Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 18:33:28 (213)


[18:33]
     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Eins og kunnugt er höfum við Íslendingar á undanförnum árum átt við ramman reip að draga í stjórnun efnahagsmála og við eigum flest þá ósk heitasta að hilli þar undir betri tíð. Það er okkur þó hollt að hafa í huga að samdráttur í efnahagslífi á undanförnum árum er ekkert sérvandamál okkar Íslendinga. Nágranna- og helstu viðskiptaþjóðir okkar hafa gengið í gegnum svipaðan hreinsunareld. En það

verður að viðurkennast að vegna einhæfni í atvinnulífi okkar hefur samdráttur orðið meiri hér en víðast annars staðar. Það er því enn eitt árið í röð sem lagt er fram fjárlagafrv. sem stefnir áfram að lækkun ríkisútgjalda. Mönnum er ávallt mikill vandi á höndum við samningu slíks frumvarps þar sem gæta verður þess að aðgerðir hvetji til hagvaxtar og enn fremur að samdráttur komi ekki niður á þeim sem minnst mega sín. Ríkisstjórninni hefur að undanförnu tekist að ná góðum árangri á ýmsum sviðum sem síðar skapa grunn að hraðari hagvexti en ella hefði orðið. Má þar nefna minnkandi viðskiptahalla við útlönd og minnkandi erlendar skuldir að raungildi. Enn fremur hefur tekist að halda verðbólgunni í skefjum. Þessir þættir allir munu flýta fyrir hagvexti þegar ytri skilyrði þjóðarinnar batnar, fiskigengd eykst og verð á útflutningsafurðum okkar hækkar.
    Ríkisútgjöld hafa vaxið jafnt og þétt á undanförnum áratugum og það að lenda í jafnerfiðum og langvarandi efnahagsvanda og raun hefur verið hefur neytt okkur til að taka til endurskoðunar ýmsa þætti í ríkisrekstrinum sem ella hefðu fengið að vaxa áfram án gagnrýnnar skoðunar á tilgangi og gildi þeirra. Þetta frv. ríkisstjórnarinnar ber þess merki eins og fyrri frv. að verið sé að taka á ríkisrekstrinum með hagræðingu með ýmsu móti, svo sem með samræmingu verkefna, fækkun embætta og sameiningu stofnana. Slíkt er af hinu góða þegar unnið er markvisst og skipulega að verkefninu og mun þannig að lokum skila skattborgurunum skilvirkari og ódýrari þjónustu. Ég vil sérstaklega nefna að menningarstarfsemi er varin í frv. eins og kostur er. T.d. er 1.183 millj. kr. varið til safna og listastofnana samkvæmt frv. borið saman við 923 millj. kr. samkvæmt reikningum ársins 1992. En ég ætla ekki að fjalla frekar um frv. almennt heldur ætla ég að fara nokkrum orðum um þætti þess málaflokks sem er einna frekastur á ríkisútgjöldin og sem jafnframt er hvað viðkvæmastur og flóknastur í ríkisrekstrinum, en það er heilbrigðisþjónustan.
    Það þarf ekki um það að deila að heilbrigðisþjónustan hér á landi er með því besta sem gerist í heiminum. Okkur hefur tekist að veita hágæðaþjónustu undir því verði sem gerist í mörgum velferðarríkjum. Þrátt fyrir þetta höfum við nú á erfiðum tímum haft áhyggjur af útgjaldaaukningu, ekki síst vegna þess hversu flókið og erfitt það er að fylgjast með og reyna að stýra heilbrigðisþjónustunni að einhverju marki. Fólk verður nefnilega ekki veikt eftir pöntun og veikindi taka ekki tillit til ástands buddunnar á hverjum tíma hvort sem um einkafjármál eða ríkisfjármál er að ræða. Hins vegar hafa nýlegar skoðanakannanir sýnt að fólk er sýnu viljugra til að auka framlög til heilbrigðismála en annarra málaflokka í umsjá ríkisins og ber að hafa slíkt í huga við mótun stefnu um heilbrigðisþjónustu.
    Núverandi ríkisstjórn hefur tekist það verkefni að hamla gegn hraðri kostnaðaraukningu í heilbrigðisþjónustunni án þess að dregið hafi verið úr þjónustu við sjúklinga. Má fyllilega virða þann árangur sem náðst hefur. Samkvæmt frv. verður áfram lögð áhersla á hagkvæmni í rekstri án þess að dregið verði úr þjónustu. Í frv. er sérstaklega tiltekin aukning í hagkvæmni í rekstri bráðasjúkrahúsa. Rekstur bráðasjúkrahúsa hefur verið í brennidepli á undanförnum árum, einkum þeirra þriggja sem eru á Reykjavíkursvæðinu. Þar hefur borið einna hæst rekstur Landakotsspítala. En að rekstri þess spítala hefur verið svo sorfið að bráðaþjónusta er nú eingöngu rekin af barna- og augndeildum spítalans.
    Leiða má rök að því að með breyttum starfsaðferðum í heilbrigðisþjónustu, sem sést best á því að sjúklingar eru í auknum mæli meðhöndlaðir utan sjúkrahúsa og legutími styttist, megi fækka þeim rúmum sem ætluð eru til umönnunar bráðasjúklinga. Hins vegar ber að gæta þess hvernig slík fækkun fer fram og hvernig beri að haga bráðaþjónustu í framtíðinni. Ég tel afar brýnt að hagræðing fari ekki þannig fram að hún komi niður á frelsi sjúklinga til að velja hvert þeir vilji leita, þ.e. að ekki myndist einokunaraðstaða í heilbrigðisþjónustunni. Auk þess sem valfrelsi eru sjálfsögð mannréttindi tel ég að samsöfnun heilbrigðisþjónustunnar í einni heild hefði neikvæð áhrif á þróun þessarar þjónustu sem við hingað til höfum getað státað af. Sjúkrahúsin á Reykjavíkursvæðinu hafa nú þegar ákveðna verkaskiptingu sín á milli sem flestir eru ásáttir um að gefist vel. Sú verkaskipting gefur okkur samanburð á frammistöðu sjúkrahúsanna að vissu marki og veitir þeim þannig aðhald. Verkaskiptingin veitir jafnframt sjúklingunum víðtækt valfrelsi og virkar sem hvati til framþróunar í sjúkraþjónustu. Því ber að ígrunda vandlega allar breytingar í verkaskiptingu og/eða sameiningu deilda. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega vekja athygli á því að nota beri safnliðinn: Sjúkrahús með fjölþætta starfsemi, sem er að fjárhæð 204 millj. kr., í þágu þess samstarfsverkefnis sem fram undan er á milli Borgarspítala og Landakots.
    Í utandagskrárumræðunni í síðustu viku ræddi ég um gagnkvæman ávinning stofnana og starfsfólks með rekstri dagvistarstofnana sjúkrahúsanna og enn fremur um vafasama réttlætingu þess að mismuna starfsstéttum með slíkum hlunnindum í ráðningarsamningum. Vil ég eingöngu ítreka mikilvægi þess ef fyrirhugaðar breytingar fara fram að þær verði markvissar og skipulegar og að þær komi ekki niður á starfsemi viðkomandi stofnana, starfsfólki eða börnum þess. Breytingar á starfskjörum verða að gerast í viðunandi sátt milli aðila. Í ráði er að framlög úr Framkvæmdasjóði fatlaðra og Framkvæmdasjóði aldraðra verði áfram varið til þjónustu við fatlaða og aldraða. Vil ég leggja áherslu á mikilvægi þeirra áforma ríkisstjórnarinnar að draga ekki úr þjónustu við þennan hóp fólks sem oft á þess ekki kost að verja sinn eigin málstað.
    Eins og ég minntist á hér að framan þá hefur komið fram vilji meiri hluta þjóðarinnar til að auka framlög til heilbrigðismála. Ég hef um margra ára skeið verið talsmaður þess að til þess að unnt væri að koma til móts við þessar óskir þá verði að klippa á naflastrenginn sem tengir sjúkratryggingar við önnur útgjöld ríkissjóðs og aðskilja þannig alveg útgjöld til heilbrigðismála frá öðrum útgjöldum. Slíkt er eina

