Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 17:40:15 (207)


[17:40]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Umræðan um efnahagsmálin hefur verið í ákveðnum farvegi á undanförnum árum. Fyrst var deilt um vandann, hvort við vanda væri að etja eða ekki og hver þá vandinn væri. Síðan var deilt um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar, þar næst um framkvæmdir ríkisstjórnarinnar og núna er deilt um árangur ríkisstjórnarinnar. ( Gripið fram í: Hann er enginn.) Það er einungis hjáróma rödd hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem gerir lítið úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag. Hann hefur borið það á borð fyrir okkur að aukning á landsframleiðslu um 0,5% þýði það við eigum ekki við vanda að etja. Hann veit það hins vegar jafn vel og við hin að þjóðarframleiðsla eykst ekki vegna þess hversu vaxtajöfnuður er okkur óhagstæður. Og hann hefur átt sinn þátt í því að skapa þann ójöfnuð. Hann veit það líka eins vel og við að þjóðartekjur lækka um tæplega 2% á þessu ári en þjóðartekjurnar eru reiknaðar þegar búið er að taka tillit til viðskiptakjara af þjóðarframleiðslunni. Það er sú tala sem við sláum striki undir og það er sú tala sem segir okkur hversu mikið við höfum milli handanna. Það er staðreynd að sú tala hefur ekki verið lægri síðan árið 1986 og þjóðartekjur hafa lækkað ár frá ári frá árinu 1991. Það er deilt um árangurinn og það er ágætt að það skuli vera deilt um árangur. Því væntanlega fer það ekki fram hjá neinum að skuldasöfnun Íslendinga erlendis hefur verið stöðvuð. Það þýðir að við erum ekki lengur á þeirri sömu leið og frændur okkar Færeyingar hafa því miður orðið að fara. Verðbólga hér á landi er nú svipuð og í Evrópu og horfur eru á að hún verði á næsta ári minni en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Raungengi íslensku krónunnar er lægra en það hefur verið í hálfan þriðja áratug. Það hefur gerst án þess að verðbólgan hafi farið úr böndunum. Viðskiptahallinn má teljast viðunandi miðað við það tekjutap sem þjóðin hefur orðið fyrir. Viðskiptahallinn er í dag í þeirri tölu að erlendar skuldir þjóðarinnar aukast ekki vegna hallans. Þetta er mikilsverður árangur.
    Það verður hins vegar að viðurkennast að okkur hefur ekki tekist að minnka ríkissjóðshallann eins mikið og við hefðum óskað. Ástæðan fyrir því er það tekjutap sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir. Að hluta til má rekja það tekjutap til þess að viðskiptahallinn er nú viðráðanlegri en skattakerfi okkar byggist að miklu leyti á veltusköttum þannig að mikill viðskiptahalli og mikil erlend skuldasöfnun hefði leitt til meiri tekna fyrir ríkissjóð. Ríkissjóðshallinn á einnig rætur sínar að rekja til þess að við höfum varið miklum fjármunum, milljörðum kr., til að halda aftur af atvinnuleysinu. Það verður líka að viðurkennast eins og fram hefur komið í umræðunni í dag að vextir eru of háir. En þeir hafa þó lækkað frá því sem var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Að hluta til eru þessir vextir of háir vegna ríkissjóðshallans og að hluta til vegna ófullkomleika hins íslenska fjármagnsmarkaðar. Ég vil einnig nefna að fjárfesting í þjóðfélaginu er of lítil. Til lengri tíma litið mun fjárfesting af þessari stærð ekki standa undir 3% meðalhagvexti. En hvað er það sem stendur á bak við þann árangur sem ég hef hér rætt? Á bak við árangurinn í lágri verðbólgu er aukið frjálsræði í viðskiptum og aukin samkeppni í verslun en þar á hafa orðið miklar breytingar á síðustu 10 árum. Þar stendur einnig að baki aukinn skilningur verkalýðshreyfingarinnar á því að verðmætaaukning þarf að liggja að baki kjarabótum. Þar stendur einnig að baki fastgengisstefna ríkisstjórnarinnar. Á bak við þann árangur að minnka viðskiptahallann og stöðva erlenda skuldasöfnun standa raunhæfir kjarasamningar, raunhæfar leiðréttingar á gengi, minni einkaneysla og minni fjárfesting. En eins og ég hef nefnt leiðir minni viðskiptahalli óbeint til þess að halli er meiri á ríkissjóði. Ríkisstjórnin hefur þurft að greiða fyrir raunhæfa

kjarasamninga með fé úr ríkissjóði og samneyslan hefur aukist.
    Aukinn halli á ríkissjóði leiðir til meiri lánsfjárþarfar, hærri vaxta og minni fjárfestinga. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er því augljóst. Við þurfum að draga úr ríkissjóðshallanum frá því að útgjöld ríkisins náðu hámarki, í kringum 120 milljarða kr., á árinu 1991. Þetta þurfum við að gera án þess að auka skatta. Við þurfum að auka þannig svigrúm til að lækka vexti og auka fjárfestinguna og auka hagvöxtinn. Frv. ríkisstjórnarinnar er skref í þessa átt. Og frá forsendum þess megum við ekki hvika nema í eina átt og það er til lækkunar útgjalda. Tillögur til útgjaldalækkunar verða þó að vera raunhæfar, þær verða að fela í sér sparnað og vera rökstuddar en ekki sýndarmennskan ein sem síðan mun leiða til ófyrirséðs ríkissjóðshalla. Tillögurnar verða að fela í sér útgjaldalækkun en ekki skattahækkun. Þegar við neyðumst til að skerða þjónustu þá verður sú skerðing að koma jafnt niður á alla að öðrum kosti verður ekki sátt um skerðinguna, að öðrum kosti verður ekki sátt um sparnaðinn. Útgjaldalækkunin má ekki eyðileggja þá starfsemi sem við þurfum á að halda í stjórnkerfinu og í velferðarkerfinu, starfsemi sem yrði dýrara að endurreisa þegar frá líður og við þyrftum að nota dýrmætan hagvöxt sem við erum nú að berjast fyrir til þeirrar endurreisnar. Það má ekki eiga sér stað að við eyðileggjum eitthvað sem síðar mun verða okkur dýrara að endurreisa og valda því að við getum ekki nýtt þann hagvöxt sem við sköpum forsendur fyrir. Það eru þingmenn stjórnarliðsins sem fyrst og fremst bera ábyrgð á því að þetta sem ég hef hér lýst gangi eftir.
