Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 15:46:53 (323)


[15:46]
     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Hér er komið á dagskrá Alþingis að mínu mati mjög alvarlegt mál sem er eðlilegt að við tökum hér til umfjöllunar og það viðurkennir hæstv. dómsmrh. Annars vegar er Háskóli Íslands með sitt mikilvæga og merkilega starf sem allir vilja styðja og standa við bakið á í þessu þjóðfélagi. Hins vegar eru öflugustu frjálsu félagasamtök í landinu sem telja sér ógnað, félagasamtök sem standa fyrir almannavörnum, standa fyrir björgunarstarfi, standa fyrir áfengisvörnum, unglingahjálp, alþjóðlegu hjálparstarfi og margvíslegri aðstoð við sjúka. Það er alveg ljóst að ef starfsemi allra þessara samtaka er talið ógnað, þá hlýtur það að hafa mjög mikil áhrif á fjárlög íslenska ríkisins og hlýtur að verða til þess að ráðherrar þurfa að endurskoða ýmislegt sem þeir hafa lagt til við Alþingi nú á þessu hausti.
    Hæstv. dómsmrh. sagði áðan að hann væri tilbúinn í viðræður um þessi mál ef yrði óskað eftir þeim. Ég tel það vera skyldu ríkisstjórnarinnar að óska eftir viðræðum um þessi mál og það sé ekki eingöngu spurningin um hver fari fram á þessar viðræður. Auðvitað hljótum við hér á Alþingi að ætlast til þess að það sé reynt að leysa þessi mál í friði og það stríð sem nú er hafið haldi ekki áfram öllum til vansa. Þess vegna væri best að reyna að stöðva að miklu leyti í bili þessa umræðu sem farin er af stað og menn reyni að ná saman og um það á hæstv. dómsmrh. að hafa forgöngu.
    Það er líka umhugsunarefni hvort æskilegt er að fara út á þá braut sem háskólinn er að fara út á. Þar er verið að fara út í peningahappdrætti sem er a.m.k. öðruvísi en annað peningahappdrætti, hvað svo sem menn vilja kalla það, þar sem vinningar eiga að vera einhverjar milljónir í stað þess að vinningar í þeim spilakössum sem reknir hafa verið fram að þessu eru einungis rúmar 3 þús. kr. og um 8 þús. kr. Hér er um mikla breytingu að ræða og það hljóta að vera siðferðilegar spurningar samfélagsins hvort það sé æskilegt að setja upp slíkar spilastofur víðs vegar um landið og hvaða vandamál mun það skapa. Hverjir munu sækja þessar spilastofur? Mun það verða gamalt fólk? Munu það verða unglingar? Og munu þar ekki koma upp margvísleg vandamál sem kalla á margvíslega félagslega aðstoð?
    Hæstv. dómsmrh. sagði hér áðan að löggjöfin um þessi mál væri ekki nægilega fullkomin og um

það geta allir verið sammála. Það hefur lengi dregist úr hömlu, að mínu mati, og er á engan hátt á ábyrgð núv. dómsmrh. að taka á þessari löggjöf. Í þeirri álitsgerð sem borist hefur frá hæstaréttarlögmanni um þessi mál eru þessar staðreyndir raktar án þess að þar sé verið að kveða upp úr um það að það sem hæstv. dómsmrh. er nú að gera sé á einhvern hátt ólöglegt. Ég er ekki á nokkurn hátt að halda því fram. En hins vegar er löggjöfin ófullkomin og það hlýtur að vera spurning hvort ekki sé nú rétt að staldra við og fara yfir löggjöfina áður en frekari leyfi eru veitt.
    Ég bendi á að það eru ýmis önnur happdrætti sem eru að biðja um hið sama. SÍBS og DAS eru líka að biðja um að fá að taka upp spilakassa. Þetta eru mikilvæg samtök sem við verðum jafnframt að standa við bakið á. SÍBS hefur rekið hér afar merkilegt starf áratugum saman og sem betur fer er það jafnframt í samvinnu við aðila eins og Rauða kross Íslands. Það er því ástæða til þess nú að staldra við og líta betur á þessi mál og það á enginn að verða neitt minni af því að gera það. Það er óheppilegt ef þessi mál ætla að fara út á einhverjar persónulegar brautir, ég get tekið undir það með hæstv. dómsmrh. En hann var í ræðu sinni hér áðan líka að ræða um einstakar persónur í þessu máli sem ég tel að hann hefði átt að láta vera. Ég held að það sé mikilvægt að við komum þessari umræðu á annað stig. Við viljum vera án þess hér á Alþingi að þurfa að skipa okkur í fylkingar um það hvort við styðjum Háskóla Íslands annars vegar eða þessi mikilvægu líknarfélög hins vegar. Auðvitað er fullur stuðningur hér á Alþingi við alla þessa aðila og menn vija standa vörð um þeirra starf.
    Ég vil þá að lokum spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga: Hefur hann gefið út þessa reglugerð? Og ef hann hefur ekki gert það, mun hann kalla til aðila til þess að reyna að ná samkomulagi? Ég hef skilið það svo á öllum sem koma að þessu máli að fyrir því sé vilji. Og ef sá vilji er fyrir hendi, þá hefði ég haldið að dómsmrn. ætti að geta komist að niðurstöðu í málinu án þess að þar væri um einhver hrossakaup að ræða. En dómsmrn. hlýtur jafnframt að viðurkenna að starfsemi þessara samtaka er mjög mikilvæg.
    Í öðru lagi vildi ég spyrja hæstv. dómsmrh.: Mun hann beita sér fyrir breyttri löggjöf á þessu sviði og endurskoðun hennar og telur hann koma til greina að gefa ekki út frekari leyfi í sambandi við happdrættisrekstur, þar á meðal til Háskóla Íslands, fyrr en löggjöfin hefur verið endurskoðuð?