tryggingin fyrir því að það aukna framlag sem skattborgarinn vill inna af hendi til heilbrigðismála renni ekki að einhverju leyti til annarra og óskyldra málefna.
    Innan Sjálfstfl. hefur á undanförnum árum verið mjög undir það tekið að hverfa aftur til sambærilegs sjúkratryggingakerfis og áður tíðkaðist og þá með tekjutengdum iðgjöldum. Þótt e.t.v. megi segja að heilsukort séu leið að því marki að eyrnamerkja gjaldtöku vegna heilbrigðisþjónustu þá eru ýmsir vankantar á slíkri tillögu. Í því sambandi nægir að nefna að innheimta er æði dýr og um margt þung í vöfum, bæði fyrir hinn almenna borgara og fyrir sjúkrastofnanir. Þess vegna er nauðsynlegt að kanna einnig aðrar leiðir og bera þær saman við þá leið sem verið er að benda á í frv. T.d. má nefna hvort ekki sé einfaldlega betra og hagkvæmara að innheimta sömu fjárhæð í tengslum við almenna skattheimtu í stað þess að innleiða sérstakt heilsukort með öllu því sem því tilheyrir.
    Ég vil leyfa mér að hvetja til þess að heilbrigðistryggingakerfið verði skoðað í heild sinni jafnframt því sem heildarstefna í heilbrigðisþjónustu verði endurskoðuð þannig að unnt verði að framfylgja óskum landsmanna um áframhaldandi heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki.
    Ég hef hér að framan nefnt dæmi í viðkvæmum og viðamiklum málaflokki sem skoða þarf mjög gaumgæfilega á næstu vikum og mikið starf bíður okkar þingmanna á þeim vettvangi sem í öðrum þáttum frv. til fjárlaga. Ég leyfi mér að vona að í starfi okkar allra munum við finna þær úrlausnir sameiginlega sem muni leiða okkur til vaxandi velferðar og hagsældar.