Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:24:19 (330)


[16:24]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslu hans þó að ég telji að hún svari ekki þeim spurningum sem vaknað hafa varðandi þetta mál né leysi þau vandamál sem við er að glíma.
    Vandinn er að mínu mati þrenns konar. Í fyrsta lagi með hvaða hætti rekstrargrundvöllur Háskóla Íslands er tryggður. Í öðru lagi með hvaða hætti er tryggður rekstrargrundvöllur þeirra frjálsu félagasamtaka sem séð hafa um líknar- og björgunarstörf hér á landi. Og í þriðja lagi nauðsyn þess að bæta og breyta allri löggjöf um rekstur hvers konar happdrættis.
    Eins og hér hefur komið fram hafa stjórnir fernra samtaka ákveðið að segja upp gildandi samningum við almannavarnir ríkisins um björgunarstörf og neyðaraðstoð á hættutímum. Forsendan fyrir þessari ákvörðun er sú að þau telja að með því að heimila Happdrætti Háskóla Íslands að setja hér upp öflugt kerfi spilakassa sé hæstv. dómsmrh. að kippa fótunum undan fjárhagslegum grundvelli samtakanna. Á fundi sem forustumenn Rauða kross Íslands, Slysavarnafélags Íslands, Landsbjargar og SÁÁ boðuðu þingmenn til í gær kom fram rökstuðningur þeirra fyrir þessari ákvarðanatöku. Ég tel að ekkert í þeim upplýsingum eða þeim málflutningi sem fram kom á fundi þessara aðila í gær megi túlka sem illvíga aðför að Háskóla Íslands, æðstu menntastofnun þjóðarinnar eins og fram kemur í samþykkt háskólaráðs frá því í dag. Ég lít aðeins á þær upplýsingar sem fram komu sem tilraun þessara samtaka til að halda í þá tekjustofna sem þessi frjálsu félagasamtök hafa haft af rekstri spilakassa í um það bil 20 ár og eru í reynd um 70--80% af sjálfsaflafé þeirra.
    Eins lít ég á þennan rökstuðning félaganna sem fram kom á fundinum sem mótmæli gegn því að ríkisvaldið, sem vissulega á að sjá um fjárveitingar til Háskóla Íslands til rekstrar, stofnkostnaðar og viðhalds, neyði háskólann inn á þessa braut fjáröflunar með því að skera stöðugt niður framlög til skólans og rýra með því um leið tekjumöguleika frjálsra félagasamtaka, félagasamtaka sem gegna afar mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu. Mér er það óskiljanlegt hvernig stjórnvöld, sem samþykkja að Háskóli Íslands nái sér í 200 millj. kr. tekjur í gegnum rekstur spilakassa á vínveitingahúsum og í sérstökum spilasölum, ætla að mæta þeim kostnaði sem af hlýst ef samstarfssamningi um björgunarstörf og neyðaraðstoð verður sagt upp. Ef fjárhagsgrundvelli er kippt undan þeim félagssamtökum sem unnið hafa þessi björgunarstörf hlýtur að þurfa að semja upp á nýtt við þau eða aðra aðila um að sinna þessum störfum. Og þeir samningar munu áreiðanlega kosta ríkið þær 200 millj. sem háskólinn verður vegna fjársveltis að ná sér í með því að spila á spilafíkn landans. Það hlýtur að vera erfitt fyrir þessa æðstu menntastofnun landsins að fara þessa leið í fjáröflunarskyni og það er siðferðilega rangt að neyða háskólann inn á braut slíkrar starfsemi.

    Verði þetta leyfi gefið af hæstv. ráðherra er einnig verið að breyta eðli þessarar spilakassastarfsemi. Mikill munur er á þeim vinningum sem fást úr svokölluðum rauðakrosskössum og þeim sem Happdrætti Háskóla Íslands ætlar að setja upp. Hér á líka að hefja rekstur á sérstökum spilastofum sem e.t.v. er fyrsti vísir að því að heimila hér rekstur spilavíta. Í samningaviðræðum milli þeirra aðila sem koma að þessu máli hafa samningar einmitt strandað á því að þeir aðilar sem nú reka spilakassa hafa ekki viljað fara út í það að reka slíkar spilastofur.
