Fjárlög 1994

11. fundur
Þriðjudaginn 12. október 1993, kl. 20:41:20 (233)


[20:41]

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Fyrst örlítið um vexti. Í þessari skýrslu sem kom út í dag eru tillögur nefndarinnar. Þær flokkast í kafla, tillögur um breytingar á vaxtamyndun á verðbréfamarkaði, tillögur um breytingar varðandi vaxtamyndun á peningamarkaði, tillögur um önnur atriði varðandi vaxtamyndun og síðan tillögur um ýmsar beytingar varðandi verðtryggingu fjárskuldbindinga. Þannig að það er að finna fjölda tillagna. Það er rétt sem komið hefur fram hér í umræðunum að Seðlabankinn hefur vissulega hlutverki að gegna, m.a. með millibankavöxtum og kaupum og sölum á verðbréfamarkaði.
    Hv. þm. minntist hér á einkavæðinguna. Ég minni á Gutenberg, Landssmiðjuna, Skipaútgerð ríkisins, Bæjarútgerðina. Ég held að það sé ekki sagt að það verði teknir peningar frá atvinnulífinu sem hafi orðið til þess að skerða hlutverk þess með neinum hætti. Loks um húsaleigubætur. Það liggur fyrir ríkisstjórnarsamþykkt um málið og sú samþykkt stendur enn. Hæstv. félmrh. hefur óskað eftir breytingum á þeirri samþykkt og með atbeina þingflokks Alþfl. hefur verið beðið um viðræður. Þeim viðræðum er ekki lokið.