Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 19:46:26 (222)


[19:46]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mun reyna að svara nokkrum fyrirspurnum sem til mín hefur verið beint og fjalla um önnur atriði sem ég hef kost á, á þeim stutta tíma sem mér er ætlaður. Því miður má búast við því að eitthvað verði eftir, bæði vegna þess að ég kann ekki skil á öllum málunum og atriðunum og einnig vegna þess að sjálfsagt kemur tímaskortur til með að hamla því að ég nái utan um öll svörin.
    Fyrst langar mig til þess að víkja hér að einu atriði sem kom fram m.a. hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. og fjallar um hluti eins og sértekjur og gjöld teknamegin. Reyndar voru það fleiri hv. þm. sem ræddu nokkuð þetta atriði, um framsetningu og uppsetningu á fjárlögum.
    Það hefur verið til skoðunar hjá okkur, og reyndar m.a. vegna vinnu sem fram hefur farið á vegum OECD, að færa fjárlögin upp með öðrum hætti en gert hefur verið þannig að allar tekjur komi fram teknamegin og öll gjöld gjaldamegin en ekki eins og nú er að tekjur vegna gjalda, svokallaðar sértekjur, séu færðar gjaldamegin og gjöld vegna tekna, ýmsir afslættir og frádrættir séu færðir teknamegin. Þetta gæti þýtt, fljótt á litið, að niðurstöðutölur fjárlaga mundu hækka líklega svona 20--30%. Ég er sammála því sem sagt hefur verið að það er ekkert á móti því að þessi breyting sé gerð.
    Ég vil hins vegar enn og aftur mótmæla því sem fram hefur komið af hálfu margra þeirra sem gagnrýnt hafa þetta frv. og sagt að það sé verið að hækka skatta. Ég hef reyndar sýnt fram á það að ekki er verið að hækka skatttekjur ríkisins. Menn hafa þó oft gripið til þess að segja: En hvað þá um sértekjurnar? Sé litið á bls. 281 í frv. og skoðaðar þær sértekjur sem koma inn til frádráttar rekstrargjöldum kemur berlega í ljós að þær tekjur munu lækka á næsta ári og skiptir þar auðvitað mestu að Hagræðingarsjóðurinn fellur brott. Ég bið menn um að skoða þetta áður en þeir fella dóma um það að einhverjar sértekjur bætist við skattana, því það er að sjálfsögðu alrangt. ( Gripið fram í: Hvaða blaðsíða er þetta?) Ég held að það sé á bls. 281, ef ég man rétt. Það er tafla og í töflunni kemur þetta fram. Það er á bls. 281, þar sem sýnt er hvernig sértekjurnar dragast frá rekstrargjöldunum. Þetta er uppsetningin.
    Ég ætla ekki að fjalla hér ítarlega um vaxtamál eins og margir gerðu. Það urðu hér ágætar umræður um vaxtamálin í svörum og andsvörum en ég held að ég geti sagt að það sem stendur í þjóðhagsáætluninni um næmi eigi við vextina en ekki bankastjórana. Það held ég auðvitað að fyrrv. sparisjóðsstjóri og bankastjóri átti sig á.
    Það er hins vegar kannski ástæða til þess að segja frá því að í dag var kynnt í ríkisstjórninni mjög ítarleg skýrsla um vexti. Skýrsla sem er upp á marga tugi blaðsíðna. Mjög ítarleg og fróðleg skýrsla um vexti sem viðskrh. gaf út og hélt blaðamannafund um í dag og ég hygg að sé verið að segja frá í fréttum einmitt þessa stundina. Þessi skýrsla er ákaflega gagnleg og rekur þróun mála. Í henni eru ýmsar tillögur til þess fallnar að ná niður vöxtum og er bent þar á ótal úrræði. Þetta segi ég hér af því að nokkuð hefur borið á því í þessum umræðum að menn hafa talið helsta vandamál okkar hve vextir eru háir og ekki skal ég gera lítið úr þeim vanda. Það ber þó að taka það fram að eftir að ríkið fór að selja sína pappíra alla á markaði, hætta yfirdráttarlánum hjá Seðlabankanum, hefur okkur tekist að þróa lánsfjármarkaðinn íslenska með þeim hætti að vextir hækkuðu ekki neitt að ráði þrátt fyrir nokkra verðbólgu á síðari hluta þessa árs. Þvert á móti hafa vextirnir á ríkisbréfum, einkum á óverðtryggðum ríkisbréfum til skamms tíma, farið ört lækkandi og er það að sjálfsögðu góðs viti.
