Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 15:24:59 (265)


[15:24]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að ég og hv. þm. Tómas Ingi Olrich gerum okkar kjördæmi og þessu svæði ekki sérstaklega gagn með því að fara hér í meting og samanburð á því hvaða ríkisstjórn hafi staðið betur eða verr við bakið á atvinnulífinu á Akureyri, ég er ekkert feiminn við þann samanburð. Ég get nefnt þá uppbyggingu sem t.d. varð í skóla- og menntamálum á Akureyri í tíð fyrri ríkisstjórnar og ég vænti þess að hv. þm. kannist við að dregur um og gerir þó þrátt fyrir allt ástandið skárra en það ella væri, vegna þess mikla hruns sem orðið hefur í hinum almenna iðnaði á Akureyri og við þekkjum. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt að málefni skipasmíðaiðnaðarins í landinu hafa lengi verið erfið og ég er ekkert allt of hreykinn af því t.d. hvernig hæstv. fyrrv. iðnrh. og sá sem ég starfaði með í ríkisstjórn tók á þeim málum. Ég reyndi m.a. að koma þeim inn á dagskrá ríkisstjórnar þegar á leiðinni út úr landinu voru risastórir smíðasamningar á frystitogurum sem við Íslendingar hefðum getað byggt og vorum samkeppnisfærir um að byggja, ef ekki hefðu komið til vaxtaniðurgreiðslur norskra stjórnvalda. Ég vildi að þeirri spurningu yrði svarað hvort ekki væri skynsamlegt að ríki og sveitarfélag, fyrirtæki og jafnvel kaupendur reyndu að leggja í púkk og jafna þessar niðurgreiðslur þannig að einhverjir af stóru smíðasamningunum um frystitogara upp á einn milljarð kr. stykkið kæmust inn í landið, en fékk því ekki framgengt. Það er því ekki svo að ég ætli að fara að verja alla skapaða hluti sem áttu sér stað í tíð fyrri ríkisstjórnar bara af því einu að ég sat í henni. Það er ekki svo.
    En á hitt mun reyna, hv. þm., hvort ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sýnir þann skilning á atvinnumálunum á Akureyri sem hér er verið að boða og lofa. Ég ætla svo sannarlega að vona að það verði en þá þarf hún að taka sig saman í andlitinu, svo ekki sé meira sagt. Vegna þess að satt best að segja er það ekki vansalaust hvað þetta svæði, sem hefur lengur og meir búið við þessa plágu, atvinnuleysið, heldur en nokkurt annað svæði í landinu, hefur fengið litla aðstoð. Ef við berum það t.d. saman við þær gríðarlegu fórnir (Forseti hringir.) sem Akureyrarbær hefur orðið að færa og leggja af mörkum í þessum efnum þá er hlutur ríkisins bæði fyrr og nú heldur ræfilslegur.