Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 15:32:00 (321)


[15:32]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Við erum að upplifa hér allsérstakt mál og því miður er hlaupinn mikill í hiti í það eins og heyra mátti á skýrslu dómsmrh. Hann á líka eftir að kynna sér ýmsar hliðar þessa máls sem við fengum að heyra í gær, þeir þingmenn sem mættu á fund sem félagasamtökin fern, Slysavarnafélagið, Rauði krossinn, SÁÁ og Landsbjörg stóðu fyrir, en væntanlega skýrist þetta nú allt saman.
    Hér er upp hafið mikið áróðursstríð á báða bóga og því miður mætast þar stálin stinn. En það er skylda okkar þingmanna að kynna okkur málin frá báðum hliðum og ég vil segja það hér að mér hefur ekki gefist kostur á að kanna ýmsar þær fullyrðingar sem fram komu á fundinum í gær og varða Háskóla Íslands og það kerfi sem þeir eru að setja upp en þessi mál munu væntanlega skýrast.
    Ef við horfum á það um hvað þessi deila snýst þá stendur öðrum megin Háskóli Íslands sem lögum samkvæmt er gert að afla fjár með happdrætti og hann vill fara inn á nýjar brautir til að bæta sér upp það tekjutap eða þann samdrátt sem orðið hefur í Happdrætti Háskóla Íslands. Og hann hyggst setja upp tölvustýrða spilakassa á vínveitingastöðum, hótelum og ýmsum öðrum stöðum auk þess sem fyrirhugað er að koma upp sérstökum spilastofum. Hinum megin stendur svo fylking hinna fernu félagasamtaka, Rauða krossins, SÁÁ, Landsbjargar og Slysavarnafélags Íslands, sem telja hagsmunum sínum ógnað komi Háskóli Íslands inn á þann markað sem þessi félagasamtök hafa verið nánast einráð á. Þetta mál snýst einfaldlega um bullandi samkeppni um peninga almennings þar sem höfðað er til spilagleði og vinningsvonar og það eru miklir peningar í húfi, verði þetta nýja kerfi háskólans að veruleika.
    En málið snýst líka um ýmislegt annað og á því eru siðferðilegar hliðar, spurningar sem við verðum að spyrja okkur og sem nauðsynlegt er að skoða. Það felst m.a. í þessu máli sú spurning hvað hæfi virðulegri stofnun eins og Háskóla Íslands og hver verða áhrifin ef þetta mikla spilakerfi kemur upp. Hver verða áhrifin m.a. á almannavarnir? Og ég spyr: Er það verjandi að góðgerðarsamtök afli fjár með spilakössum þótt vinningsupphæðirnar séu lágar? Er það virðingu Háskóla Íslands samboðið að afla fjár til uppbyggingar sinnar á vínveitingahúsum og spilastofum? Er íslensku ríkisvaldi stætt á því að gera Háskóla Íslands einum skóla á háskólastigi hér á landi skylt að fjármagna byggingar, tól og tæki með happdrættisfé sem skila miklu eitt árið en minna því næsta og þeir búa þar með við mjög sveiflukenndar tekjur? Og ég spyr enn: Hversu lengi á að reka illa fjársveltan Háskóla Íslands með þessum hætti? Við hljótum að verða að spyrja þessarar spurningar og horfa á hina siðferðilegu hlið málsins.
    Ég veit auðvitað að það er ekki feitan gölt að flá hjá ríkinu þessa stundina og því er háskólinn knúinn til þess að leita nýrra leiða í sinni fjármögnun. En ég get ekki annað en látið í ljós þá skoðun mína að það sé í rauninni verið að leiða háskólann inn á vægast sagt hæpnar brautir ef uppbygging hans á næstu árum byggist á því að magna enn upp spilafíkn landans og þar sem vinningar verða allt að 6 millj. kr. Ég verð bara að viðurkenna það að þetta stríðir gegn minni siðferðiskennd og ég á bágt með að sjá Háskóla Íslands í þessari stöðu. Að dómi okkar kvennalistakvenna á ríkið að taka á sig rögg og axla þá ábyrgð að reka hér myndarlega akademíu. Það eru ýmsar aðrar leiðir færar til þess að afla fjár og það má líta til annarra landa í leit að fyrirmyndum. Ég vil taka það skýrt fram að ég skil auðvitað þann vanda sem Háskóli Íslands stendur frammi fyrir. En það sem nú ber að gera er auðvitað að leita samninga, að leiða þessa stríðandi aðila aftur að samningaborðinu og að leita leiða til þess að finna lausn á deilunni, jafnframt því sem menn verða auðvitað að fara í það verk að ná niður þörf háskólans fyrir happdrættisfé og ríkið axli sína ábyrgð. Þetta er allt spurning um forgangsröð í ríkiskerfinu.
    Það er ekki nokkur vafi á því að ef hér bætast við til að byrja með á þriðja hundrað spilakassar með háum vinningum til viðbótar þeim sem fyrir eru þá verður það auðvitað sprengja á markaðnum. Það er alger barnaskapur að neita því. Auðvitað verður þetta sprengja á markaðnum. Og við skulum gæta að því að þetta nýja spil háskólans hefur fengið gífurlega auglýsingu og þar af leiðandi er það ekki að ástæðulausu sem þessi fern félagasamtök hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif þetta muni hafa á þeirra tekjuöflun og auðvitað hafa þau ástæðu til að hafa áhyggjur af þessari væntanlegu samkeppni. Og vegna orða hæstv. dómsmrh. hér áðan þá snúast þeirra áhyggjur auðvitað um það að þeir geta ekki uppfyllt sína skyldu gagnvart Almannavörnum ríkisins. Þeir geta ekki fjármagnað kaup á tækjum og bílum og þeir geta ekki þjálfað fólk. Um það snýst auðvitað málið. Þetta er ekki spurning um einhverja borgaralega skyldu heldur það að geta byggt upp á þjónustu sem þessi félagasamtök hafa sinnt.
    Virðulegi forseti. Tími okkar er takmarkaður og ég ítreka það að þessa deilu verður að leysa við samningaborðið og ég skora á hæstv. dómsmrh. að beita sér að nýju fyrir viðræðum á milli deiluaðila og að hann fresti á meðan undirritun reglugerðarinnar. Ég vona alla vega að hann sé ekki búinn að undirrita hana. Það hefur verið dregið í efa af virtum lögmanni að spilakassar og kassahappdrætti standist lög og það kom hér fram í máli hæstv. dómsmrh. að það þarf að skýra lagabókstafinn og gera hann fyllri.
    Að lokum, virðulegi forseti, hér þarf að fara sér hægt. Það má ekki eyðileggja mikilvægt sjálfboðaliða- og líknarstarf sem unnið er í landinu og það verður að finna leiðir til þess að halda áfram uppbyggingu Háskóla Íslands á þann hátt sem sæmir þeirri gömlu og virðulegu stofnun. Boltinn er hjá dómsmrh. en finni hann ekki lausn þá verðum við hér á Alþingi að grípa í taumana og taka málið í okkar hendur.