Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 15:27:34 (266)


[15:27]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns gera athugasemdir við það frv. sem hér liggur fyrir. Ég verð að segja að mér þykir það heldur illa unnið og afar sérkennilegt að hér fylgja engar skýringar. Í athugasemdum er eingöngu prentaður upp á nýtt formáli sá sem forseti Íslands skrifaði undir og síðan eru greinar frv. endurprentaðar. Það fylgja engar skýringar á því hvað í þessum aðgerðum felst eða um hversu miklar fjárhæðir er að ræða í einstökum tilvikum, fyrir utan það sem fram kemur í 1. gr. frv. Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. forsrh. að frv. af þessu tagi verði vandaðri í framtíðinni þannig að þingmenn geti áttað sig á því hvað í þessum málum felst og þurfi ekki sjálfir að leggja í mikla vinnu til að kanna hvað er hér á bak við. Maður hugsar ekki síður til almennings sem nær sér í frv. og vill kynna sér málin, þá er auðvitað mikill galli þegar skýringarnar eru engar, nákvæmlega engar.
    Það er auðvitað ekki hægt annað þegar þetta mál kemur hér til umræðu en velta því fyrir sér hvers vegna efni sem þetta er að finna í bráðabirgðalögum og hver sú brýna nauðsyn hafi verið að setja bráðabirgðalög um kjarasamninga. Ég leyfi mér að gagnrýna það að ríkisstjórnin skyldi grípa til þess ráðs að setja bráðabirgðalög þegar jafnauðvelt er að kalla þing saman og raun ber vitni. Ég held að ráðamenn í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar þurfi að breyta sínum hugsunarhætti í garð þingsins og gera tilraun til þess að kalla þingið saman þótt sumar sé, þannig að við fylgjum þeim lögum sem hér gilda og það sé ekki sífellt verið að teygja og toga 28. gr. stjórnarskrárinnar með þeim hætti sem gert hefur verið á undanförnum árum. Nú er ég ekki að gagnrýna sérstaklega þessi bráðabirgðalög því þetta hefur auðvitað verið tíðkað árum saman, en að mínum dómi þarf að verða breyting á. Starfsemi þingsins hefur verið breytt þannig að hægt er að kalla það saman með litlum fyrirvara og það eru engir þeir erfiðleikar í samgöngum hér á landi sem hamla því að það sé hægt. Þarna er fyrst og fremst um það að ræða að breyta hugsunarhætti og auðvitað er hægt að semja um það að afgreiða svona mál á u.þ.b. tveimur dögum. Við þekkjum þess dæmi m.a. frá Danmörku að þar er þetta gert. 28. gr. stjórnarskrárinnar er auðvitað fyrst og fremst til þess ætluð að ríkisvaldið geti gripið inn í þegar eitthvert neyðarástand er í landinu en kjarasamningar og aðgerð af því tagi sem gripið er til í þessum lögum og ganga misjafnlega fljótt í gildi teljast auðvitað ekki til neins konar neyðarástands.
    Ef ég vík aðeins að frumvarpinu sjálfu þá felast í því ýmsar aðgerðir sem snerta þá kjarasamninga sem var verið að gera og í þeim formála, sem forseti Íslands undirritaði 28. maí 1993, segir, með leyfi forseta, að: ,, . . .   mikilvægt sé að eyða óvissu í kjaramálum, tryggja frið á vinnumarkaði og treysta þannig stöðugleika í efnahagsmálum með víðtækri samstöðu um kjarasamninga til loka næsta árs.``
    Að sjálfsögðu skipta kjarasamningar miklu máli fyrir ástandið í þjóðfélaginu og auðvitað er mikilvægt að þeir náist. En það er afar umhugsunarvert fyrir hvern þann sem situr í ríkisstjórn hvernig staðið hefur verið að gerð kjarasamninga nú um margra ára skeið þar sem hinir svokölluðu aðilar vinnumarkaðarins tíðka það að höfða stöðugt til ríkisvaldsins og senda reikninginn þangað og krefjast þess að ríkið grípi til aðgerða þannig að hægt verði að ná samningum. Með því er auðvitað verið að deila því niður á allt þjóðfélagið að standa undir ýmiss konar breytingum