Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:17:38 (302)

[14:17]
     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Á þinginu 1978--1979 flutti svokölluð þingfararkaupsnefnd, sem þá var starfandi, frv. um biðlaun alþingismanna. Þessir menn, sem nú eru allir horfnir af þingi, voru hv. þm. Garðar Sigurðsson, Sverrir Hermannsson, Eiður Guðnason, Ingvar Gíslason, Friðjón Þórðarson og Árni Gunnarsson. Frv. þeirra, sem varð að lögum, er örstutt og vil ég, með leyfi forseta, hafa það yfir:
  ,,1. gr. Alþingismaður sem setið hefur á Alþingi eitt kjörtímabil eða lengur á rétt á biðlaunum er hann hættir þingmennsku. Biðlaun skal greiða í þrjá mánuði eftir eins kjörtímabils þingsetu en í sex mánuði eftir þingsetu í 10 ár eða lengur.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda þau einnig um þá sem létu af þingmennsku við síðustu alþingiskosningar.``
    Greinargerðin með frv. var svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Á síðasta þingi var þingfararkaupsnefnd sammála um að hér væri um réttlætismál að ræða og samþykkti að beita sér fyrir framgangi þess á þessu þingi. Allir opinberir starfsmenn njóta uppsagnarfrests. Síðan 1955 hafa og verið í gildi ákvæði um biðlaun ráðherra. Ætlast er til að þessi ákvæði laganna taki til þeirra þingmanna sem létu af þingmennsku við síðustu alþingiskosningar.``
    Frv. þetta var samþykkt í neðri deild með 20 atkvæðum gegn 3 og í efri deild með 12 atkvæðum gegn 5. Meginhluti þingmanna stóð því að frv. Í meðferð málsins var ágreiningur um tvennt: Að biðlaun skyldu aðeins ná til þriggja mánaða en ekki sex mánaða þótt tíu ára þingmennska væri að baki. Einnig var ágreiningur um afturvirkni laganna. Þeir sem vildu fara varlega og spara vildu aðeins þriggja mánaða biðlaun, en niðurstaðan varð að meginþorri þingmanna samþykkti lögin svo sem fyrr segir. Enginn þingmaður vakti athygli í umræðunni á þeim vankanti sem átti eftir að koma upp í framkvæmd laganna sem það frv. sem hér liggur fyrir, ef samþykkt verður, mun sníða af.
    Ég vil láta þá skoðun mína í ljós að frv. um biðlaun alþingismanna, sem samþykkt var fyrir rúmum áratug, var eðlilegt mál en þó vantaði skýrara orðalag. En skýst þó skýrir séu, má segja um okkur alþingismenn í ljósi þeirrar sjálftöku sem leitt hefur af samþykkt frv. í einstökum tilfellum. Hana verður að stöðva. Hún er máski lögleg en siðlaus.
    Ég hef því leyft mér ásamt þremur öðrum þingmönnum Sjálfstfl. að flytja frv. til breytinga á lögunum um þingfararkaup. Ásamt mér flytja það hv. þm. Matthías Bjarnason, Tómas Ingi Olrich og Guðjón Guðmundsson. Frumvarpið hljóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. gr. Aftan við 8. gr. laganna bætist: Réttur til biðlauna fellur niður ef fyrrverandi alþingismaður tekur við starfi í þjónustu ríkis, sveitarfélags eða fyrirtækis sem að meiri hluta er í eign ríkisins enda fylgja stöðunni jafnhá eða hærri laun um þingfararkaup. Ella greiðist launamismunurinn til loka tímabilsins.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Greinargerðin með frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum árum hefur komið í ljós að ósamræmi er í ákvæðum laga um biðlaun ráðherra og þingmanna. Fumvarp þetta er flutt til að taka af öll tvímæli um að biðlaunagreiðslur falli niður ef sá sem þeirra á að njóta tekur við öðru starfi sem er jafnt eða hærra launað en þingfararkaup þegar hann lætur af þingmennsku.``

    Grundvallaratriði þessa frv. er að biðlaun falli niður ef alþingismaður tekur við öðru opinberu starfi með jafnháum launum eða hærri, ella greiðist launamismunur.
    Biðlaun eru laun milli embætta til þess ætluð að brúa tímabil atvinnuleysis að loknu starfi. Það stríðir því gegn anda laganna að greiða alþingismanni slík laun ef hann fær nýtt starf um leið og hann lætur af þingmennsku. Þetta mál hefur mikið fordæmisgildi og getur rutt brautina til frekari umbóta og á því er ekki vanþörf eftir þá umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu undanfarna daga. Nóg er af dæmum í opinbera kerfinu að menn taki rétt sinn sjálfir, greiði sér laun í ýmsu formi sem ekki er bein lagaheimild fyrir. Með þessum hætti gengur ríkisgeirinn á undan í kaupskrúfu. En þetta gildir, virðulegi forseti, bara fyrir hina betur settu, sjálftökufólkið. Ekki aldeilis fyrir hina lægra settu. Þegnar þjóðfélagsins sætta sig ekki við þessa mismunun og fjársóun. Virðing Alþingis og ríkisstjórnar, virðing lýðræðisins bíður hnekki við slíkt. Það þarf að taka á bílakaupum og fríðindum bankakerfisins, já og á öllu sjálftökuliði. Steypa þarf öllum launa- og kjaramálum ríkis og ríkisstofnana í nýtt form frá grunni. Þetta frv. gæti verið byrjunin.
    Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.