Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 20:33:03 (232)


[20:33]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Það hljóta að vera gleðitíðindi fyrir marga það sem hæstv. fjmrh. sagði hér, að nú væri komin skýrsla í hendur ríkisstjórnar með ótal úrræðum til vaxtalækkunar. Það liggur því ljóst fyrir að nú eru það ekki lengur úrræðin sem skortir, nú er það að framkvæma hlutina. Ég held að í ljósi þessa sé ekki þörf á því að halda áfram miklum vaxtaumræðum þar sem mér sýnist að hér sé fundin lausn sem allir eigi að geta við unað þegar vextirnir fara nú að hrapa.
    Ég sagði það held ég ekki að frjálshyggjunni einni væri allt um að kenna. En ég stend við það að ég tel að vaxtahækkunin og vaxtastefnan sé ósvikið afkvæmi frjálshyggjunnar, þetta að ekki megi neitt snerta við vöxtum. Ástæðan fyrir því hversu vextir eru háir núna er að sjálfsögðu sú að lífeyrissjóðunum, sem eru stærstu fjármagnseigendurnir í landinu, gefst kostur á að kaupa ríkisbréfin með þessum háu vöxtum. Ef það væri ákveðið að vextir af þeim skyldu ekki vera svona háir þá hefðu lífeyrissjóðirnir ekki annað úrræði en kaupa þau á lægri vöxtum. Ég held að það sé gersamlega útilokað að atvinnulífið geti tekið meiri lán með þessum vöxtum og jafnvel þó þeir væru eitthvað lægri og staðið undir því, þannig að það muni ekki streyma þangað þó að ríkissjóður setti þarna þröskuld á.
    Hæstv. fjmrh. benti á að halli ríkissjóðs á árunum 1988 og 1991 hefði verið meiri en 10 milljarðar. Á árinu 1988 var við völd 9 mánuði ársins ríkisstjórn formanns Sjálfstfl. og þar sem hæstv. núv. fjmrh. var einnig ráðherra og þáv. fjmrh. er núv. hæstv. utanrrh. Ég held að það sé því erfitt að kenna Framsfl. sérstaklega um fjármálastjórn þess árs þó vissulega tæki Framsfl. síðan við stjórnarforustu síðustu þrjá mánuðina. En segja má að allt árið hafði Framsfl. varað mjög sterklega við því í hvert óefni stefndi í efnahagsmálum án þess að á það væri hlustað af þáv. forustuflokki og það endaði síðan með því að Framsfl. taldi slíkt algerlega óviðunandi og sú ríkisstjórn sprakk.
    Á árinu 1991 var núv. ríkisstjórn við völd 8 mánuði af 12. Það er að sjálfsögðu rétt að fjárlög voru samin og samþykkt af fyrrv. ríkisstjórn. En mig minnir að töluverður hluti af þessum halla sem færður var í ríkisreikningi stafaði af breytingu á bókhaldi, einhver þáttur af því vegna ábyrgða. Er það rangminni? Það stóð a.m.k. örugglega deila um það þá, eins og reyndar hefur gert síðan, hvernig eigi að færa ríkisreikninginn. ( Fjmrh.: Það er á ríkisreikningi. Það er ekki í greiðsluflæði, ekki í niðurstöðu fjárlaga.)
    Þá vil ég aðeins víkja að sölu ríkisfyrirtækja. Ég skal ekki leggja dóm á það hvernig til tekst að selja ríkisfyrirtæki á næsta ári. En ég held að það sé öllum augljóst að sala ríkisfyrirtækja, góðra fyrirtækja sem eru líkleg til þess að vekja áhuga þeirra sem vilja leggja fjármagn í atvinnurekstur, dregur auðvitað úr möguleikum annarra fyrirtækja á að fá fjármagn til atvinnurekstrar, því við vitum að fjármagnið er takmarkað. Þar af leiðandi er það neikvætt fyrir atvinnulífið í landinu, ef þetta verður gert.
    Ég vil að lokum aðeins víkja aftur að húsaleigubótunum. Þótt ég sé ekki kunnugur umræðum hjá stjórnarflokkunum þá var mér ljóst að það hafði ekki bein áhrif á fjárlagagerð fyrir næsta ár hvernig niðurstaðan yrði í viðræðunum um þær milli stjórnarflokkanna. Hins vegar tel ég það rétt munað að hæstv. félmrh. setti það sem skilyrði að lagt yrði fram frv. á þessu Alþingi og það væri staðfest með því að húsaleigubæturnar mundu taka gildi 1. jan. 1995. Það væri því nauðsynlegt að fá það fram. Mig minnir að deilan standi um þetta atriði. Hæstv. félmrh. setti þetta sem skilyrði fyrir stuðningi við fjárlagafrv. núv. að þarna yrði tryggilega um hnúta búið. Það var um það atriði sem ég var að spyrja, hvernig það mál stæði nú hjá stjórnarflokkunum, hvort það væri líklegt að þetta væri enn þröskuldur þarna í vegi eða hvort þetta mál væri leyst.