sem með fylgja. Auðvitað er ríkisvaldið tæki til þess að jafna kjörin en við hljótum að spyrja okkur hvert erum við komin ef íslenskt atvinnulíf getur ekki staðið undir mannsæmandi launum og engar leiðir séu færar til þess að jafna kjörin í landinu eða leiðrétta kjör einstakra hópa aðrar en að senda reikning til ríkisvaldsins. Þetta er mjög alvarleg spurning og alvarlegt ástand sem við stöndum frammi fyrir þegar svo er komið að það virðist lífsins ómögulegt að ná fram leiðréttingum af einu eða neinu tagi. Nú er auðvitað hægt að taka undir það að ef horft er á meðaltöl, þá standa flestar atvinnugreinar illa að vígi og gildir það jafnt um landbúnað, sjávarútveg sem iðnað. Það hefur verið samdráttur í öllum útflutningsgreinum og þar á ofan höfum við horft á lækkandi verðlag fiskafurða þannig að það er rökrétt að hugsa sem svo að þar séu ekki miklir möguleikar til launahækkana. En hins vegar er ástandið afar misjafnt eftir því hvar er á landinu og eftir því hvaða fyrirtæki eiga í hlut. En hér tíðkast að semja á alla línuna, leggja skatt á alla línuna, nákvæmlega sama hvernig á stendur. Þetta er afar umhugsunarvert og að mínum dómi þá getur það ekki gengið til lengdar að ríkinu séu sendir allir reiknigar því hvaðan eiga peningarnir að koma sem eiga að standa undir því? Við höfum einmitt orðið vör við það að fjmrn. og starfsmenn þess hafa verið í örvæntingarfullri leit að tekjuleiðum til þess að standa undir þessum samningum sem gerðir voru í vor. Þarna er búið að skapa ákveðinn vítahring. Það nást ekki samningar öðruvísi en að ríkið komi inn í og síðan þarf ríkið að leita leiða til að afla tekna til að standa undir þeim samningum, leggur álögur á allan almenning sem auðvitað verður til þess að kjörin versna og hringurinn snýst upp á nýtt. Út úr þessu þurfum við einhvern veginn að komast.
    Ég held, hvað sem okkur annars finnst um verkalýðshreyfinguna og hina svokölluðu aðila vinnumarkaðarins, að við stöndum einfaldlega frammi fyrir kjaraskerðingu í þessu þjóðfélagi. Það er ekkert annað hægt en að horfast í augu við það, tekjurnar eru að minnka, erfiðleikarnir eru miklir, spurningin er bara hver á að taka á sig kjaraskerðinguna? Á hverjum á hún að bitna? Það er skoðun okkar kvennalistakvenna að þeir sem meira bera úr býtum eigi að bera þar þyngri byrðar og það eigi að verja þá sem verst standa að vígi. Því miður fer ríkisstjórnin þá leið ár eftir ár að leggja skatta á alla línuna og þó að það sé reynt að koma til móts við barnafólk þá eru auðvitað aðrir hópar sem verða mjög illa úti.
    Í þessu frv. er í 1. gr. vikið að framlagi ríkisins til atvinnusköpunar og þar er hinn margnefndi milljarður sem var til umræðu í sumar. Það hafa auðvitað vaknað margar spurningar um það hvað eigi að gera fyrir þennan milljarð og mín fyrsta spurning til hæstv. forsrh. er: Hvað er farið að framkvæma af þeim aðgerðum sem tíundaðar voru á þessum lista sem ég hef undir höndum og er frá 16. júlí 1993 og ættaður er frá fjmrn.? Er byrjað að framkvæma eitthvað af þessu? Við hljótum líka að velta því fyrir okkur á hvaða leið stjórnvöld eru þegar teknar eru ákvarðanir svona fram í tímann um fjárveitingar án þess að samþykki Alþingis hafi komið til. Nú veit ég að slíkt hefur líka tíðkast um árabil en ég vek athygli á því að

það er brot á stjórnarskránni þegar teknar eru ákvarðanir um fjárveitingar og ekki eru fyrir því heimildir. Þannig að mér leikur mikil forvitni á að vita hvað er búið eða byrjað að framkvæma af þessum aðgerðum sem þessi milljarður --- reyndar er þetta aðeins rúmur milljarður á lista fjmrn. --- hvað er farið að framkvæma af þessum verkefnum.
