Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 17:57:18 (208)


[17:57]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að fara hérna yfir fáein atriði í fjárlagafrv., aðallega það sem lýtur að menntmrn. en þar eru nokkur tíðindi sem ástæða er til að ræða. Jafnframt hafði ég hugsað mér að fara yfir fáein atriði sem snerta uppsetningu fjárlaga og loks ætlaði ég að fara yfir málefni sem

snerta heilbrrn.
    Ég ætla fyrst að víkja að þessum almennu atriðum og koma þá fyrst að uppsetningu fjárlaga og segja það að ég tel að óhjákvæmilegt sé að uppsetning fjárlaga og ríkisreiknings verði tekin til endurskoðunar. Staðreyndin er sú að það er ekki hægt að lesa saman ríkisreikning og fjárlög. Það er vegna þess að það eru svo margir safnliðir í fjárlögunum að útilokað er í raun og veru að átta sig á því hvernig þeim liðum er dreift þegar ríkisreikningurinn er lesinn. Þetta gerir það að verkum að alþingismenn hafa enga möguleika á því að meta fjárlagavinnuna eftir á, enga möguleika til þess. Þetta er auðvitað þeim mun bagalegra þegar þess er gætt að greinargerð fjárlagafrv. verður stöðugt óvandaðri og það er stöðugt erfiðara að taka mark á því sem þar stendur, sérstaklega á því sem er skrifað þar niður um fjmrn.
    Ég nefni í því sambandi t.d. liðinn sem ætlaður er til þess að standa undir heimildargrein fjárlaga, 6. gr., þar sem sami textinn hefur staðið frá fjmrn. í fjöldamörg ár. En það er alveg augljóst mál að þessi texti á ekki við þá fjármunanotkun sem fylgt hefur greininni núna undanfarin 2--3 ár. Ég er sannfærður um það að starfsmenn fjmrn. hafa ekki lesið eða endurlesið þennan texta, nema þá prófarkalesararnir, áður en þetta fór í prentun í haust og í fyrrahaust. Ég sé það í ríkisreikningnum fyrir árið 1992, sem við höfum verið að fjalla um að undanförnu, að þarna er um stórkostlega gallaða framsetningu að ræða og það er beinlínis hættulegt ef það er þannig að fjárln. tekur mark á greinargerð fjárlagafrv. eins og það kemur frá fjmrn. Það er óhjákvæmilegt að þetta verði tekið til endurmats og ég skora á fjárlaganefndarmenn sem hér eru að vanda sig við að lesa greinargerðina til þess að átta sig á því til hvers er ætlast samkvæmt greinargerð fjárlagafrv. og hvort eftir því er farið. Ég er hér að fullyrða, virðulegi forseti, að í mjög mörgum tilvikum er unnt að benda á það að ekkert mark er tekið á því sem stendur í greinargerð fjárlagafrv. þegar kemur að því að skipta og nota hina óskiptu liði í fjárlögunum á hverjum tíma. Þetta er auðvitað afar bagalegt og sérstaklega nú orðið eftir að það tókst fyrir nokkrum árum að ná verðbólgunni verulega niður þá er hægt að nota ríkisreikninginn sem stjórntæki ef menn stilla saman ríkisreikninginn annars vegar og uppsetningu fjárlaganna hins vegar. Það hefur á það skort og þess vegna nefni ég þetta. Ég tel að þetta sé satt að segja að verða mjög alvarlegt vandamál, sérstaklega eftir árið 1992 þegar hinir óskiptu liðir voru stærri en nokkru sinni fyrr. Þar sem ráðherrarnir gátu eftir afgreiðslu fjárlaganna hér dreift á stofnanir og einstaka fjárlagaliði þó nokkrum upphæðum án þess að Alþingi hefði skrifað það niður í einstökum atriðum til hvers þeir peningar ættu að notast. Þar var um gríðarlega stóra tilflutningsliði að ræða og þeir hafa aldrei verið stærri en á árinu 1992. Það má út af fyrir sig fagna því að í frv. fyrir árið 1994 eru þessir liðir miklu lægri en þeir voru t.d. vegna ársins 1992 sem var sérstaklega ljótt að þessu leytinu til. Það breytir hins vegar ekki því að í fjárlagaframkvæmdinni eru menn að fjármagna almenna rekstrarliði út af safnliðum, aftur og aftur, og ég beini þeim áskorunum líka til fjárlaganefndarmanna að það verði skoðað mjög rækilega hvernig að þeim hlutum er staðið.
