Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 14:30:14 (304)


[14:30]
     Tómas Ingi Olrich (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur að þingmenn hefðu margir hverjir lagst gegn úrskurði Kjaradóms um hækkun launa þingmanna af ótta við kjósendur sína, sem sagt af einhverjum lágkúrulegum hvötum, en að þar hafi ekki komið til aðrar ástæður. Ég held að það sé ástæða til þess fyrir hv. þm. og þingmenn almennt að gera sér grein fyrir því að þegar þeir bera kjör sín saman við laun almennt í landinu þá er ekki ósennilegt að taka beri tillit til þess að á þenslutímum, sem hafa staðið hér lengi, raunar alveg fram til 1988, þá hækkuðu þeir sem ofar eru í launastiganum mjög mikið og raunar í mörgum tilfellum langt umfram það sem fyrirtækin báru. Þegar þingmenn eru að bera saman laun sín við almennan markað þá eru þeir oft að bera saman laun við það sem enginn grundvöllur er fyrir. Þess eru mörg dæmi að fyrirtæki hér á Íslandi borgi afar há laun, allt að tvöföld eða þreföld þingmannslaun á sama tíma sem þau eru að fara lóðbeint á höfuðið. Ég vil leyfa mér að draga í efa að það hafi vakað fyrir þingmönnum þegar þeir þóttust ekki sjá til þess nokkur tök að sætta sig við kjaradóm í fyrra að þar hafi verið að verki einhver lágkúrulegur ótti við kjósendur. Þeir hafa að mínu mati einfaldlega komist að þeirri eðlilegu niðurstöðu að við þær aðstæður í þjóðfélaginu sem þá ríktu og ríkja enn þann dag í dag þá séu engin tök á því að hækka laun þingmanna. Sumir þingmenn hafa staðið í því innan stjórna fyrirtækja að vera að lækka starfsmenn fyrirtækjanna í launum vegna þess að staða þessara fyrirtækja hefur ekki gefið tilefni til þess að þeir héldu sínum launum. Gefur staða ríkissjóðs tilefni til þess að hækka þingmenn í launum? Ég held að svo sé ekki.