Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 12:12:21 (278)


[12:12]
     Gunnlaugur Stefánsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. 3. þm. Vesturl. og að henni lokinni var mér það aldeilis ekki ljóst hver afstaða hans er til fyrirliggjandi frv. um efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga. Mestöll ræða hann fjallaði svona almennt um efnahagsmál, var afar neikvæð, ég segi ekki uppbyggileg fyrir þjóðarbúið, frekar að hún gæti stuðlað að einhvers konar niðurrifi og allsherjar bölsýni. Þess vegna verð ég að spyrja hv. þm. þegar hann hefur lokið ræðu sinni nú hver afstaða hans er til frv. Mun hann greiða þessu frv. atkvæði sitt eða er hann kannski á móti því að styrkja atvinnulífið, að greiða niður matvæli og að úthluta aflaheimildum Hagræðingarsjóðs með þeim hætti sem hér er kveðið á um í þessu frv.? Ég hélt satt að segja að hv. þm. mundi kannski fagna einhverjum ákvæðum þessa máls en svo er aldeilis ekki. Ég verð þess vegna að líta svo á á meðan hann ekki gefur frekari skýringar en að hann sé hálffúll og óánægður með þetta mál allt saman. ( JGS: Það varst þú á Fáskrúðsfirði líka.) Í öðru lagi og langar mig að spyrja hv. þm. um það ef ekki má spara, ef ekki má auka hagræðingu og ekki heldur auka tekjur ríkissjóðs hvernig á þá að verja velferðarkerfið í landinu? Þá er ein leið til viðbótar og hún er sú að auka erlendar og innlendar lántökur. Ef það er stefna hv. þm. þá er rétt að hann segi það hér en gefi það ekki alltaf í skyn án þess að þora að standa við það.