    Nú er auðvitað alveg ljóst að ráðuneytin gera þetta ekki nema í neyð, þau þurfa á þessu að halda og yfirleitt er engin ástæða til þess út af fyrir sig að gagnrýna það að peningar séu fluttir á þessa liði. Það er hins vegar ástæða til að gagnrýna það að enginn veit um það, fjárln. ekki af því hún sér það ekki og það er ekki skrifað niður í greinargerð fjárlagafrv. hvernig á að nota þetta. Þeir sem fara yfir ríkisreikninginn sjá það heldur ekki vegna þess að þeir bera ekki saman forsendur fjárlaganna annars vegar og ríkisreikninginn hins vegar. Þannig að þegar upp er staðið þá er mögulegt að mismuna hér í gegnum ríkisreikningskerfið mörg hundruðum millj. kr. án þess að menn í raun og veru geri sér grein fyrir því í einstökum atriðum á nokkru stigi málsins, af því að flækjan er svo rosaleg að menn komast ekki í gegnum hana, geta ekki höggvið sig í gegnum þennan frumskóg sem ríkisreikningurinn og fjárlögin eru.
    Þetta vildi ég nefna númer eitt og tek það auðvitað fram að ég nenni ekki í þessu sambandi að taka þátt í einhverjum leik um það hverjum þetta er að kenna. Þetta er okkur öllum meira og minna að kenna sem ábyrgð höfum borið á þessu á undanförnum árum. En það er brýnt að á þessu verði tekið af því að núna væri hægt að nota ríkisreikninginn sem stjórntæki vegna þess að verðbólgan er minni. En menn þurfa að vanda sig við framsetningu fjárlaganna og sérstaklega þarf fjmrn. og fjárln. að vanda sig við framsetningu greinargerðar fjárlagafrv. Hún er mikilsvert gagn. Ég hef aldrei setið í fjárln. Ég veit ekki hvort menn lesa þetta saman og bera þetta saman miðað við notkun fjármunanna á sl. ári. Og það er auðvitað alveg rétt, að ef það á að gera þessa hluti vel, þá kallar það á gríðarlega vinnu og yfirlegu, ég viðurkenni það. En ég held að það sé nauðsynlegt, ekki síst þegar menn eru að setja sér það að vanda vinnubrögð hér almennt á Alþingi með nýju samkomulagi um þingsköp og fleira, að menn reyni að vanda sig við þessa hluti sérstaklega.
    Þá vildi ég spyrja hæstv. fjmrh., hvort sem hann svarar því núna í umræðunni eða kannski síðar: Hvað er að frétta af þeim athugunum sem í gangi hafa verið á vegum ríkisreikningsnefndar? Mér er kunnugt um að hér verður umræða um ríkisreikninginn 1991, ég held á miðvikudaginn, jafnvel á morgun eða fimmtudaginn, þannig að það er hægt að fara yfir málin nánar þá ef hæstv. ráðherra kýs að hafa það svo.
    Í öðru lagi var annað almennt atriði og það snertir fjárlagafrv. fyrir 1994 alveg sérstaklega og lýtur að kjarasamningunum frá því á árinu. Það er alveg ótrúlegt, verð ég að segja, að ganga frá fjárlagafrv. sem tekur jafnlítið mark á kjarasamningum og þetta frv. gerir, það er alveg ótrúlegt. Það er alveg ótrúlegt að staðan skuli vera þannig að þegar fjárlagafrv. kemur fram þá telji t.d. Alþýðusambandið alveg óhjákvæmilegt að kalla til sérstakra funda með fjmrh. og embættismönnum hans um frv. og uppsetningu þess.
