Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 14:25:37 (260)


[14:25]
     Steingrímur Hermannsson :
    Virðulegi forseti. Við 1. umr. um þetta mál þykir mér rétt að segja fáein orð um efnahagsþróun almennt hér á landi. Ég vil taka það fram strax að ég hef út af fyrir sig ekki sérstakar athugasemdir að gera við frv. sjálft sem er til staðfestingar á bráðabirgðalögum. Það er hins vegar ekki nema hluti af þeirri yfirlýsingu sem hæstv. ríkisstjórn gaf við gerð þessara kjarasamninga. Ég held að allir geti verið sammála um það að þessir kjarasamningar voru afar hliðhollir atvinnulífinu og mjög ríkulega tekið til greina það ástand sem hér hefur verið með samdrætti í afla og á mörkuðum. Það voru engar launahækkanir ákveðnar. Hins vegar vó þungt við gerð þessara kjarasamninga sú yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sem fylgdi.
    Ég sagði að ég sé ástæðu til þess að ræða efnahagsmálin almennt og geri það ekki síst með tilliti til þeirra upplýsinga sem koma fram í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1994 sem dreift hefur verið hér á Alþingi af hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. lýsti í stefnuræðu sinni mikilli ánægju með þróun mála. Mér sýnist það ekki staðfest af þjóðhagsáætlun. Þjóðhagsáætlun er þó í raun lýsing á stefnu sitjandi ríkisstjórnar í efnahagsmálum og kemur það greinilega fram, sérstaklega þegar skoðað er árið 1993. Hins vegar þegar þjóðhagsáætlun lítur til lengri framtíðar þá kemur allt annað í ljós.
    Í þjóðhagsáætlun er m.a. rakið að fjármunamyndun eða fjárfesting hér á landi hefur fallið mjög. Þetta kemur fram á bls. 37 og 38 og hér segir m.a. í texta að spáð sé að fjárfesting samtals hér á landi verði 15,7% af þjóðarframleiðslu. Ég held að allir geti verið sammála um það að þetta eru mjög alvarleg tíðindi og ég vil gjarnan mega spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann telji þetta bera vitni um batnandi ástand í íslenskum efnahagsmálum. Getur verið að hæstv. forsrh. líti þetta ekki alvarlegum augum?

    Getið er um það í þjóðhagsáætlun að afskriftir í landinu eru um það bil 13% þannig að fjárfestingin til nýsköpunar og endurnýjunar í þjóðfélaginu er aðeins um 3%. Og Þjóðhagsstofnun dregur réttilega þá ályktun af þessu að atvinnuleysi muni fara mjög vaxandi og spáir því eins og kemur fram á bls. 29 í þjóðhagsáætlun að atvinnuleysi vaxi upp að 5% á árinu 1994.
    Það er fleira vitanlega sem vekur til umhugsunar þegar þessar tölur eru skoðaðar. Slíkt hrun á fjárfestingu kemur alls ekki fram í atvinnu- og efnahagsmálum á fyrsta ári. Menn geta lengi nýtt sér það sem er orðið gamalt og slíkt hrun í fjárfestingu hins vegar boðar það að hér geti atvinnuleysi farið mjög vaxandi á næstu árum ef því verður ekki snúið við. Og mér sýnist óhjákvæmilegt og trúi vart öðru en hæstv. ríkisstjórn hafi sest yfir þessar tölur og reynt að gera sér grein fyrir því hvað veldur. Ef ég man rétt þá lýsti hæstv. forsrh. því í stefnuræðu sinni að dregið hefði verið úr þeirri offjárfesting sem áður hefði verið og hún væri engin orðin, en það má nú fyrr rota en dauðrota er sagt, og ég hygg að sú litla fjárfesting sem Þjóðhagsstofnun spáir sé ekki síður váleg tíðindi en sú fjárfesting sem hæstv. forsrh. var að tala um. Hæstv. forsrh. talaði í þessu sambandi um svonefndan framsóknaráratuginn þar sem í samstarfi við Framsfl. voru m.a. Sjálfstfl. og það er alveg hárrétt að á þeim áratug, upp úr 1970, var fjárfest hér mjög mikið, ekki síst til þess að geta nýtt þá útvíkkun fiskveiðilögsögunnar sem þá var framkvæmd. Og ég leyfi mér að halda því fram að sú mikla fjárfesting hafi lyft þjóðinni frekar en flest annað upp í það að ná þriðja hæsta sæti með þjóðarframleiðslu á hvern íbúa, þ.e. hún var með allra hæstu þjóðum í heimi með þjóðarframleiðslu á hvern íbúa. Ég er ansi hræddur um að þessi litla fjárfesting sem nú virðist vera fram undan geti valdið hér hruni og valdið því að þjóðin falli æðilangt niður í þessum samanburði á milli ríkja. Ég álít hana með öðrum orðum miklu alvarlegri heldur en þá miklu fjárfestingu sem var þá. Þá var hugur í mönnum, menn vildu nýta fiskveiðilögsöguna af krafti og menn gerðu það með því að fá sér betri skip. Satt að segja held ég að það sé allt of mikið úr því gert að sú fjárfesting hafi reynst hættuleg. Sú fjárfesting var miðuð við 380 þús. tonn af þorskkvóta sem hefur þvert gegn spám manna hrunið og þess vegna að sjálfsögðu nýtist sú fjárfesting ekki sem skyldi í dag.