    Því miður uppfylla ekki allar fyrirætlanir hinna ýmsu ráðherra þessi skilyrði sem ég hef gert að umræðuefni. Dæmi um þetta eru fyrirætlanir dómsmrh. um sameiningu sýslumannsembætta. Fyrir þessum tillögum liggur enn sem komið er enginn tölulegur rökstuðningur. Þvert á móti benda allar tölur sem birtar hafa verið til þess að sparnaður verði ekki af þessum tillögum. Svo virðist jafnvel sem dómsmrh. hafi heldur ekki mikla trú á tillögum sem þessum því hann hefur ekki gert tillögu um það að jafnt verði látið yfir alla ganga og að sameining embætta í hans eigin kjördæmi verði gerð á sama hátt og í öðrum kjördæmum þar sem hann hefur lagt til sameiningu. Þar á ég við að hann hefur ekki lagt til að sýslumannsembættin á Selfossi og Hvolsvelli væru sameinuð, en það væri auðveldlega hægt að færa rök fyrir því að sú sameining mundi fela í sér sparnað með þeim tölum sem þegar hafa birst í umræðunni um þetta mál. En ef ráðherrann hefur einhverjar tölur um þennan tölulega sparnað þá vil ég biðja hann um að koma þeim sem fyrst á framfæri. Þessar tölur er ekki að finna í greinargerð frv. og fjárln. hefur þegar hafið meðferð þessa máls og því brýnt að hún fái öll gögn sem liggja að baki tillögunum til meðferðar.
    Hæstv. heilbrrh. hefur verið afar umdeildur á síðustu dögum, vikum og mánuðum. Má eiginlega segja að það sé einungis flokksbróðir hans í Seðlabankanum sem hafi ýtt heilbrrh. út af sviðinu í þessu efni núna síðustu dagana. Það er svo sem allt í lagi að ráðherrar séu umdeildir og að störf þeirra og fyrirætlanir séu umdeildar, ef það er von á því að störfin beri árangur eins og virðist hafa gerst hjá hæstv. fyrrv. heilbrrh., sem var afar umdeildur, en tölurnar virðast sýna að hann hafi náð einhverjum sparnaði í heilbrigðiskerfinu á sinni tíð. En þetta virðist ekki vera alveg ljóst hjá núv. hæstv. heilbrrh. því það hefur komið fram í umræðum í þinginu að tölulegur rökstuðningur fyrir lokun Gunnarsholts sé allavega vafasamur ef ekki beinlínis rangur.
    Og önnur fyrirætlan ráðherrans er afar óljós en það eru hin svokölluðu heilsukort. Um hvers konar gjald er hér að ræða? Er hér um skatt að ræða eins og stjórnarandstaðan hefur haldið fram eða er þetta markaður tekjustofn eins og ráðherrann segir sjálfur? En hvert var verkefni heilbrrh.? Var það að finna upp og leggja á nýja skatta? Nei, það var ekki verkefni ráðherrans. Eða var verkefni ráðherrans að finna upp nýja markaða tekjustofna? Ég dreg það mjög í efa. Ef ráðherrann væri með grundvallarbreytingar í heilbrigðiskerfinu á prjónunum og heilsukortin væru hluti af slíkum breytingum þá væri ástæða til þess að fjalla meira um þær í greinargerð fjárlagafrv. en sem nemur svona 5--10 línum. Ef það væri um þá breytingu að ræða að taka upp þjónustugjöld, auka kostnaðarþátttöku neytenda þjónustunnar, þá ætti að gera grein fyrir því í frv. á þeim forsendum, en það er ekki heldur gert. Það er því nauðsynlegt fyrir okkur að fá sem fyrst greinagóðar upplýsingar um það hvað vaki fyrir ráðherranum í þessu efni. Það læðist aðeins að manni sá grunur að hér sé einungis um fljótfærnislega tilraun til þess að komast undan því að taka til í sínu ráðuneyti og spara með óskilgreindri gjaldheimtu.
    Ég hef hér tæpt á nokkrum atriðum sem ég hef gagnrýnt. Og ég áskil mér rétt til þess að gagnrýna og krefjast rökstuðnings og leggja til breytingar á þeim fyrirætlunum sem ég tel að séu óraunhæfar, spari ekki það sem ætlað er eða ganga á annan hátt þvert á önnur meginmarkmið frv. Í þeirri vinnu sem fer í hönd hjá fjárln. mega ríkisútgjöld ekki hækka. Við verðum að leitast við að lækka þau eins og við höfum gert tvö undanfarin ár. Það er skylda stjórnarmeirihlutans að tryggja það að þetta markmið nái fram.