    Mig langar aðeins vegna ræðu Jónu Valgerðar, hv. 6. þm. Vestf., að benda á að um rannsókna- og þróunarfjármagnið er getið í 6. gr. fjárlaga. Þetta er uppsetningaratriði þannig að í 5. tölul. í 5. lið 6. gr. er sagt að 20% af andvirði af sölu ríkisfyrirtækja gangi til rannsókna- og þróunarverkefna og það er gert ráð fyrir að það séu 100 millj. kr. til viðbótar þeim fjármunum sem koma fram í beinum útgjaldaliðum frv.
    Þær eignir sem hugsanlega gætu orðið til sölu á næsta ári eru t.d. SR-mjöl hf., Lyfjaverslun ríkisins, Fjárfestingarbankinn, verði hann að lögum, þar mun ríkið eiga 40% og er tilgangslaust reyndar að ríkið sé minnihlutaaðili að slíkum sjóði, og hugsanlega Sementsverksmiðja ríkisins og fleiri fyrirtæki í eigu ríkisins. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að Búnaðarbankinn seljist en ég tel hins vegar, og ég segi það á mína ábyrgð, að það sé eðlilegt að reyna fyrir sér um sölu á t.d. hlut ríkisins í Aðalverktökum.
    Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. ræðumanni að atvinnuleysið er vissulega alvarlegasta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir og þá ekki síst atvinnuleysi kvenna. Einmitt þessa dagana er verið að skila skýrslu um hvernig eigi að ráðstafa þeim 60 millj. sem ganga eiga til að byggja upp atvinnu fyrir konur. Mér skilst að hægt verði að kynna þá skýrslu í næstu viku og þar er um að ræða fjárframlög sem kalla á nýtt framlag frá sveitarstjórnum og fyrirtækjum. Þannig að í raun og veru gæti þetta fjárframlag ríkisins orðið til þess að nýir fjármunir kæmu á móti og þess vegna verður að líta á heildarfjármagnið sem kemur til ráðstöfunar í þessu sambandi.
    Við verðum að átta okkur á því að atvinnuleysið núna er afleiðing af minni fiskveiðum og lægra verði á okkar afurðum erlendis, fyrst og fremst, en þá verðum við einnig að geta þess að stefna ríkisstjórnarinnar er uppbyggingarstefna. Sú stefna að takmarka veiðarnar um stundarsakir byggist á því að fiskstofnarnir, þorskstofninn aðallega, geti byggst upp á nýjan leik. Og þetta er auðvitað gert viljandi til þess að við getum skapað hagvöxt þegar fram í sækir sem byggist á þessari mestu auðlind Íslands.
    Hv. þm. spurði um erfðafjárskattinn. Því er til að svara að talan er áætluð tala og miðast eingöngu við það sem kom inn í tekjur af skattinum á yfirstandandi ári. Það var talsvert bætt í þessa tölu í fyrra vegna þess að hækkun hafði átt sér stað 1991 en svo kemur fram lækkun á yfirstandandi ári þannig að hér aðeins um áætlaða tölu að ræða sem getur auðvitað lækkað eða hækkað, en allur skattur verður að sjálfsögðu til ráðstöfunar.