    Í þessum samningaviðræðum buðu núverandi rekstraraðilar Happdrætti Háskólans samstarf. Það tilboð fól í sér að Happdrætti Háskólans fengi 20% af ágóða þeirra kassa sem nú eru í gangi. Það hefði gefið háskólanum 80--100 millj. kr. Hér á Alþingi hefur hv. þm. Guðrún Helgadóttir lagt fram frv. þess efnis að einkaleyfisgjald það, sem Happdrætti Háskólans hefur verið gert að greiða, verði fellt niður. Ef þetta frv. verður samþykkt gæfi það háskólahappdrættinu um 40 millj. kr. tekjur. Þarna erum við komin með um 140 millj. kr. upp í þær 200 millj. kr. tekjur sem happdrættið ætlar að ná sér í til viðhalds bygginga háskólans með því að setja upp þessa nýju spilakassa. Hefði nú ekki verið nær að ganga með þessum hætti frá málum og nálgast þessar tekjur með því að stuðla að samningum og samþykkja þetta frv. sem nú þegar hefur verið lagt fram og síðast en ekki síst að sjá til þess að fjárveitingar til Háskóla Íslands séu þingi og þjóð til sóma?
    Ég tel að þessar leiðir hafi ekki verið fullreyndar. Þá hefði að mínu mati verið nauðsynlegt að endurskoðun á lögum um rekstur happdrættis og lögum um aðrar fjársafnanir, svo sem lottó, skafmiða, spilakassa o.fl., væri lokið og nýtt frv. um alla slíka starfsemi séð dagsins ljós hér á Alþingi og hlotið afgreiðslu áður en hæstv. dómsmrh. tæki ákvörðun um að útvíkka heimildir til starfrækslu spilakassa meira en orðið er.
    Verði reglugerðin undirrituð nú og tekjutap þeirra samtaka sem þá munu segja upp samningi um björgunarstörf verður að veruleika, þá stöndum við frammi fyrir vandamáli sem er miklu, miklu stærra en 200 millj. kr. framlag til viðhalds bygginga háskólans. Þá verður að taka ákvörðun um það með hvaða hætti við stöndum að fjármögnun þeirrar starfsemi sem þessi fern félagasamtök hafa staðið fyrir meira og minna með sjálfboðastarfi auk þeirra tekna sem spilakassar hafa veitt þeim. Og aðeins til þess að nefna dæmi um umfang þeirrar starfsemi má geta þess að rekstur um 90 björgunarsveita Slysavarnafélags Íslands kostar á ári hverju um 630 millj. og áætlað verðmæti eigna þeirra er um 1 milljarður 131 millj. kr.
    Starfsemi sú sem Rauði krossinn rekur t.d. fyrir unglinga hér í Reykjavík og víðar kostar einnig verulegar fjárhæðir.
    Það er mikilsvert að hæstv. dómsmrh. beiti sér fyrir því að samkomulag náist í deilu Happdrættis Háskólans og þeirra félagasamtaka sem hér um ræðir og að hæstv. ráðherra beiti sér fyrir heildarendurskoðun á löggjöf um happdrætti og leggi hana fyrir þingið. Ég vil taka undir þær spurningar sem fram komu hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni þar sem hann spurði hæstv. ráðherra hvort hann væri tilbúinn til þess að fresta gildistöku þessarar reglugerðar þar til slík heildarendurskoðun og afgreiðsla á löggjöf hefði farið fram. Ég styð þá tillögu og einnig það að við förum aðrar leiðir, við stuðlum að annars konar tekjuöflun fyrir Háskóla Íslands sem vissulega er mikilsverð stofnun. Við viljum veg háskólans sem mestan, en við viljum einnig standa vörð um þær tekjur sem hin frjálsu félagasamtök, sem hafa gegnt svo mikilvægu hlutverki í þjóðfélagi okkar, hafa haft fram að þessu.