Þingfararkaup alþingismanna

13. fundur
Fimmtudaginn 14. október 1993, kl. 15:03:34 (312)


[15:03]
     Flm. (Eggert Haukdal) :
    Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka öllum hv. þm. fyrir að taka þátt í þessari umræðu, það hefur ýmislegt komið hér fram.
    Varðandi það sem hv. 14. þm. Reykv., Guðrún Helgadóttir, sagði þá er það út af fyrir sig góðra gjalda vert að beita sér fyrir því að skipuð verði nefnd til að athuga kjör þingmanna og ég skal ekki standa á móti því. En það dugar ekki að það sé gert til þess að drepa þessu þjóðþrifamáli á dreif sem þetta frv. boðar, þ.e. að strax verði þetta frv. afgreitt til að koma í veg fyrir að fleiri hneykslanir en orðið hafa verði í þessum efnum. Þess vegna ríður á að þetta frv. gangi fljótt og hratt fram.
    Út af orðum hv. 2. þm. Vestf. þá hefur hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, svarað því að hluta varðandi einkageirann, að við tókum hann ekki inn í þetta frv., en hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson situr einmitt í þeirri nefnd sem fær þetta frv. þannig að ég vona að hann skoði þetta ítarlega þar. En umfram allt vona

ég að hann beiti sér fyrir því í þeirri nefnd og láti málið ekki dragast heldur að nefndin afgreiði það frá sér þannig að þetta verði fljótt að lögum.
    Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson ræddi um að ekki mætti vera mismunun í þessu og þetta frv. mætti ekki stríða gegn neinum og kom mjög að því að sá sem hér stendur mundi nú ekki eiga rétt til biðlauna þar sem hann væri stórbóndi. Þegar þar að kemur að ég hverf héðan, þá mun ég sannarlega taka því vel þó biðlaunin muni ekki koma í mínar hendur. En út frá hans orðum, þá hef ég heyrt það að hann sé hættur skólastjórn í Reykholti en blöðin hafa talað strítt um það að hann sé orðinn stórbóndi líka eins og ég þar sem hann hafi hafið stórbúskap í Borgarfirði. Þannig kynni svo að fara eftir að þetta frv. er orðið að lögum og við hættum báðir á þingi að við mundum hvorugur hljóta þessi ágætu biðlaun og munum vafalaust lifa af þótt það verði ekki. Annars held ég að hann muni sitja á þingi svo lengi lifir því að hann er öruggur í sínu kjördæmi og á snilli hans þarf hv. Alþingi að halda. Við könnumst við að í Reykholti bjó maður sem hafði mikil áhrif og lengi og Ólafur hefur gáfur eins og fyrirrennari hans í Reykholti til að hafa góð áhrif hér á hv. Alþingi.
    En að meginmáli fagna ég þessari umræðu og vona að frv. fái skjótan og góðan framgang.