    Ég sé að sumir hv. þm. sem tóku þátt í umræðunum og beindu heilmörgum fyrirspurnum til mín eru ekki í salnum, eðlilega vegna þess að klukkan er að verða átta, en mig langar þó til þess að nefna nokkur atriði sem fram hafa komið hjá þeim. Fyrst um heilsukortin. Ég vil taka það fram að samkvæmt almannatryggingalögunum er gert ráð fyrir útgáfu heilsukorta. Það er ekkert bundið við það hve gjaldið er hátt. Hins vegar töldum við að það væri heppilegt, vegna þess að það skortir nýtt fjármagn til heilbrigðismálanna, ef við ætlum ekki að draga úr þjónustunni, að fara þessa leið. Og þessi leið er þannig að hún er valkvæð. Menn eiga að geta valið á milli þess að taka kortin eða að borga fyrir tiltekna afmarkaða þjónustu. Mér er það ljóst að það þarf að færa út þessa hugmynd fyllilega og vera kann að þau orð hafi fallið sem gætu leitt til þess, ef þau væru tekin eins og þau voru sögð, að erfitt reyndist að heimta inn gjöldin. En ég tel að ríkisstjórnin eigi eftir endanlega að komast að niðurstöðu um það hvernig það verði gert og að sjálfsögðu verður að tryggja það að hér sé fullt valkvæði og menn greiði annaðhvort fyrir heilsukortin eða þá þjónustu sem þeir fá. 2.500 kr. á mánuði er eins og ein bók í bókaklúbbi ( Gripið fram í: 2.000.) 2.000 eða 2.500, hvor talan sem er notuð, og ég man nú ekki hver er í frv., 2.000 kr., hún er eins og bók í mánaðarklúbbi, bókaklúbbi. Það er nú allt og sumt og þeir sem eru undir 16 ára aldri greiða ekkert. Í þessu sambandi er kannski ástæða (Gripið fram í.) ja, ég nefndi það að ég tel að það verði að tryggja það að greiðsla komi og ég hélt að ég hefði svona í tiltölulega hóflega óskýru máli verið að benda á að það er ekki sama hvernig farið er að við innheimtuna. Ég tel að það megi gefa mönnum færi á því að greiða eftir einn, tvo eða þrjá mánuði, en það þarf að sjálfsögðu að ganga eftir því að greiðslan komi og ég tel að að sé varhugavert að gefa það til kynna að hægt sé að greiða gjaldið eingöngu ef menn þurfa á þjónustunni að halda. Það kann að ganga í berhögg við það sem hæstv. heilbrrh. hefur sagt. Þess vegna orðaði ég það svo hér áðan, að ríkisstjórnin ætti eftir að fara ofan í reglugerðaratriði málsins og ég held að það sé nú eðlilegt að bíða til þess tíma að ræða nákvæmlega hvernig framkvæmdin verður á þessu máli.
    Varðandi sveitarfélögin og dagvistarmálin, þá veit ég ekki nákvæmlega hvar þær viðræður standa. En eitt af því sem menn hafa t.d. rætt er að afhenda þær eignir sem Ríkisspítalar t.d. eiga, Borgarspítalinn og önnur sjúkrahús, starfsmannafélögum eða þeim sem vildu nýta þessi dagvistarpláss og þá mundu viðkomandi sveitarfélög væntanlega styrkja þá starfsemi. Þetta er gert í sumum tilvikum við vissar starfsstöðvar og mér finnst sjálfsagt að líta til þess sem hugmynd, en ætla ekki að kveða upp neinn endanlegan dóm hvernig að þessu verður staðið. Ég tel þó ástæðu til að hér komi fram að dagvistarstofnanirnar og dvöl barna á þeim eru ekki byggð á ráðningarsamningi. Við höfum grennslast fyrir um það, þetta byggist ekki á ráðningarsamningum. Það breytir ekki því að ég efast ekkert um að margir sem eiga börn á þessum stofnunum telji að þeir hafi ráðið sig í vinnu vegna þess að möguleiki var á því að koma börnum á þessar stofnanir. En það þýðir ekki það að um ráðningarsamninga sé að ræða né heldur kjarasamninga sem er auðvitað enn síður.
