Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 14:11:52 (259)

[14:11]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
     Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til laga um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga en frv. þetta er lagt fram sem staðfestingarfrv. á bráðabirgðalögum sama efnis sem sett voru 28. maí 1993. ( Forseti: Forseti vill vekja athygli á óróa í þingsalnum.) Bráðabirgðalögin voru sett til þess að fylgja fram yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambandsins sem gerðir voru hinn 21. maí 1993 og gilda til ársloka 1994 með endurmatsákvæðum.
    Það má segja að samningar þessir hafi átt mjög langan aðdraganda sem tóku til hins fyrra árs, 1992, og fyrri parts þessa árs sem nú er að líða, 1993. Svo sem kunnugt er, þá leiddu þær viðræður ekki til niðurstöðu haustið 1992 en þá voru gerðar nokkrar efnahagsráðstafanir, þar á meðal breyting á gengi íslensku krónunnar. Þær aðgerðir, sem þá var gripið til, voru á marga lund í framhaldi af þeim viðræðum sem átt höfðu sér stað milli aðila vinnumarkaðarins en þeir treystust ekki til að styðja allar þær aðgerðir eins og menn muna. Það var frá upphafi tekið fram af hálfu ríkisvaldsins og þeirra sem stóðu í þessum viðræðum af þess hálfu að atbeini ríkisins mundi eingöngu koma til ef um væri að ræða að greiða fyrir kjarasamningum til lengri tíma og þá til ársloka 1994. Ríkisstjórnin lýsti því ótvírætt yfir að hún mundi ekki koma nálægt kjarasamningum til skamms tíma eins og um var rætt, nokkurra mánaða samningum. Það gerðist nokkrum sinnum að ekki náðist samstaða, einkum hjá Alþýðusambandinu, um að fara þessa leið en niðurstaðan varð þó sú að lokum að þau miklu samtök kusu að fara þessa leið.
    Meginsjónarmið ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð þessara kjarasamninga komu fram í yfirlýsingunni frá 21. maí og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin telur mikilvægt að eyða óvissu í kjaramálum, tryggja frið á vinnumarkaði og treysta þannig stöðugleika í efnahagsmálum með víðtækri samstöðu kjarasamninga til loka næsta árs. Á þessum forsendum er ríkisstjórnin reiðubúin að ganga eins langt og nokkur kostur er í ljósi erfiðrar stöðu í ríkisbúskapnum í þá átt að greiða fyrir gerð kjarasamninga til lengri tíma. Ríkisstjórnin er reiðubúin til samstarfs við samtök launafólks og atvinnurekenda um öfluga sókn í atvinnumálum sem treystir íslenskt atvinnulíf.``
    Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru forsenda þess að samningar tókust og gilda þeir til ársloka 1994 eins og fyrr sagði nema því aðeins að samningsaðilar telji forsendur brostnar og samningum verði sagt upp.
    I. kafli frv. fjallar um aðgerðir í atvinnu- og verðlagsmálum. Þar er fjmrh. veitt heimild til að verja á árinu 1993 allt að einum milljarði kr. til atvinnuskapandi aðgerða, einkum fjárfestinga og viðhalds og allt að 300 millj. kr. til tímabundinnar niðurgreiðslu á kjötvörum og mjólkurvörum. Varðandi undirbúninginn að aðgerð vegna atvinnuskapandi þátta upp á 1.000 millj. kr. þá fylgdust aðilar vinnumarkaðarins með þeim undirbúningi og það var lögð áhersla á að framkvæmdir samkvæmt þeim lið gætu hafist fljótt og aðilar og fulltrúar frá Alþýðusambandinu fylgdust einnig með framkvæmdinni. Þær 300 millj. kr. til tímabundinnar niðurgreiðslu á kjötvörum og mjólkurafurðum sem var getið um í 1. gr. þessa kafla, sem er reyndar kaflinn í heild, jafngilda lækkun virðisaukaskatts á þessum vörum um 14%. Þessi lækkun stendur til áramóta en þá er fyrirhugað að virðisaukaskattur af matvörum yfirleitt lækki ef samningarnir standa sem menn hljóta að binda vonir við.
    II. kafli fjallar í fyrsta lagi um tímabundna endurgreiðslu tryggingagjalds sem lagt er á þá aðila sem stunda útflutning. Þessi niðurfelling stóð frá júnímánuði til desemberloka en leggst þá á á nýjan leik. Í 2. gr. er tilgreint frekar hvaða aðila er um að ræða sem njóta þessar niðurfellingar á tryggingagjaldinu. Það má geta þess að þessi aðgerð kom í kjölfar niðurfellingar á aðstöðugjaldi til fyrirtækja sem tekin var ákvörðun um haustið 1992.
