Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

12. fundur
Miðvikudaginn 13. október 1993, kl. 15:50:02 (267)

[15:50]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég fæ nú tækifæri til þess að svara hv. þm. efnislega sem og öðrum hv. þm. sem þegar hafa talað. Ég vil aðeins nota tækifærið í andsvari til þess að svara þeim athugasemdum sem hv. þm. gerði varðandi frv. og frágang þess. Ég hef náttúrlega ekki langa þingreynslu en mér er sagt að staðfestingarfrumvörp á bráðabirgðalögum séu í þeim búningi sem bráðabirgðalögin eru og ekki í öðrum. En varðandi bráðabirgðalögin og þann þátt að ríkisvaldið væri að teygja sig langt í þeim efnum, vegna þeirra breytinga sem voru gerðar á sínum tíma, þá er það algerlega lögfræðilega ljóst að það hafa engar breytingar verið gerðar til takmörkunar á valdi bráðabirgðalöggjafans frá þeim sem áður var. Það hefur engin slík takmörkun verið gerð. Þetta hefur verið mjög rækilega athugað og þetta hefur ekki verið gert.
    Á hinn bóginn er það svo að sú breyting hefur verið gerð að bráðabirgðalög koma nú fyrr til kasta þingsins en var áður. Það var áður fært að draga meðferð frumvarpanna til þingloka, síðan féll frumvarpið um sjálft sig ef það var ekki tekið til meðferðar eða samþykkt fyrir þinglok. Þetta hefur hins vegar breyst og þess vegna erum við að ræða þessi bráðabirgðalög nú. Hins vegar hygg ég að þrátt fyrir að bráðabirgðalagavaldið hafi ekki breyst á neina lund, þá hafi þessi ríkisstjórn farið afskaplega sparlega með það vald ef það er samandregið og ég hygg að hún geti vel borið sig saman við hvaða ríkisstjórn sem er í þeim efnum. Ég ætla að athuga þetta, láta taka þetta saman. Mér segir hugur um að svo sé, enda er það góð regla. Ég hygg að það hafi verið nauðsynlegt vegna þess að hv. þm. nefndi hina brýnu nauðsyn, það væri afskaplega mikilvægt að kjarasamningsaðilarnir fengju sem allra fyrst fast land undir fætur og reyndar í þessu tilfelli hygg ég að það hafi ekki verið neinn efniságreiningur við þingið, hvorki meiri hluta né minni hluta þess, um þessi bráðabirgðalög sem voru sett samkvæmt stjórnarskránni.