    Mér fannst hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir gera dálítið mikið úr daglegri þjónustu sýsluskrifstofanna. Það má auðvitað færa vissa þjónustu yfir til bæjarskrifstofanna eins og t.d. almannatryggingabætur, þá með sérstökum samningi. Póstur og sími er nú í ágætu standi og starfar ágætlega þannig að ég held að menn ýki dálítið allar heimsóknir á slíkar skrifstofur. Það er einu sinni eðli þess að bæta samgöngurnar að einingarnar stækka í þjónustunni. Í raun og veru er örskotsvegur t.d. á milli Akraness og Borgarness svo að dæmi sé tekið. En það er rétt sem bæði hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir og aðrir hafa bent á, að það verður auðvitað að gæta þess að halda því þjónustustigi sem fólk á rétt á. Á móti kemur hins vegar að það er ekki lengur hægt að búast við því að við getum kallað fram meiri sparnað í rekstri ríkisins nema sameina stofnanir eða leggja stofnanir niður, og mér finnst ekkert óeðlilegt við það. Og þegar farið er að bora í gegnum fjöll til þess að stytta vegalengdir á milli staða þá hlýtur það að koma fram í því að við getum sparað okkur hafnargjald og sparað okkur ýmsar þjónustustöðvar, annars væri enginn tilgangur með þessum bættu samgöngum og við gætum sparað okkur þessar samgöngur. Þetta vil ég biðja þingmenn að íhuga og þetta veit ég að allir hv. þm. skilja.
    Hv. þm. Svavar Gestsson flutti hér ágæta ræðu um uppsetningu fjárlaga og ríkisreiknings. Það er

nú gamalkunnugt vandamál. Ég held að ég sé ekki að þreyta þá fáu hv. þm. sem hér eru með því að fara að endurtaka málfundaræfingar um slíkt. Ég á von á því að það takist núna í lok þessa árs að semja um það hvernig uppsetning fjárlaganna eigi að vera. Og í næstu viku er fundur í ríkisreikninganefnd, sem er fundur sem haldinn er utan bæjar og tekur nokkra daga, og satt að segja vænti ég þess að þegar þeim fundi lýkur þá rjúki hvítur reykur þar upp úr reykháfinum, þannig að friður hafi nú skapast. Því að ég skil vel að þetta er óþolandi umræða hér í þingsölum um bókhaldsæfingar eins og við höfum kynnst nokkur undanfarin ár og vænti þess að ríkisreikningar og fjáraukalög, lánsfjárlög og slíkir þættir geti runnið greiðlegar í gegnum þingið en hingað til.
    Hv. þm. Svavar Gestsson taldi að ríkisstjórnin hefði svikið Alþýðusambandið með fjárlögunum eins og þau standa núna. Ég mótmæli því og ég tel að við höfum borið fulla virðingu fyrir Alþýðusambandinu. Við stöndum núna í viðræðum við þá, forustumenn sambandsins, og einnig reyndar við forustumenn sveitarstjórnanna, og ég á von á því að menn geti lokið þeim viðræðum með sameiginlegum skilningi á því hvað það var sem menn sömdu um í vor. En ég skal viðurkenna að miðstjórn Alþýðusambandsins hefur haft efasemdir uppi um það að staðið sé við öll gefin loforð í fjárlagafrv. Ég vil einungis segja að við töldum okkur, þegar við vorum að vinna að þessu frv., vera að vinna á forsendum kjarasamninganna.
