Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 15:53:44 (324)


[15:53]
     Árni M. Mathiesen :
    Hæstv. forseti. Hér er um allt of mikilvægt mál að ræða til þess að það megi snúast um persónulegar deilur hæstv. dómsmrh. og formanns Rauða kross Íslands. Hér er ekki bara um fjárhagslega hagsmuni þessara fernu samtaka og Háskóla Íslands að ræða, heldur er um að ræða lífshagsmuni þeirra sem þessi samtök hafa þjónað og þeirra sem stunda nám við Háskóla Íslands.
    Það er auðvitað umdeilanlegt hvort það eigi að afla samtökum og stofnunum sem þessum fjár með fjárhættuspili, með spili eða rekstri fjárhættuspilastofa. Mér finnst ekki erfitt að réttlæta það vegna þessara góðu málefna. En um þetta mega ekki vera harkalegar deilur eða hörð barátta um markaðshlutdeild því að það getur mjög auðveldlega eyðilegt alla þessa starfsemi og vilja fólks til þess að taka þátt í þessu spili og til þess að styðja þessi samtök. Ef það eiga að verða breytingar á þessum málum þá verða þær að gerast í sátt, í sátt allra þeirra aðila sem hlut eiga að máli. Ég tel að dómsmrh. verði að hafa frumkvæðið í því að ná þessum sáttum þrátt fyrir meintar árásir formanns Rauða krossins. Ef hæstv. ráðherra telur að lagaheimildir séu of veikar og sátt og samkomulag væri í ætt við hrossakaup, þá er ég sannfærður um að það mun ekki standa á þessari samkomu hér að ræða breytingar á lögum og koma þeim til skila í lagabálk þjóðarinnar. Ég vil fagna vilja ráðherrans til þess að ganga til viðræðna. En ef það er eitthvert vandamál hver á að hafa forgöngu um viðræðurnar eða hver á að biðja um þær, þá skal ég hér með biðja alla viðkomandi aðila um að ganga hið snarasta til viðræðna til þess að leysa þetta mál. Ég veit að það er góður vilji allra aðila og þennan vilja verðum við að nota til þess að leysa málið. Ég treysti hæstv. dómsmrh. til þess að beita sér í málinu og tryggja farsæla lausn fyrir okkur öll, þjóðina alla, hvort sem við erum í háska eða í námi. Það mun styrkja okkur öll og verða okkur öllum til góðs og það þolir ekki bið.