Efnahagsaðgerðir vegna kjarasamninga

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:08:57 (298)


[14:08]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég var ekki að reyna að leika heilagan mann. Ég hef reyndar tekið eftir því að eini maðurinn sem virkar heilagur hér í þessum sal er nú formaður flokks hv. þm. og leiðtogi lífs hans. Ég held að við hinir þorum ekki að fara í þau sporin.
    En varðandi sjávarútveginn sem nefndur var, þá hlýt ég að vekja athygli á því að þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið, ekki bara aðstöðugjaldið því að það tengdist náttúrlega mun fleirum heldur en sjávarútvegsfyrirtækjunum og reyndar í ríkari mæli, stærri hluti fyrirtækjanna, heldur aðgerðirnar almennt

hafa styrkt mjög stöðu sjávarútvegsins sem við höfðum mjög miklar áhyggjur af sl. vor. Staðan er í sæmilegum járnum nú, má segja. Hins vegar er hallinn, að öðru jöfnu ef ekkert annað gerist, nokkur á næsta ári. En þá kemur það inn í myndina að greiðslubyrðin mun verða léttari vegna þess að allmikið af lánum fjölmargra fyrirtækja er fleytt af árunum 1994 og 1995 og kemur á móti þessum halla upp á 4,5% sem ég hygg reyndar að verði lægri því að inni í þeirri hallatölu eru hvorki hagræðingarátök sem hafa skilað árangri né heldur væntingar um nokkuð hærra verð sem ég held að menn megi búast við.
    Ég held þess vegna að aðgerðirnar sem heild hafi dugað sjávarútveginum af því að hv. þm. nefndi hann sérstaklega, en það var óhjákvæmilegt um leið að hafa sem mest jafnræði í skattlagningunni og það hefur ríkisstjórnin leitast við að gera.