    Hv. þm. ræddi síðan um ýmislegt fleira og gat þess að það væri mikill niðurskurður í menntmrn. Niðurskurðurinn kemur fyrst og fremst fram á liðnum Lánasjóður ísl. námsmanna. Þrátt fyrir að framlög séu skorin niður þar þá vil ég geta þess að nú er séð fyrir nægum framlögum þannig að lánasjóðurinn þarf ekki að una við að gengið sé á eigið fé sjóðsins. Því miður bar á því, einnig í tíð hv. þm. sem þá var menntmrh., að framlög ríkisins voru allt of lítil en lántökur of miklar og þannig var gengið á eiginfjárstöðu sjóðsins.
    Hv. þm. taldi síðan upp úr heilbrigðisráðueytiskafla fjárlaganna ýmislegt og reyndi að leggja það saman til þess að fara nær um það hve mikinn sparnað væri þar að finna og ég hygg að hann hafi farið nokkuð nærri þegar hann var að leika sér þar með tölur.
    Hann spurðist síðan fyrir um Lyfjaverslun ríkisins. Ég vil taka það fram að Lyfjaverslun ríkisins fær ekki fjármuni úr ríkissjóði til þess að standa undir framkvæmdum á snærum fyrirtækisins. Hins vegar mun Lyfjaverslunin taka einhverja fjármuni að láni, ég held að 70 millj. séu á næsta ári, ef ég man rétt. Það liggja fyrir pappírar um það að þeir fjármunir sem fara nú til fjárfestingar og breytinga á fyrirtækinu muni skila sér við sölu þess og á því byggðist heimild til þess að leyfa Lyfjaversluninni að efna til breytinga á fyrirtækinu.
    Kristín Ástgeirsdóttir, hv. 18. þm. Reykv., ræddi hér enn á ný um hina hvítu bók, hina helgu hvítu bók ríkisstjórnarinnar, sem vissulega þarf að endurskoða, ég skal taka undir það. Þingmaðurinn benti réttilega á það að margt hefði breyst frá þeim tíma að bókin var gefin út. Það er hárrétt hjá hv. þm. að ætlunin var að ná jafnvægi í ríkisfjármálum í lok ársins 1993. Ástæðan fyrir því að það hefur ekki gengið eftir er sá samdráttur sem orðið hefur í efnahagslífinu, sem hefur valdið tekjutapi og útgjaldaauka, og þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið, m.a. á yfirstandandi ári, og hafa líka valdið útgjaldaauka, m.a. með niðurgreiðslum og tekjutapi, eins og menn vita. Ef við hefðum ekki þurft að sæta þessum samdrætti og kjarasamningar hefðu verið gerðir á kostnað annarra en ríkissjóðs hefði verið stutt í það að endar næðust saman milli gjalda og tekna ríkissjóðs. En það er rétt, það er ef, eins og ég sagði, og ég skal fyrstur manna viðurkenna að við höfum fórnað markmiðinu í ríkisfjámálunum vegna þess að við höfum talið að önnur markmið væru mikilvægari um sinn. Þá er ég að minnast á það markmið að reyna að halda uppi atvinnustiginu hér um stundarsakir, sem auðvitað er gert núna að nokkru leyti á kostnað ríkisins.
    Hv. þm. taldi að áætlanir vegna einkavæðingar væru út í bláinn. Ég hef þegar rakið hvaða hugmyndir eru að baki þessum 500 millj. og þessar 500 millj. eru þó þriðjungur af þeirri upphæð sem var á fjárlögum yfirstandandi árs. En ástæðan fyrir því að okkur hefur mistekist að ná þessari upphæð inn er auðvitað sú að til stóð að selja Búnaðarbankann, en frá því var horfið a.m.k. um sinn.
    Þá efaðist hv. þm. um tekjuáætlun fjárlaganna. Það er nú svo um tekjuáætlun fjárlaga að hún byggir alveg á þjóðhagsforsendum Þjóðhagsstofnunar þannig að það er aðeins um reiknikúnstir að ræða og þar getur fjmrh. auðvitað ekki breytt neinu um.