    Það eru aðallega þrjú atriði sem mér hefur heyrst að menn séu að gagnrýna í fjárlagafrv., af hálfu verkalýðssamtakanna. Það er í fyrsta lagi þessi atvinnuleysisskattur sem menn telja að sé brot á grundvallaratriðum samningsins, í öðru lagi framlögin til atvinnumála þar sem verkalýðshreyfingin telur að vanti 1,8 milljarða, ef ég hef tekið rétt eftir í fréttum, og í þriðja lagi framkvæmd vaxtalækkunarinnar á vegum ríkisstjórnarinnar sem er út af fyrir sig ekki aðeins fjárlagamál heldur almennt efnahagsmál.
    Ég vildi spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji ekki að það hefði verið ráðlegra að ganga betur frá fjárlagafrv. að því er varðar kjarasamningana en þarna hefur verið gert. Mér finnst að það eigi að sýna þessum aðilum vinnumarkaðarins lágmarksvirðingu og ég er viss um að hæstv. fjmrh. vill gera það. En ég tel að það hafi ekki gerst með þessu frv. eins og það lítur hér út og ég tel fulla ástæðu til að gagnrýna það og benda á, að það er útilokað að tala eins og hann gerir, og fleiri stjórnarliðar hér, eins og kjarasamningar verði óbreyttir allt næsta ár. Ríkisstjórnin hefur ekki haldið þannig á málum að það sé hægt að slá því alveg 100% föstu. Það er alveg augljóst mál að þó nokkur hópur í samtökum launafólks telur að það sé nauðsynlegt ýmist að hafa enga samninga, ef hlutirnir eru eins og þeir eru, eða þá að segja þeim samningum upp sem núna liggja fyrir. Ég bendi þar á yfirlýsingar t.d. frá formanni Verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar og ég bendi einnig á það að forseti Alþýðusambandsins hefur talið að það væri óhjákvæmilegt að fá þessa hluti miklu skýrar upp heldur en þeir liggja fyrir núna frá hæstv. ríkisstjórn.
    Þessi tvö almennu atriði vildi ég nefna, virðulegi forseti, og vík þessu næst að tveimur ráðuneytum sérstaklega, þ.e. annars vegar menntmrn. og hins vegar heilbrrn. lauslega.
    Fyrst varðandi menntmrn. Ég vil þakka fyrir það hvernig greinargerð frv. er að því er varðar menntmrn. vegna þess að þar er á bls. 293 yfirlit yfir raunverulegar breytingar á framlögum til menntamála síðustu 5 árin á föstu verðlagi. Þar er uppsetning sem ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég tel að sé til fyrirmyndar. Ég hefði viljað sjá svona uppsetningu t.d. í heilbrrn. þar sem er óskaplega erfitt að átta sig á niðurskurðinum eins og textinn lítur út. Ég var satt að segja að glíma við það hérna áðan og um helgina að reyna að skilja þetta frá heilbrrn. í einstökum atriðum. Ég verð að játa að mér hefur oft tekist aðeins skár að lesa mig í gegnum torf heldur en í það skiptið, þegar ég reyndi að lesa þennan texta úr heilbrrn.
