á hvað fer fram á slíkum skrifstofum þá eru það allar bætur, allar almannatryggingabætur sækir fólk, svo sem ellilífeyri, meðlög, mæðralaun, örorkulífeyri, slysabætur og sjúkradagpeninga. Allar þinglýsingar fara þar fram sem eru í hundraðatali á hverri skrifstofu fyrir sig. Útgefin leyfi eins og vegabréf, meistarabréf, ökuskírteini o.s.frv. Þetta þekkir ráðherra mætavel. Nú er sem sagt verið að loka nýbyggðu skrifstofuhúsnæði. Það er nú svo einkennilegt að þar sem verið er að loka þar eru víðast hvar hallir sem búið er að byggja yfir þessar skrifstofur. En nú á engin þjónusta að fara þar fram nema eitthvað sé í farvatninu sem ekki hefur verið skýrt hér. Fólk bíður eftir að fá svör við þessum spurningum. Þetta skiptir verulegu máli. Þjónustustig úti á landi mun lækka. Ég gæti trúað því að ef fer fram sem horfir þá getum við alveg eins átt von á því að eftir nokkur ár að öll þessi þjónusta fari fram á Stór-Reykjavíkursvæðinu og þessar hallir verði tómar sem verið er að byggja um allt land.
    Það eru þessar spurningar sem brenna á mönnum í dag og auðvitað margar fleiri. Menn hafa hér rætt mikið um vaxtastigið og auðvitað er það það þyngsta fyrir atvinnulífið hversu vaxtastigið er hátt. Það er nú merkilegt að heyra það enn þá einu sinni, maður heyrði þessa sögu fyrir ári síðan, að vextir væru að lækka. Og meira að segja var nákvæmlega sagt frá því að eftir hálfan mánuð mundu vextir lækka um 1%, það var sagt hér fyrir ári síðan. Það hefur ekki gengið eftir og mér sýnast engin teikn á lofti að það sé að gerast. En meðan almenningur á að sýna skilning þá sýna þeir sem skammta sér launin sjálfir engan skilning. Þeir sem tala fyrir hönd stjórnarinnar minna menn stöðugt á Færeyjar og svei mér þá ef það verða ekki örlög þeirra manna sem stýra hér stærstu bankastofnununum og Þjóðhagsstofnun og Byggðastofnun o.s.frv. að fara á nýju jeppunum niður hengiflugið. En ég vona að það fari að koma svör við þessum spurningum sem brenna á fólki varðandi það hvernig eigi að útfæra þessa ýmsu pósta sem eru í fjárlagafrv.