    En ég er fyrst og fremst að tala um þetta mikla hrun sem er núna boðað fram undan og þau alvarlegu tíðindi sem það merkir. Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi í raun engar áhyggjur af þessu og hvað ríkisstjórnin hugsi sér að gera til að fá þessu snúið við.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fyrsti liður um lækkun vaxta. Ríkisstjórnin hefur talað um að vextir af ríkistryggðum ríkisskuldabréfum hafi lækkað og það er rétt, þeir hafa lækkað lítillega. Þeir munu nú vera rétt fyrir neðan 7%. Hins vegar kemur fram í öllum þeim gögnum sem á er litið, t.d. í Hagvísi Þjóðhagsstofnunar, að bankavextir hér á landi af verðtryggðum lánum, ég tek fyrst og fremst verðtryggð lán, eru enn þá um 9,2--9,3%. Það er afar hátt. Staðreyndin er sú að vextir hér í þjóðfélaginu hafa ekki verið hærri svo um munar nema eftir pennastrikið fræga hjá hæstv. fjmrh. í upphafi setu þessarar ríkisstjórnar þegar vextir í bankakerfinu fóru upp að 10% af verðtryggðum skuldabréfum.
    Það er afar athyglisvert sem kemur fram hér í þessari nýju grænu bók, Vaxtamyndun á lánsfjármarkaði, sem ég hef ekki haft tíma til að lesa en aðeins opnað. Og ég rakst strax á hér á bls. 40 línurit sem sýnir raunvexti af skammtímalánum til fyrirtækja. Með leyfi forseta, þá segir þar fyrir neðan þessa mynd: ,,Á mynd 8 eru sýndir raunvextir skammtímalána banka til fyrirtækja. Ólíkt því sem gildir annars staðar á Norðurlöndum hafa þeir farið hækkandi hér á landi frá fjórða ársfjórðungi 1992. Eftir vaxtahækkun í ágúst er raungildi vaxta af skammtímalánum banka til fyrirtækja mun hærri hér á landi en í nokkru öðru samanburðarlandi eins og sjá má bæði á mynd 8 og töflu 6 í viðauka.``
    Mér sýnast raunvextir af skammtímalánum til fyrirtækja u.þ.b. 14%. Sem sagt langtum hærri heldur en Hagvísir Þjóðhagsstofnunar gefur upp af verðtryggðum skuldabréfum. Hér er eflaust, ég tek það fram að ég hef ekki haft tíma til að lesa þetta nægilega vel, tekið tillit til þess að afar mikið af lánum til íslenskra fyrirtækja eru víxillán sem eru á langtum hærri vöxtum, einhvers staðar í kringum 16% raunvöxtum, heldur en er á skuldabréfum. Í Noregi hins vegar, sem er hæst af þeim löndum sem tekin eru til viðmiðunar, eru raunvextir af skammtímalánum í kringum 10% sem þykir mjög hátt. Í öðrum löndum, eftir því sem ég fæ séð í skjótu bragði af töflunni eru þeir langtum lægri í öðrum löndum. Menn verða einnig í þessu sambandi að taka tillit til þess að hér eru skammtímalán til fyrirtækja langtum stærri hluti lána til fyrirtækja en almennt gengur og gerist, langtum stærri. Menn verða einnig að skoða það að hér eru fyrirtæki skuldsettari heldur en erlendis þannig að hári vextir vega langtum þyngra í rekstri þessara fyrirtækja. Skyldi ekki vera komin hér skýringin á því hvers vegna fjárfesting í atvinnulífinu hefur hrunið? Það er afar skiljanlegt að fyrirtæki treysti sér ekki til að fjárfesta þegar vextirnir eru svo háir. Einnig hefur komið fram í mjög glöggum línuritum bæði frá t.d. fréttabréfi Samvinnubankans, sem að sjálfsögðu er nú gefið út af Landsbanka Íslands, og í þjóðhagsáætlun og víðar að vextir af skuldabréfum hér eru miklu hærri heldur en vextir af ríkisskuldabréfum hjá löndum Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París. Munar þar í flestum tilfellum eitthvað í kringum jafnvel 50% eða sem sagt í kringum helming. Jafnvel eru þeir sums staðar upp í tvöfalt hærri heldur en er hjá mörgum þessum löndum.