    Það kemur í ljós að því er varðar menntmrn. að raunverulegur niðurskurður á framlögum til menntamála á árunum 1991--1994 er 1.623 millj. kr., 1,6 milljarðar kr. Nú geta menn út af fyrir sig velt því fyrir sér hvort það er ekki eðlilegt að menntamálaniðurskurðurinn fylgi kannski falli þjóðartekna á þessum tíma. Ég vísa því á bug. Ég tel að svo sé ekki. Ég bendi á það að við Íslendingar erum langt á eftir öðrum þjóðum í framlögum til menntamála og rannsókna. Við erum með framlög til menntamála sem eru, að því er varðar hlutfall af vergri landsframleiðslu, helmingurinn af því sem gerist í grannlöndum okkar og í Norður-Evrópu yfirleitt. Framlög til menntamála á Íslandi, miðuð við verga landsframleiðslu, eru svipuð og gerist í Tyrklandi og í Grikklandi. Þannig að við megum ekki við því að missa þessi framlög niður. En setjum samt sem svo að ríkisstjórnin telji eðlilegt, og hæstv. menntmrh., að þessi framlög séu tekin niður eins og annað. Hefur það verið gert? Svarið er já og gott betur, vegna þess að fallið í vergri landsframleiðslu á þessum tíma er miklu minna en nemur fallinu í framlögum til menntamála. Framlögin til menntamála hafa á föstu verðlagi 1991--1994 lækkað um 10%. Fallið í vergri landsframleiðslu á sama tíma er um 6%. Það er augljóst mál að menntamálin hafa farið verr út úr niðurskurðinum heldur en ytri aðstæður gera óhjákvæmilegt, ef menn vilja beygja sig undir þær, sem er svo aftur önnur pólitísk spurning.
    Ég tel þetta sérstaklega alvarlegt, virðulegi forseti, vegna þess að ég tel að menntamálin séu undirstöðuþáttur hér í þjóðlífinu. Ef menn ætla sér að taka á móti batnandi lífskjörum einhvern tíma í framtíðinni, ef menn ætla t.d. að nýta orkuna hér á komandi árum og áratugum með innlendri þekkingu, verkkunnáttu og grunnþekkingu, þá verður auðvitað að halda hér uppi sæmilegu menntakerfi og sæmilegu rannsóknarkerfi. Ef menn vanrækja menntakerfið, þá eru menn í raun og veru að segja sem svo: Við ætlum ekki að breyta þessari orku í gull í framtíðinni heldur verðum við að fá einhverja aðra til að gera það fyrir okkur. Og með því að vanrækja menntamálin og rannsóknirnar erum við í raun og veru að segja við unga fólkið á Íslandi í dag: Þið skuluð fara héðan eftir nokkur ár. Þið skuluð koma ykkur eitthvað annað. Þið skuluð setja lykilinn ykkar í umslag og fara með umslagið í bankann eins og gert er í Færeyjum í dag. Þetta er auðvitað býsna hart, ekki síst hjá ríkisstjórn sem leggur mikla áherslu á að það þurfi að taka niður erlendar skuldir, sem er rétt. Ég tel reyndar að það sé gífurlega stórt mál og úrslitamál í stjórn ríkisfjármála að menn haldi þannig á hlutunum að erlendar skuldir séu teknar niður. Ég er þeirrar skoðunar að trassaskapur í þeim efnum sé hættulegur og geti komið okkur í koll síðar.
    Þessi niðurskurður í menntamálum er auðvitað á ýmsum þáttum. Hann er ekki aðeins í rannsóknum og Lánasjóði ísl. námsmanna. Hann er líka t.d. í grunnskólanum. Í grunnskólanum er búið að skera niður í raunstærðum milli 1991 og 1994 um 222 millj. kr. Ég útvegaði mér upplýsingar um það, virðulegi forseti, hvað er búið að skera niður í raun og veru á barn í grunnskólum eftir fræðsluumdæmum. Það kemur í ljós að framlag á verðlagi fjárlagafrv. var 98.210 kr. á hvert barn í grunnskóla í Reykjavík 1991. Þetta framlag í fjárlagafrv. er 93.111 kr. Það er búið að skera þetta niður um u.þ.b. 5.100 kr. eða um 6% eða svo á hvert barn sem er í grunnskóla í Reykjavík. Ef við skoðum t.d. Vestfirði þá er framlagið á hvert barn í grunnskólum á Vestfjörðum 1991 130.610 kr. en í fjárlagafrv. 118.980 kr. Ef við skoðum t.d. Norðurland eystra er framlagið árið 1991 113.190 kr. en 1994 107.880 kr.