    Ég get í því sambandi ekki annað en vakið athygli á því að þau verkefni sem ríkið setur upp og eru ættuð frá hinum ýmsu ráðuneytum eru með þeim hætti að ég fæ ekki betur séð en þau muni fyrst og fremst koma karlmönnum til góða. Hér er um að ræða viðhaldsverkefni og reyndar undirbúning nýbygginga og ýmislegt af því tagi. Eins og háttar í okkar þjóðfélagi þá verða það væntanlega fyrst og fremst karlar sem verða ráðnir í þessi störf þó vonandi bjóði konur sig fram líka og að þau fyrirtæki sem munu fást við þessi verkefni geri tilraun til þess að ráða konur í þessi störf. Þetta nefni ég auðvitað vegna þess að tölur sýna að atvinnuleysi er næstum því helmingi meira meðal kvenna en karla. Þess vegna þarf að mínum dómi að grípa til sérstakra ráðstafana til þess að draga úr atvinnuleysi kvenna. En af þessum milljarði sem ríkisstjórnin lofar í þessu frv. eru einungis 80 millj. sem sérstaklega eru merktar til verkefna kvenna og það er alls ekki nóg þó auðvitað felist í hinum verkefnunum einhver störf sem konur munu stunda þá er þetta ekki nóg. Það þarf að beina sjónum miklu meira en gert er að atvinnumálum kvenna og atvinnusköpun í þeirra þágu. Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. ráðherra, fjmrh. og forsrh., að þeir hugi sérstaklega að þessu. Í því samhengi vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvað líður undirbúningi hönnunarmiðstöðvar sem er eitt af þeim verkefnum sem nefnt var í þessu samhengi og ég tel reyndar vera hið besta mál og vona að komist til framkvæmda. En það þarf alveg sérstaklega að huga að atvinnumálum kvenna.
    Þá vaknar líka sú spurning varðandi þennan milljarð hvað menn áætla um áhrif hans. Hvað á hann að skapa mörg störf og hvað segir hann í því atvinnuleysi sem Þjóðhagsstofnun spáir á næsta ári að verði í kringum 5%? Hvað ætla menn að gera frekar? Í því samhengi, þ.e. þegar komið er að atvinnuleysinu, get ég ekki annað en vitnað til fjárlaga fyrir árið 1994 þar sem allmikið er fjallað um atvinnuleysið og atvinnuleysisvandann. Fjmrn., sem er höfundur þessa frv. eða starfsmenn þess, benda á ýmsar orsakir fyrir vaxandi atvinnuleysi á landinu og segja að atvinnuleysið sé orðið það sem þeir kalla kerfislægt vandamál. Þ.e. atvinnuleysið er orðið viðvarandi.
    Ég er ekki alveg sátt við þær skýringar. Reyndar er svo sem ekkert rangt í þeim skýringum sem hér koma fram en mér finnst vanta mjög mikilvæga skýringu og hlut sem við þurfum mjög að hugleiða í tengslum við atvinnusköpun og það er að vinnan er einfaldlega að minnka. Vinnan er að minnka í samfélaginu, ekki aðeins vegna samdráttarins heldur ekki síður vegna tæknibreytinga, bæði í iðnaði, landbúnaði og sjávarútvegi og þess vegna er það svo gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hugleiða hvar og hvernig við ætlum að skapa störf. Þó að margt gott megi segja um aðgerðir ríkisstjórnarinnar og sveitarfélaganna í því að skapa vinnu, þá verðum við að hugleiða þessi mál í miklu víðara samhengi og horfa til lengri tíma því það gengur auðvitað ekki að við förum að semja ár eftir ár um einn milljarð, tvo milljarða, þrjá milljarða í atvinnusköpun. Við verðum að finna leiðir til þess að skapa varanlega vinnu. Verðmætasköpunin í þjóðfélaginu, sem spáð er að fari minnkandi, getur ekki staðið undir þessu til eilífðar. Við verðum að finna leiðir til þess að skapa arðbær störf sem skila þjóðarbúinu tekjum og þar eru leiðirnar margar þó ég ætli ekki að tíunda þær hér, ég ætla reyndar að leggja fram tillögu um það innan örfárra daga.
    En þetta eru hlutir sem þarf að hugleiða mjög alvarlega í þessu samhengi vegna þess að í þessu frv. er verið að grípa til bráðabirgðaaðgerða sem auðvitað duga skammt og okkur ber skylda til þess að skoða þessi mál til lengri tíma. Og eins og ég segi, leiðirnar eru margar.
    Þá er það tryggingagjaldið sem ég ætla ekki að koma inn á að neinu marki en get ég ekki annað en nefnt það sem dæmi um það hversu illa er frá þessu frv. gengið að það kemur ekkert fram í frv. um hvað er verið að ræða, hvað þarna er mikið fé sem verið er að létta af atvinnulífinu. Ég hef þær upplýsingar frá fundi í sumar sem við áttum með fulltrúum fjmrn., þ.e. þeir sem sitja í efh.- og viðskn., að þarna er um að ræða u.þ.b. 500 millj. kr.
