Staðfesting EES-samningsins

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 13:37:13 (235)

[13:37]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. utanrrh. Eins og menn rekur minni til voru samþykktar breytingar á lögum um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði núna fyrir lok funda á síðasta þingi en þessi samningur hefur ekki enn þá gengið í gildi þar eð nokkrir aðilar eiga eftir að staðfesta hann. Hér er um mál að ræða sem varðar miklu hverjar lyktir fær og hvenær skellur á ef samþykkt verður endanlega. Því vil ég spyrja hæstv. utanrrh. að því hver sé staðan í þeim þjóðþingum sem enn hafa ekki staðfest þennan samning, þeim þremur þjóðþingum og raunar hluti af hinu fjórða ef Belgía, hinn þýskumælandi hluti Belgíu er talinn með, hver sé staðan í þeim efnum og hvernig hann meti það hvenær hann geri ráð fyrir að samningurinn taki gildi. Upphaflega var gert ráð fyrir því að það yrði í ársbyrjun 1991, en nú erum við að nálgast lok ársins 1993. Ég vænti að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um þessa stöðu þannig að við séum nokkru fróðari.
    Hið sama vildi ég einnig spyrja um að því er snertir fiskveiðisamskipti Íslands og Evrópubandalagsins og þá samninga sem tengjast samningnum um Evrópskt efnahagssvæði, stöðu þeirra og gildistöku.