    Það er því í raun og veru búið að taka af hverju barni, í hverju einasta fræðsluumdæmi landsins, 5--6.000 kr. á ári í framlagi til kennslu. Og grunnskólinn er líka menntakerfið og grunnskólinn er nefnilega líka rannsóknir ef menn vilja hafa það þannig. Ef við skoðum vikustundir á nemanda þá hefur þeim fækkað ótrúlega á þessum tíma, sérstaklega úti á landi. Vikustundum á nemanda á Vestfjörðum hefur t.d. fækkað úr 2,12 í 2,04 1994. Ef við tökum Reykjavík þá stendur vikustundafjöldi á nemanda þar nokkurn veginn í stað í grunnskólanum á þessum niðurskurðartíma. En þegar kemur út á land, og alveg sérstaklega á Vestfjörðum, þá er þar um að ræða verulegt fall, sömuleiðis á Norðurlandi vestra og á Norðurlandi eystra sé ég að fallið er einnig talsvert, sem bendir til þess að niðurskurðurinn, eins og hann var framkvæmdur í grunnskólanum, hafi ekki síst komið fram á landsbyggðinni þegar um er að ræða vikustundir á nemendur og framlag á nemendur á föstu verðlagi. Það er nokkurt umhugsunarefni líka. Þegar kemur t.d. að meðalfjölda í bekk þá hefur fjölgað verulega að meðaltali í hverri bekkjardeild. Það eru auðvitað langflestir nemendur að meðaltali hér, 21,8, en eru t.d. á Vestfjörðum 15,5 en voru 15,3 í upphafi þessa tíma. Ef ég tek t.d. Austurland þá verða nemendur í bekk að meðaltali 15,7 árið 1994 en eru núna að meðaltali 14,3 og þannig mætti enn telja.
    Þetta er ég hér að rekja, virðulegi forseti, til þess að undirstrika það að ég tel að fjárlagafrv. sé ekki bara spurning um fjármálastefnu, ríkisfjármálastefnu, heldur felst líka í fjárlagafrv. menntastefna ársins 1994. Það er bersýnilegt að menntakerfið hefur farið verr út úr niðurskurðinum undanfarin ár en aðrir málaflokkar miðað við þær tölur sem ég nefndi áðan og að grunnskólinn leggur þar meira í púkkið heldur en t.d. ýmsir aðrir þættir í því sama kerfi eins og framhaldsskólinn svo ég nefni annað dæmi.
    Í annan stað, virðulegi forseti, þá ætlaði ég að víkja lítillega að heilbrrn. og endurtaka það sem ég sagði áðan að ég verð að gagnrýna uppsetningu þessa texta í fjárlagafrv. Það er alveg ómögulegt að láta menn hafa þetta svona. Ég er alveg viss um að þau skilja þetta alveg sundur og saman í fjárln. en við sem erum ekki eins vön þessum ríkisfjármálum, við skiljum þetta ekki alveg eins vel. Ég sé það að fjárlaganefndarmenn nikka allir, þeir eru klárir á þessu. En það er verra með okkur hin. En nú ætla ég að gera tilraun til þess að fara yfir þetta, hvernig ég skil þetta, hæstv. ráðherra.
    Ég hef skoðað lífeyristryggingarnar og mér sýnist að þar eigi að skera niður upp á 525 millj. kr. Það eru fjórir liðir. Það er tekjutenging lífeyrisgreiðslna, það á að skila 200 millj. kr. Þá á að endurskoða úthlutunarreglur, síðan á að tekjutengja ekkjulífeyri og svo á að endurskoða fyrirkomulag eingreiðslna. Allt sýnist mér að þetta gefi samtals 525 millj. kr.