    Þá er ekki annað hægt en að minnast á hafnargjaldið. Ég held ég hafi heyrt það í fréttum í gær að hafnarstjórnir væru þegar farnar að kvarta yfir framkvæmd þessa máls og það er ekki einleikið hvernig samskiptum þessarar ríkisstjórnar og sveitarfélaganna er háttað og löngu tímabært að ríkisstjórnin taki sig á í þeim samskiptum. Það verður reyndar fróðlegt að sjá þegar vinnunni vindur fram í fjárlagafrv. hvað gerist varðandi þær tilfæringar á sköttum sem þar eru boðaðar.
    Þá vil ég í örfáum orðum minnast á Hagræðingarsjóðinn og tek undir það sem hér hefur komið fram fyrr í dag að þetta er auðvitað hálfhlálegt eftir þær umræður sem hér áttu sér stað um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins að ríkisstjórnin skyldi svo grípa til þess ráðs að deila aflaheimildum hans til þeirra fyrirtækja sem verst standa rétt eins og stjórnarandstaðan lagði til.
    Þá hefur það komið fram að verkalýðshreyfingin efast um að ríkisstjórnin standi við gerða samninga og það má ljóst vera að það er aðeins hluti af kjarasamningunum og aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem koma fram í þessu frv. en það mun væntanlega koma í ljós í framhaldinu og þá einkum í afgreiðslu fjárlaganna hvort í raun verður staðið við þennan samning sem hér átti að tryggja frið og ró. Það mun koma í ljós.
    Að lokum, frú forseti, þá vil ég segja það að það má öllum ljóst vera að ríkisstjórnin gekk ekki mjög viljug til þessarar samningagerðar, hún hafði lengi vel haldið uppi þeirri stefnu að skipta sér sem

minnst af atvinnulífinu og að sumu leyti er hægt að taka undir það að atvinnulífið á auðvitað að stjórna sér sjálft og ríkisvaldið að skapa aðstæðurnar, góðar aðstæður fyrir atvinnulífið, en það koma auðvitað þær stundir að það þarf að grípa inn í og það er ýmislegt sem enginn getur gert annar en ríkisvaldið og eins og ég nefndi fyrr þá er auðvitað ríkið, þessi sameiginlegi sjóður sem við eigum öll, tæki til að jafna kjörin. En við getum auðvitað ekki annað en velt því fyrir okkur hvað er fram undan í þessum málum. Mér sýnist, eftir að hafa hlustað á og tekið þátt í umræðunum um fjárlögin í gær, að það séu ýmis tíðindi og átök fram undan en í gær var því haldið fram og það kemur fram víða í gögnum frá Þjóðhagsstofnun og í fjárlagafrv. að það sé betri tíð í vændum. Það var bjartsýnistón að heyra í forsrh. í stefnuræðu hans og menn auðvitað vona að ástandið batni og að ástand fiskstofnanna skáni, þ.e. sérstaklega þorskstofnsins, en það mun taka langan tíma og ég vil vekja athygli á því og í raun og veru biðja þingmenn að hugleiða það vel hvað er fram undan vegna þess að því ber ekki saman sem maður les í erlendum blöðum og því sem Þjóðhagsstofnun sér fyrir sér. Reyndar segir í þjóðhagsspánni að allar horfur um efnahagsþróun úti í Evrópu séu óvissar en samt sem áður spáir Þjóðhagsstofnun því að ástandið muni heldur skána á árinu 1995 og 1996 meðan erlendar spár segja að ekki sé að vænta bata, samkvæmt þeim skilgreiningum sem þeir hafa þar að baki, fyrr en upp úr eða eftir næstu aldamót. Þannig að menn verða að hafa í huga hvað er fram undan og að bráðabirgðaaðgerðir og inngrip af því tagi sem hér er um að ræða duga auðvitað ekki til lengdar. Við verðum að reyna að horfa lengra fram í tímann og skipuleggja og byggja upp, það er eina leiðin til þess að ná einhverjum tökum á efnahagslífinu og atvinnulífinu. Þó það sé auðvitað gott að menn séu bjartsýnir, þá verða menn að passa sig á blekkingum og blindu og einhverri von sem ekki stenst. Ég vek enn einu sinni athygli á því að það er mjög mikið ósamræmi í því sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar segja og því sem fram kemur hjá hinum ýmsu sérfræðingum, hvort sem þeir eru í fjmrn. eða hjá Þjóðhagsstofnun eða það sem birtist í erlendum blöðum.
    Varðandi frv. sem hér er til umræðu vil ég geta þess að ég hef að sjálfsögðu kost á því að kanna það nánar í efh.- og viðskn. en ég held að það sé rétt að ríkisstjórnin beri ábyrgð á þessu máli.