    Það er einnig hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. að það er afar erfitt að þurfa á hverju ári að standa frammi fyrir jafnviðamiklum skattbreytingum eins og við höfum þurft að gera í núv. ríkisstjórn. Ástæðan fyrir því að núna þarf að eiga við skattkerfisbreytingu er auðvitað kjarasamningarnir en jafnframt sú staðreynd að við erum að færa skatta af fyrirtækjum yfir á einstaklinga og ljúka því verki nú með því að láta sveitarfélögin sjálf annast sína tekjuöflun en það verði ekki gert í gegnum ríkissjóð, eins og gert var á yfirstandandi ári.
    Hv. þm. Jón Helgason ræddi hér nokkuð almennt um þá villutrú sem hann kallar frjálshyggjuna og taldi að þar væri að finna upphaf og endi alls ills í þjóðfélaginu. Ég held að ef grannt er skoðað þá sé nú ekki hægt að kenna frjálshyggjunni, þótt slæm sé að áliti hv. ræðumanns, t.d. um verðfall á erlendum mörkuðum og ekki heldur um minni fiskveiðar. Ég held að það sé ekki heldur hægt að kenna henni um það að við höfum verið að fást í þessari ríkisstjórn við umframeyðslu frá fyrri árum. Frjálshyggjan er máttug en ég held að hún sé ekki svo máttug að það sé hægt að kenna henni um allt þetta.
    Hv. þm. ræddi um vexti og ég ætla ekki að taka mikinn þátt í þeim viðræðum. Ég vil þó segja

að þegar ríkið býður 6--7% vexti á skuldabréfum til langs tíma þá er það gert vegna þess að það er á þessu bili sem bréfin seljast. Það er tilgangslaust að bjóða lægri vexti og láta síðan fjárstreymið verða úr ríkissjóði eins og gerðist á fyrstu mánuðum ársins 1991. Þannig stóð á, mönnum til upprifjunar, að þegar ríkisstjórnin tók við og ég settist í fjmrn., þá var yfirdráttarskuld í Seðlabankanum 10 milljarðar kr. vegna þess að útstreymið hafði orðið svo mikið úr ríkissjóði. Mönnum sem áttu skuldbréf datt ekki í hug að endurnýja þau hjá ríkinu vegna þess að í boði voru of lágir vextir. Hins vegar stóðu þáv. forsrh. og þáv. fjmrh. oftsinnis í pontu fyrir þær kosningar og sögðu: Við höfum lækkað vextina. Það var þessi handaflsaðferð. Auðvitað er það tilgangslaust að lækka vextina ef það seljast engin bréf. Þessu verðum við að átta okkur á. Þetta eru nú einu sinni lögmál lífsins á þessum vettvangi. Og sem betur fer held ég að sumir þeirra sem ég nefndi áðan, svona um það bil helmingurinn, hafi eitthvað þroskast, a.m.k. af veru sinni í bankaráði Landsbankans, því það er ágætis skóli fyrir þá sem trúa því ekki að það séu einhver tengsl á milli vaxta og lánsfjármarkaðar.
    Hv. þm. ræddi síðan um virðisaukaskatt á veitingum vegna þess að það er verið að skattleggja ferðaþjónustuna umfram það sem gert hefur verið hingað til. Þetta mál er til skoðunar í ráðuneytinu og ég tel mig geta fullyrt að það er reynt að leita lausna á því þannig að það verði ekki um aukinn skatt að ræða. Það er hægt að fara tvær leiðir í þeim efnum og ég hygg að við finnum lausn sem verður á þann veg að þessi lækkun á matarskattinum komi ekki eins og hækkun á veitingasöluna, en það er sjálft vandamálið sem hér á sér stað. Og ég vil minna á það þegar rætt er um ferðaþjónustuna að tryggingagjaldið verður lækkað frá næstu áramótum og það er umtalsvert á ferðaþjónustunni sem aðeins að hluta til hefur verið skattlögð með virðisaukaskatti hingað til.