    Í öðru lagi eru það svo sjúkratryggingarnar. Þar sýnist mér að menn ætli sér að taka 30 millj. kr. af sérfræðingum og það sé eiginlega Ríkisendurskoðun sem á að finna út hvernig það á að gerast. Það er verið að rannsaka launasamsetningu lækna, hefur mér skilist í fréttum, og það á að græða 30 millj. kr. úr þeirri rannsókn. Svo á að taka inn 120 millj. kr. á röntgenmyndum og þess háttar. Síðan á að taka inn 150 millj. kr. af meðölum --- það heita lyf hér, meðöl. Svo koma heilsukort --- sem sumir kalla heilsuskort --- 400 millj. kr. og ég ætla aðeins að staldra við þau smástund. Hvað eru eiginlega þessi heilsukort? Það hefur gengið eitthvað illa að skýra það. Ég heyri meira að segja að stjórnarliðið veit ekki almennilega hvernig þetta er og þá er nú okkur vorkunn hérna minni spámönnunum í þinginu. (Gripið fram í.) Í þessu frv. stendur ekkert um það, nei. En ég hef heyrt viðtöl við ráðherrann í fjölmiðlum og hann segir að allir eigi að borga fyrir heilsukortið sitt, þeir fái það sent heim og gíró. Það er þegar búið að ákveða að það verði gíró, það er nú strax fastur punktur í tilverunni, það er gíró. (Gripið fram í.) Við fáum það um áramótin, gíró, það er ofboðslega fínt að fá gíró frá ríkisstjórninni um áramótin. ( Gripið fram í: Það kostar nú töluvert að senda það út í gíró.) Það kostar eitthvað að senda út gíróið en ég verð þó að þakka ríkisstjórninni fyrir að það skuli vera þó þessi fastur punktur í tilverunni, það er gíró. Mér finnst að við eigum ekki að gera allt of lítið úr því. Þetta er nógu lélegt hjá þeim samt. Jæja. Nú borgum við ekki gíróið --- segjum að einhver maður borgi ekki gíróið sitt en veikist 2. janúar eða kannski 2. febrúar og er lagður á spítala. Og þá var ráðherrann spurður, heyrði ég í fjölmiðlum: Hvað á að gera við þennan mann sem kemur núna og er ekki búinn að borga og er ekki með neitt heilsukort? Á bara að rukka hann á staðnum? Nei, nei, það á að lækna hann, sagði ráðherrann, það á að lækna hann. Það er nefnilega það og hvað svo? Svo á bara að rukka hann og gera upp við hann eftir á. --- Það er nefnilega það, gera upp við hann eftir á. Hvað þýðir þetta þá, hæstv. ráðherra? Þetta er sjúklingaskattur, skattur sem er lagður á hvern einasta mann. Þetta er sjúklingaskattur sem verið er að leggja hér á, að tillögu Alþfl. (Gripið fram í.) Og hver fann upp orðið ,,sjúklingaskattur``? Það var sá sem hér stendur, þegar Matthías Bjarnason reyndi að búa til frv. um það á sínum tíma en gafst upp við það af því hann hlustaði á það sem stjórnarandstaðan sagði. Nú hefur auðvitað heilbrrh. vit á því að vera aldrei í salnum nema helst í fyrirspurnatímum utan dagskrár. Auðvitað hefði hann þurft að vera hérna, og fagráðherrarnir, þannig að fjmrh. væri ekki einn að svara fyrir þessi ósköp.
    En staðreyndin er auðvitað sú að það er ekki verið að gera neina tillögu um neitt annað en það að hér verði lagður á sjúklingaskattur sem heitir heilsukort. Þannig liggur það. --- Það eru 400 millj. kr.
