Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 15:13:58 (319)

[15:14]
     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Eins og sjá má á prentaðri dagskrá hefur hæstv. dómsmrh. óskað eftir að flytja Alþingi munnlega skýrslu samkvæmt 45. gr. þingskapa og fer umræða um hana fram á eftir, en forseti vill geta þess að forseta bárust nokkrar óskir um það á helginni að fram færu umræður utan dagskrár um það málefni sem hér verður rætt. Á fundi formanna þingflokka í morgun tókst samkomulag um þessa málsmeðferð að ráðherra flytti þinginu skýrslu og jafnframt að tímamörk yrðu þau að ráðherra hefði allt að 15 mínútur í fyrra sinn og allt að 7 mínútur í síðara sinn, en þingmenn hefðu allt að 7 mínútur í fyrra sinn og allt að 4 mínútur í síðara sinn. Samkomulag þetta er gert skv. 2. mgr. 72. gr. þingskapa eins og henni var breytt með nýsamþykktum lögum við upphaf þingsins.
    Þá vill forseti jafnframt geta þess að það hafði borist ósk frá hv. 8. þm. Reykn., Ólafi Ragnari Grímssyni, um utandagskrárumr. skv. 2. mgr. 50. gr. þingskapa, þ.e. hálftíma umræða, um viðræður íslenskra og bandaríska stjórnvalda um framtíð starfsemi Bandaríkjahers á Íslandi, og er gert ráð fyrir að sú umræða fari fram á morgun, sennilega um eða upp úr kl. 3.
    Loks vill forseti láta þess getið að það má búast við að fyrirspurnafundur dragist eitthvað vegna umræðna um skýrslu dómsmrh.