Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:24:07 (303)


[14:24]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir er skiljanlegt og að mörgu leyti eðlilegt þar sem nokkur umræða hefur farið fram um biðlaun opinberra starfsmanna, hvort sem er sveitarstjórnarmanna eða þingmanna. Menn þurfa ekki að deila um hvað biðlaun séu, nafnið eitt er skýrt og skorinort. Það eru að sjálfsögðu laun sem menn taka meðan menn bíða eftir nýju starfi, um það þarf held ég ekki að ræða. (Gripið fram í.) En gallinn er sá að menn yfirgefa störf sín oft til ærið langs tíma þegar þeir taka þingsæti og ekki víst að þeir eigi greiðan aðgang aftur að fyrra starfi og ekkert er eðlilegra heldur en að menn njóti í einhverju margra ára starfs á Alþingi Íslendinga. Það er ekki ætlunin að refsa mönnum fyrir að taka sæti á hinu háa Alþingi.
    Hitt er annað mál að þegar talað er um önnur störf sem menn fara í sem njóta annars biðlauna er ævinlega talað um störf hjá ríki og bæ. Hitt er minna metið þó menn fari í hálaunastörf hjá einkaaðilum. Það eitt sýnir hversu mikil þörf er orðin á að endurskoða gjörsamlega lög um þingfararkaup. Það kemur mér a.m.k. dálítið spánskt fyrir sjónir að enginn gerir athugasemd við það að menn gegna háum stöðum hjá einkafyrirtækjum og almannasamtökum, veita forstöðu stofnunum eins og Verslunarráði Íslands, svo eitthvert dæmi sé tekið, jafnframt þingmennsku og engum dettur í hug að skerða laun manna þess vegna. Þannig að til þess að lögin verði trúverðug verður auðvitað að endurskoða þau frá byrjun. Fátt kemur meira róti á hugi landsmanna en þegar talað er um að bæta í einhverju kjör þingmanna. Það er raunar löngu nauðsynlegt og ekki síst að taka af allan vafa og allar grunsemdir sem menn eru uppfullir af án þess að þekkja til um hvernig kjör þingmanna eru í raun og veru. Virðist nokkuð vera sama hvað á gengur í þessu þjóðfélagi en tali einhver um að hækka laun þingmanna er haldinn útifundur á Lækjartorgi. Ég held að það sé löngu kominn tími til að Alþingi Íslendinga hreinsi sig af þessu rugli með því að setja ný lög um þingfararkaup. Ég sé ekki að Kjaradómur sé á nokkurn sé á nokkurn hátt fær um að ráða við þau mál lengur eftir revíuna sem upphófst hér í þjóðfélaginu á síðasta sumri með dyggum stuðningi þingmanna sem virðast stundum ofurlítið feimnir og fara hjá sér yfir því að stunda störf eins og að vera alþingismaður Íslendinga. Ég er ekki ein af þeim og hef aldrei verið. Ég tel að við vinnum fyrir kaupinu okkar hér, og eigum að vera a.m.k. launuð á borð við miðlungsembættismenn í þjóðfélaginu. En menn óttast kjósendur sína meira en allt annað í þessu lífi og halda að það sé þeim til góðs að halda hér niðri kjörum svo að nú er stór hópur manna sem koma nýir til þings sem ræður ekki við að sleppa fyrri störfum vegna þess að þeir treysta sér ekki til að lækka svo mjög í launum sem raunin er á ef menn koma til Alþingis. Þetta er vitaskuld misjafnt og fer eftir því hvaða störfum menn hafa gegnt áður en þeir settust á þing.
    Ég mun ekki greiða atkvæði gegn þessu frv. sem hv. 6. þm. Suðurl. er hér 1. flm. að. En ég tel hvergi nærri nóg að gert með því frv. Ég tel að við eigum að sameinast um að setja hér niður nefnd hv. þingmanna og semja frv. til laga um þingfararkaup. Ég ætla ekki að tíunda hér alls kyns mismunun sem á sér stað milli þingmanna innan Alþingis. Það er önnur saga. Margt af þeim ákvæðum byggir á gömlum grunni þar sem samgöngur voru erfiðar og menn bjuggu allt öðruvísi en þeir búa núna. Ég held að það sé löngu kominn tími til að endurskoða þetta allt saman og vil beina þeirri ósk til hæstv. forseta að forsætisnefnd þingsins --- og ég get beitt mér fyrir því þar líka þar sem ég á þar sjálf sæti --- hafi frumkvæði um að endurskoða lög um þingfararkaup. Ég hygg að þeir sem hæst tala um kjör þingmanna og hæstv. ráðherra yrðu harla undrandi ef þeir raunverulega sæju hvernig þessi kjör eru og ekki síst í kjölfar þeirrar umræðu sem orðið hefur á síðustu dögum um kjör annarra háttsettra aðila í þjóðfélaginu.
    Frú forseti. Ég er efnislega hlynnt þessu frv. en vil leggja áherslu á að ég tel að mikla nauðsyn beri til að endurskoða allan lagabálkinn um þingfararkaup.