    Síðan ætlar hann að ná inn 160 millj. kr. með því að Framkvæmdasjóður aldraðra hætti að láta peninga í byggingar. Ég sé ekki betur en að það sé tillaga um það. Það á ekki að leggja peninga í nýjar byggingar heldur bara í viðhaldsverkefni og rekstur. Það þýðir í fyrsta lagi að það verður þá að breyta lögunum að nýju um Framkvæmdasjóð aldraðra því ekki þrættum við svo lítið um það í fyrravetur, ég og hv. þm. Finnur Ingólfsson, við hæstv. fyrrv. heilbrrh. sem þjóðin saknar núna, allt í einu. (Gripið fram í.) Ég hef ekki kallað hann því nafni, Móðir Theresa, ég kann ekki við það, að hafa hennar nafn í flimtingum. En alla vega er greinilegt að það er ætlunin að leggja niður Framkvæmdasjóð aldraðra sem við komum á fyrir margt löngu, stjórnin 1980--1983, með stuðningi þeirra Matthíasar Bjarnasonar og Alberts Guðmundssonar og fleiri góðra manna úr Sjálfstfl. á þeim tíma. Það eru 160 millj. kr.
    Svo er það Gunnarsholt. Loka því. Það eru 50 millj. kr. sem stendur í fjárlagafrv. Það er dregið í efa að það sé svo mikið, en 50 millj. stendur í plöggunum.
    Síðan koma barnaheimili spítala. Þar á að ganga þannig fram að það á að loka þeim, því það er svo óskaplegt ranglæti gagnvart hinum í þjóðfélaginu sem ekki geta komið börnunum sínum fyrir á barnaheimilum. Það verður auðvitað að vinda bráðan bug að því að loka þessum barnaheimilum til að stöðva þetta svívirðilega ranglæti að starfsmenn á spítölum geti haft börnin sín í gæslu á leikskólum. Á því ætlar ríkisstjórnin að græða á milli 100 og 200 millj. Ég sé ekki nákvæmlega hver talan er þar, mér sýnist að hún sé eitthvað talsvert á annað hundrað millj. kr.
    Síðan á að leggja á áfengismeðferðargjald. Það er ekki nóg að það sé heilsukort, það á að leggja á áfengismeðferðargjald, sérstakan alkóhólistaskatt. Hann er 20 millj. sýnist mér. 17,2 hjá SÁÁ-stofnunum og 2,8 sá ég í Hlaðgerðarkoti. Þetta gerir samtals eitthvað um 20 millj. kr. og síðan geri ég ráð fyrir því að þær stofnanir sem ríkið rekur og eru í þessum geira eigi að taka þetta gjald líka, sambærilegt.
    Síðan á auðvitað í þessu frv. að halda fast við þá stefnu fyrrv. heilbrrh. að selja Þvottahús Ríkisspítalanna. En það er gríðarlega mikið þjóðþrifamál að mati ríkisstjórnarinnar og var flutt um það, eins og menn muna, stjfrv. í fyrra sem var skemmtilegasta þingmálið vegna þess að þar var kveðið á um að það ætti að sauma á saumastofuninni og þvo þvott á þvottastofunni og strauja lín. Það var smámunalegasta frv. um báknið sem nokkru sinni hefur verið flutt. Það má segja að það komi vel á vondan þar sem er hæstv. fjmrh. að standa að svoleiðis ófreskju hér. Hann ætlar að taka inn 60 millj. kr. á því að selja Þvottahús Ríkisspítalanna. (Gripið fram í.) Og hæstv. ráðherra er reyndar fyrrv. formaður stjórnarnefndar Ríkisspítalanna þannig að hann veit alveg nákvæmlega hvað hann er að tala um. ( Gripið fram í: Er þessi ræða að verða samstarfsverkefni?) Ræðan er að verða að samstarfsverkefni og veitir nú ekki af að hjálpa Sjálfstfl. við að halda ræðu.
