Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 12:03:17 (274)


[12:03]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. gerði hér að umtalsefni mikilvægar aðgerðir sem stjórnarflokkarnir hafa staðið fyrir til þess að efla atvinnulífið, þ.e. niðurfellingu aðstöðugjaldsins og lækkun tekjuskatts. Vegna ræðu hans hlýt ég að vekja athygli á þessu því að það hefur sannarlega ekki veitt af því að reyna að styrkja atvinnulífið með öllum ráðum og þetta tel ég vera einhverjar allra þýðingarmestu aðgerðirnar. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það hefur aldrei verið gert ráð fyrir öðru en sveitarfélögunum væru tryggðar tekjur til þess að mæta tekjufallinu sem þau verða fyrir með niðurfellingu aðstöðugjaldsins. Það hefur verið undirbúið og það á auðvitað ekki að koma neinum á óvart og allra síst hv. þm. að Reykjavíkurborg mun verða fyrir miklu tekjutapi vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins. Það eru uppi tillögur um það að mæta þessu með því að gera tilfærslu á milli tekjuskattsins og útsvarsins annars vegar og hins vegar að gera sveitarfélögunum kleift að hækka hluta af fasteignasköttum en á sama hátt yrði felldur niður hinn vafasami skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Vegna þess að niðurfellingin á aðstöðugjaldinu gagnvart verslun var verulega mikil þá er ekki óeðlilegt að sveitarfélögin hafi heimild til þess að hækka fasteignaskatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og út á það ganga þessar tillögur.
    Ég vildi bara að þetta kæmi hér fram og vildi vekja athygli á þessu en ég tel að sjálfsögðu óhjákvæmilegt að bæta sveitarfélögunum og þar á meðal höfuðborginni þetta tekjutap sem verður vegna aðstöðugjaldsins sem var á hinn bóginn afar mikilvæg aðgerð til þess að styrkja atvinnulífið.