Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 12:10:06 (277)


[12:10]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nei, það kemur mér ekki á óvart að menn standi í þessum sporum. Ég varaði við þessu hér í fyrra þegar var verið að ræða um þessi mál. Ég taldi það óverjandi að ákveða að fella niður gjald eins og aðstöðugjaldið öðruvísi heldur en það lægi fyrir með hvaða hætti ætti að koma þessum byrðum fyrir á fólk í landinu. Því er ég að ræða þessi mál hérna núna að ég tel að menn séu að komast upp með það að breyta aðstöðugjaldinu í skatt á almenna launamenn að öllu leyti því það er ekki bara að það sé þetta 1,5% sem á að hækka útsvarið það er líka 0,5% á allar launatekjur sem er á annan milljarð kr. Við erum með í höndunum tillögur frá ríkisstjórninni að almennir launamenn eigi að borga vegna niðurfellingar aðstöðugjaldsins á fimmta milljarð kr. á árinu 1994. Þannig liggur það skýrt og greinilega fyrir. Auðvitað veit ég að menn gerðu ráð fyrir að sveitarfélögin ættu að geta fengið tekjustofna í staðinn fyrir þetta, það var yfirlýst skoðun manna, en launþegarnir hafa örugglega ekki skilið það þannig að allar þessar tekjur ættu að koma úr þeirra vösum og það væri þá einungis um það að ræða að til vibótar væru sveitarfélögin að ná sér í það sem upp á vantaði, þau sveitarfélög sem hafa verið með mestar tekjurnar eins og Reykjavík. Sjálfstæðismenn virðast vera ánægðir með að bjóða þeim upp á það að taka nú við hlutverki ríkisins við að innheimta þennan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem hefur verið þeirra baráttumál að fella niður. Nú skal meiri hlutinn í Reykjavík fá að halda honum lifandi og verði honum að góðu.