    Loks á að leggja á sérstakt atvinnuleysisgjald. Það er sem sagt sjúklingaskattur, atvinnuleysisgjald og áfengismeðferðargjald eins og það heitir fínu nafni. Þetta sýnist mér að sé í grófum dráttum það sem samtals á að taka þarna inn á heilbrrn. og ég vil spyrja hæstv. ráðherra, þannig að það liggi fyrir á einhverjum einum stað: Hversu miklar upphæðir eru það sem menn eru að taka þarna inn, annars vegar með niðurskurði og hins vegar með nýrri tekjuöflun? Hvað er það há tala? Ég held að það sé mjög æskilegt fyrir þá sem vinna í fjárln. og eru í þessum heilbrigðismálum að fá þær upplýsingar því eins og þetta er sett hér fram í fjárlagafrv. þá er þetta allt í graut.
    Ég ætla í sjálfu sér, virðulegi forseti, ekki að fara út í fleiri mál sem snerta þetta fjárlagafrv. ítarlega. Hér hefur verið farið rækilega yfir málin og ég ætla ekki að fara að taka mikið lengri tíma hér. Það má kannski minna á að það stendur til samkvæmt þessu fjárlagafrv., eða ég hef séð það einhvers staðar, að selja Lyfjaverslun ríkisins. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. að því hvað er búið að eyða miklum peningum í að gera við húsnæði Lyfjaverslunar ríkisins og tæki núna að undanförnu og hvort ráðherrann telur líklegt að Lyfjaverslun ríkisins seljist fyrir það verð að dugi til að borga reikningana fyrir lagfæringar fyrirtækisins núna á undanförnum vikum, mánuðum og missirum? Það eru satt að segja ótrúlegar tölur sem er búið að verja í endurbætur á þessu fyrirtæki sem núna á að fara að selja. Það er nokkuð kostulega að hlutunum staðið hjá ríkisstjórninni og ég vil þess vegna spyrja hæstv. ráðherra um það mál sérstaklega.
    Virðulegi forseti. Að lokum vil ég segja það að þetta frv. er auðvitað, eins og fram hefur komið, í meginatriðum munaðarlaust. Það þykir engum vænt um þetta frv. Það reynir enginn að halda því fram að í því felist einhver tímamótastefna í ríkisfjármálum eða efnahagsmálum. Ráðherrann er eins og kunnugt er að tína saman breytingartillögur hér og þar og svo er hann að lesa frv. með utanrrh. Þeir eru núna að lesa frv. Hæstv. félmrh. er á móti frv., þ.e. útgjaldahliðinni, en sennilega með tekjuhliðinni. Þetta er aðferð sem hæstv. félmrh. hefur sennilega lært af Framsfl. frá því fyrir allmörgum árum, og hv. 2. þm. Suðurl., en þá var það þannig að Framsfl. sneri þessu alveg við. Honum tókst ekki þá, þ.e. einum ráðherra, að vera bæði með debet- og kredit-hliðinni heldur kaus hann aðra hliðina og eins er það núna með hæstv. félmrh. Þannig að það er búist við því að það komi nýtt frv. eða í meginatriðum verði þetta allt, allt annað mál sem verður afgreitt að lokum. Þannig að enginn maður tekur mark á þessu frv. Það má auðvitað heyra tómahljóðið í ræðu hæstv. fjmrh. og vissulega er honum vorkunn í þessari stöðu.
    Staðreyndin er auðvitað sú að þessi ríkisstjórn hefur á hverju hausti lagt upp með það að hún væri að vinna tímamótaverk. Fyrsta árið átti að afnema hallann á ríkissjóði. Í fyrra var það alveg fyrirsjáanlegt að það mundi ekki takast en þá átti að leysa öll vandamál á Íslandi --- með hverju, muna menn það? Það hét EES. Það átti að leysa öll vandamál á Íslandi. Nú er hér allt í steik áfram. Það hefur enginn vandi verið leystur af neinu tagi hér. (Gripið fram í.) Og allt er ívið bölvaðra en það áður var, að sögn ráðherranna. Þess vegna eiga þeir auðvitað bara að gera eitt sem liggur alveg í augum uppi og allir sjá nema þeir, þeir eiga að hætta þessu og segja af sér.