    Menn verða að minnast þess að vextir af ríkistryggðum skuldabréfum ákveða innlánsvextina. Að sjálfsögðu fer sá sem á fjármagn fremur og kaupir sér ríkistryggð skuldabréf með tæplega 7% vexti heldur en að leggja inn í banka á t.d. 2--3% vöxtum sem er hið algenga sem gildir um innlánsvexti erlendis.
    Ég er með þessu alls ekki að afsaka þá miklu vaxtahækkun sem orðið hefur hjá ríkisbönkunum t.d.

og reyndar var það einkabanki sem reið þar á vaðið og ríkisbankarnir fylgdu á eftir. Engu að síður verður að viðurkennast að þessi vaxtataka ríkissjóðs er ákvarðandi um innlánsvextina og síðan þegar vaxtamunurinn er tekinn ofan á um útlánsvexti. Ég er sannfærður um að þeir háu vextir sem bankarnir taka nú munu ekki skila sér í betri afkomu bankanna eftir árið í ár. Ég er sannfærður um það. Ég er sannfærður um að afskriftir hjá bönkunum verða miklu meiri en þeir gerðu ráð fyrir. Og ég veit að vanskil hjá bönkunum hafa stórlega aukist upp á síðkastið. Þannig að ég óttast að þessir háu vextir sem nú eru innheimtir geti leitt til vandræða hjá langtum fleiri en þeim skuldsettu fyrirtækjum sem ekki geta greitt þessa vexti. Ég vek athygli á því í sambandi við skuldsettu fyrirtækin að skuldsetning í sjávarútvegi hefur samkvæmt þjóðhagsáætlun aukist mjög upp á síðkastið og er nú einhvers staðar í kringum 150% eða um það bil 50% hærri heldur en aflaverðmætið í sjávarútveginum.
    En ég er sem sagt viss um að þessir háu vextir eiga eftir að koma bönkunum sjálfum í erfiðleika, þeir eru ekki sá hagnaður sem lítur út fyrir í reikningum bankanna. Það er kannski rétt að minna á það einu sinni enn að hæstv. fyrrv. viðskrh., núv. seðlabankastjóri, gerði það eitt af sínum síðustu verkum að veita bankastjórum frjálsræði í ákvörðun vaxta, þannig að bankaráðin koma þar ekki neitt nálægt enda hækkuðu vextirnir fljótlega á eftir. Hér spilar sem sagt saman hin háa vaxtataka ríkissjóðs og hin háa vaxtataka bankanna og að mínu mati alveg tvímælalaust hrun í fjárfestingu á vegum atvinnuveganna. Það er nú fyrst og fremst þetta sem ég vildi ræða og enn þá einu sinni vara mjög við þessari stefnu. Það hlýtur að vera hæstv. forsrh. áhyggjuefni hvað hann er oft búinn að lýsa því yfir að hinn háheilagi frjálsi markaður muni sjá um að lækka vextina. Vextir munu lækka, hefur hæstv. forsrh. sagt hvað eftir annað. Er hann ekkert farinn að efast um ágæti þessarar frjálshyggjustefnu sinnar og vilja eða getu hins frjálsa markaðar til að takst á við slíka hluti? Aðrir forustumenn í vestrænum löndum eru farnir að efast um þetta. Menn sjá afar athyglsiverðar greinar svo ég vísi aftur t.d. í fréttabréf Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París þar sem menn eru farnir að velta því fyrir sér að kannski sé þessi svokallaði alfrjálsi markaður ekki sá góði alfrjálsi markaður sem menn hafa viljað trúa á. Menn benda stöðugt á fleiri og fleiri nauðsynlegar aðgerðir stjórnvalda til að hafa þar hömlur á. Hinn alfrjálsi markaður lítur ekki langt fram á veg en það er nú út af fyrir sig annað mál sem kannski mætti ræða betur hér á hinu háa Alþingi, hvert stefnir þegar til lengri tíma er litið og þá meina ég fram yfir t.d. aldamótin, en það ætla ég ekki að ræða nú.
    Ég held sem sagt að mjög rík ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af því hvert stefnir í íslenskum efnahagsmálum. Ég held að stefni þar miklu verr, með atvinnuleysið sem er afleiðing að sjálfsögðu af lítilli fjárfestingu og ég óttast miklu fleiri gjaldþrot og erfiðleika í atvinnulífinu fram undan heldur en menn gera sér grein fyrir á yfirborðinu. Ég óttast með öðrum orðum að aðeins sjáist yfirborðið á ísjakanum.