    Í III. kafla laganna er fjallað um breytingu á hafnalögum nr. 69/1984, með síðari breytingum. Þetta ákvæði hefur nokkuð verið í umræðu fjölmiðla að undanförnu og því hefur verið haldið fram af hálfu talsmanns samtaka fiskvinnslunnar að ríkisvaldið hafi ekki með öllu staðið við það sem til stóð í þessum efnum. Ég held að þetta sé á misskilningi byggt. Tilurð þessa ákvæðis í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sú að aðilar vinnumarkaðarins, sérstaklega í þessu tilviki vinnuveitenda megin, töldu sig vita um að ýmsar hafnarstjórnir vildu koma til móts við sjávarútveginn með lækkun á almennum gjaldskrám en gátu það ekki þar sem samgrn. hlaut að hafna því þar sem lagaskilyrði voru ekki fyrir hendi, þannig að því var lofað í þessari yfirlýsingu sem gefin var í tilefni af kjarasamningum að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að þessi lagaskilyrði væru fyrir hendi. Annað fólst ekki í þessu loforði.
    Varðandi IV. kafla laganna sem fjallar um úthlutun aflaheimilda Hagræðingarsjóðs og sjávarútvegsins var yfirlýsingin sem gefin var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Til að draga úr áhrifum þorskaflaskerðingar á þessu ári verður þeim aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sem óseldar eru nú úthlutað án endurgjalds og er þar með komið til móts við þá sem urðu fyrir mestri skerðingu við síðustu úthlutun.``
    Upphaflega var um það rætt eins og mönnum er sumum hér í fersku minni að bæta mönnum upp þorsktapið með öðrum hætti. Það var rætt í tengslum við ákvörðun aflakvóta fyrir fiskveiðar árið 1992 og 1993. Síðan voru eins og ég hafði áður sagt gerðar ýmsar aðgerðir og ákveðnar af ríkisstjórn og þingi. M.a. var ákveðin gengisbreyting og skattalækkun á atvinnuvegina og þar með var fallið frá í raun þeim aðgerðum til jöfnunar vegna aflabrests sem til hafði staðið. En í tengslum við gerð kjarasamninga var þessi leið farin sem reyndar var vitað um að var meginósk aðila í sjávarútvegi og reyndar margra hv. þm. Þessi leið var farin vegna þess að afurðaverð hélt áfram að lækka eins og menn vissu og síðar kom á daginn að nauðsynlegt var enn skömmu eftir kjarasamningana og eftir að þorskúthlutunin lá fyrir að gera enn nokkrar breytingar á gengi hinnar íslensku krónu.
    Það er ljóst að yfirlýsing sú sem gefin var við gerð kjarasamninga fjallar um mörg önnur atriði en þau sem lagagrundvöll þarf fyrir og því fjalla þessi lög ekki nema takmarkað um þá þætti. Mikilvægast í því er auðvitað það loforð sem tengist kjarasamningunum og kemur til kasta þingsins nú í haust og lýtur að lækkun virðisaukaskatts af matvælum í 14% frá næstu áramótum. Það er auðvitað hafið yfir allan vafa að fari svo að kjarasamningar verði ekki framlengdir þá fellur þessi ákvörðun niður og reyndar aðgerðir sem henni tengjast í fjárlagafrv. og tekjuöflunarfrumvörpum sem fjárlögunum tengjast.
    Ég tel, virðulegi forseti, að meginmarkmið kjarasamninganna og aðgerða ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamningana hafi sem betur fer náðst. Það var meginmarkmið þessara kjarasamninga að standa vörð um atvinnuskilyrðin í landinu eins og frekast væri fært miðað við minnkandi afla og lækkandi verð. Það var annað meginmarkmið, samtengt hinu auðvitað, að tryggja hér stöðugleika. Það hefur tekist þrátt fyrir að allverulegar breytingar hafi verið gerðar á gengi krónunnar í tvígang á tiltölulega fáum mánuðum. Þótt nokkurs óróleika hafi gætt í verðlagi um örstutt skeið þá er það svo að stöðugleikinn hefur ekki raskast. Þvert á móti hefur hann haldist.
    Það var líka markmiðið að minnka viðskiptahallann og stöðva erlenda skuldasöfnun. Þetta markmið hefur líka náðst. Viðskiptahallinn hefur minnkað mjög mikið eða um 13 milljarða kr. og erlend skuldasöfnun í rauntölum talið hefur stöðvast. Það er auðvitað afskaplega mikilvægt fyrir grundvöllinn að framtíðarskipan okkar efnahagsmála að þessir mikilvægu þættir hafi gengið í það far sem þeir hafa gengið.
    Hinu er ekki að leyna að auðvitað hefur nokkur kaupmáttarrýrnun orðið. Menn gengu ekki að slíku gruflandi en kjarasamningarnir eins og þeir voru í pottinn búnir tryggðu það að sú kaupmáttarrýrnun lenti ekki á þeim sem lökust kjörin hafa haft. Ég tel því að frv. þetta, bráðabirgðalögin og staðfestingarfrv., hafi náð tilætluðum árangri. Lögin hafi tryggt að kjarasamningar náðust. Kjarasamningarnir og aðgerðirnar hafa tryggt að þau efnahagslegu markmið hafi náðst sem menn settu sér.
    Ég vil að lokum, hæstv. forseti, leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.