    Varðandi framlög til Byggðastofnunar skal það eitt sagt að ríkissjóður hefur þurft að yfirtaka erlend lán Byggðastofnunar. Og mér finnst í fullri alvöru, og ég er ekki að gagnrýna einn eða neinn í því sambandi, að stjórnendur Byggðastofnunar, þar á meðal stjórnarmenn kjörnir af Alþingi, skuldi hinu háa Alþingi nokkrar skýringar á gerðum sínum. Ég hygg að almenningur taki eftir því þegar þarf að afskrifa kannski hjá einu fyrirtæki hálfan milljarð. Ég er hræddur um að það hafi nú eitthvað sungið í ýmsum ef ríkisstjórnin hafi átt í hlut. Ég ætla því ekki að gagnrýna neinn en menn verða að átta sig á að það er búið að moka miklum fjármunum inn í Byggðastofnun. Og mér finnst nú að þeir sem þar hafa stjórnað hafi verið býsna duglegir við að moka þeim síðan út og því miður hafa heimtur í mörgum tilvikum ekki verið góðar.
    Hv. þm. sagði svo að Framsfl. hefði ekki haft hugmyndaflug sem hefði nægt til þess að halda að það kæmi til greina að íhaldið legði fram, ég held að hann hafi nú sagt Sjálfstfl. eða sjálfstæðismenn, frv. með 10 milljarða halla. En Framsfl. hafði nú samt, hv. þm., hugmyndaflug til þess að skila niðurstöðutölum á fjárlögum bæði 1988 og 1991, svo að ég taki nú tvö ár sem Framsfl. ber nokkra ábyrgð á, með yfir 10 milljarða halla eða 11,5 milljarðar og 13,5 á verðlagi dagsins í dag. Þá skorti ekki hugmyndaflugið hjá Framsókn. (Gripið fram í.) Hárrétt var það. En það breytir því ekki að það var unnið eftir áætlun fyrri ríkisstjórnar og sú sem tók við skar nokkra milljarða niður, a.m.k. 3 eða 4 milljarða, ef ég man rétt. En þetta var reyndar kosningaár og um kosningaár hefur fyrrv. hæstv. fjmrh. sagt þegar hann vill ekki telja það með: Það er ekkert að marka kosningaár því þau hafa tilhneigingu til þess að verða svona allt öðruvísi heldur en hin venjulegu ár. Það er áreiðanlega rétt sem Bjarni Bragi sagði einhvern tíma að kosningar í lýðræðisríkjum, ég man ekki hvernig hann orðaði það nákvæmlega, það væri sem sagt efnahagslegt böl að hafa kosningar í lýðræðisríkjum því þær hefðu alltaf tilhneigingu til þess að þvinga fjármuni úr ríkissjóði. Þetta kannast sjálfsagt allir lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar við, ef þeir líta í eigin barm. (Gripið fram í.) Já, eða þá --- það er náttúrlega ein aðferð, það er að fresta kosningum eða hætta bara við að hafa kosningar. En önnur er líka sú að rjúfa þing sem stundum er gert og það er vissulega gert hjá öðrum þjóðum. Ég minni á að í Danmörku t.d. var stjórnað með þeim hætti að það var rofið þing aftur og aftur og aftur til að koma í veg fyrir einmitt nákvæmlega þetta. ( Gripið fram í: Þú ættir að gera það.) Ég get því miður ekki, virðulegi forseti, haldið úti samtölum við einstaka hv. þm. þótt skemmtilegt sé. Ég tel að það séu ekki góð rök að nefna til sögunnar að í Vík í Mýrdal jafngildi það að leggja niður sýslumannsembættið að 500 stöður séu lagðar niður í Reykjavík. Ég skal síðan að allra síðustu, virðulegi forseti, nefna það sem sagt var um húsaleigubætur, það var fyrirspurn um húsaleigubætur, að húsaleigubæturnar snerust ekki um framlagningu fjárlaga fyrir 1994. Þær snúast um það hvort taka eigi tillit til þess á árinu 1995.