    Ég sagði áðan að ég þarf út af fyrir sig ekki að ræða mikið um þessi bráðabirgðalög. Ég ætla þó aðeins að spyrja um breytingu á hafnalögum þar sem höfnum er heimilað að gefa eftir af gjöldum. Það hefur vakið athygli í fréttum að þar hefur ríkissjóður harðneitað, að því að tjáð er, að taka þátt í slíkum eðlilegum aðgerðum til að létta fiskveiðiflotanum og útflytjendum sjávarafurða róðurinn. Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh. hvernig í ósköpunum standi á því og hvort hann vilji ekki beita sér fyrir því að ríkissjóður taki þátt í þessu, sem hann gefur svo mjög til kynna með bráðabirgðalögunum.
    Ég hefði einnig viljað ræða hér um ráðstafanir til að örva íslenskt atvinnulíf en tíminn leyfir það varla núna. Ég ætla aðeins að geta þess að ég fékk hér í hendurnar nýlega þingsályktun frá sænsku ríkisstjórninni. Eins og allir vita þá er það hægri miðjustjórn. Þetta er afar fróðleg þingsályktun. Þar segja þeir, í ítarlegu máli, að ljóst sé að til þess að örva nýsköpun í atvinnulífi þurfi áhættufjármagn. Þeir leggja til að settur verði á fót sjóður, áhættusjóður, fjármögnunarsjóður, og lýsa því sem hann þarf að gera með því að hann eigi að lána til 15 ára, fimm ár afborgunarlaust, vaxtalaust í tvö ár og að hann eigi að lána 30% af kostnaði við að koma á fót nýju litlu eða meðalstóru fyrirtæki. Hann á ekki að taka veð í neinum fasteignum, það á ekki að þurfa að veðsetja hús pabba og mömmu og afa og ömmu eins og hér tíðkast, hann á ekki að taka veð í fasteignum heldur í hugmyndinni sjálfri. Þeir segja að þeir geri ráð fyrir að láta renna í þennan sjóð 6.500 millj. sænskra kr. Þ.e. um 65 milljarða íslenskra króna. Þetta er mjög fróðleg grein sem sannarlega styður það sem ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. 1983--1987 leitaðist við að gera með því að setja á fót Þróunarfélagið og fleira.
    Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi ekki haft áhyggjur af þeim augljósa samdrætti sem verið hefur í sjávarútveginum og finni ekki hjá sér neina hvöt til þess að hið opinbera hlaupi undir bagga með nýjum atvinnugreinum, nýjum vaxtamöguleikum. Tíminn leyfir ekki að ræða þá hér en ég get gert það seinna, þeir eru ótalmargir. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru nefndar ýmsar aðgerðir, með leyfi forseta: Skipuleg fjármögnun öflugrar kynningar á íslenskum vörum og þjónustu á erlendum vettvangi. Það væri fróðlegt að heyra hvað hefur verið gert í þessu skyni. Ég vona að það sé meira en þær 50 millj. sem ríkisstjórnin veitti um daginn. Fjárfesting erlendra fyrirtækja hér á landi --- það væri fróðlegt að heyra hverju markaðsnefnd iðnrn. hefur fengið áorkað í því sambandi. Hún hefur verið í umræðunni nýlega og fróðlegt væri að vita hvað það mikla fjármagn sem þar hefur runnið í gegn hefur gefið í aðra hönd. Ég tek undir það hér að íslensk fyrirtæki þurfa að fjárfesta erlendis og ég met það sem hæstv. sjútvrh. hefur talað um í þessu sambandi. En hvað hefur í raun verið gert? Þetta eru áhættusamar fjárfestingar og það þarf fjármagn til að koma sér á framfæri og kynna sér þessi mál, það er mjög kostnaðarsamt. Fróðlegt væri að vita hver ætlunin er eða hvað hefur verið gert í því sambandi. Meira að segja er minnst hér á fiskeldið og ákveðið að stuðla að því að nýta þá möguleika sem felast í fiskeldi. Ég hef satt að segja heyrt töluvert annað. En ég er þessu út af fyrir sig mjög sammála. Ég tel að fiskeldið sé grein sem hljóti að eiga erindi til okkar eins og annarra þjóða.
    Virðulegi forseti. Tíma mínum er lokið og ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Hann var nú reyndar tvöfaldur, ég held að ég sé búinn með hálfan tímann, svo ég hlýt að fá rós í hnappagatið fyrir það. En þetta er nóg fyrir mig. Ég vona að við getum rætt hér efnahagsmálin ítarlega undir þessum lið.