Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 16:48:46 (334)

[16:48]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst og fremst taka undir það að nú sé tóm til þess að setjast niður og komast að skaplegri niðurstöðu. Það þarf nokkurn umþóttunartíma. Við erum að glíma við það núna að það eru sífellt stærri verkefni sem veitt er út á þann markað, sem betur fer takmarkaða markað, sem spila- og happdrættismarkaðurinn vissulega er. Þar er um tvennt að ræða. Annars vegar að einhverjum af þessum verkefnum sé létt af þessum markaði eða að hann sé stækkaður og ég get ekki ímyndað mér að nokkur sækist eftir því að meira af fé landsmanna fari í slík happdrætti en það er vissulega áhyggjuefni að það er alveg hægt að hugsa sér að sú staða komi upp. Við vitum ekki hvar það gráa svæði liggur nákvæmlega sem æsir upp spilafíkn en það er þó vitað að aukin ágóðavon verður aukin áhætta. Ég held að það sé enginn að tala um að það sé verið að sækja í meira fé á kostnað þess fólks sem verður spilafíkninni að bráð. Hvað er þá til ráða? Það er greinilegt að Háskóla Íslands er gert að sækja út á þennan markað með beinum eða óbeinum hætti. Verkefni skólans hafa ekki minnkað heldur frekar aukist. Það eru gerðar auknar kröfur. Jafnframt má hann sæta því að það er ekki ausið í hann fé annars staðar frá. En það er nokkur munur á Háskóla Íslands og þeim félögum sem nú róa lífróður fyrir tilvist sinni, og þá er ég að tala um Slysavarnafélagið, Landsbjörg, SÁÁ og Rauða krossinn. Það er nefnilega þannig að happdrættismarkaðurinn er að vissu leyti þeirra leið, ekki síst vegna þess mikla sjálfboðaliðastarfs sem þar er unnið og það er ákveðin hvatning og það er ákveðin stemmning --- ef ég má nota það orð --- í kringum það að reyna að samræma sjálfboðaliðastarf, áhuga og það að fara út á þennan markað sem happdrættisrekstur af öllu tagi alltaf er. Þannig má segja að þarna hafi skapast ákveðið jafnvægi. Oft hefur vissulega komið til árekstra, þeir hafa verið leystir fram til þessa. Núna er ljóst að ef af þessum áformum verður sem verið er að tala um, þá mun þetta jafnvægi sem nú er raskast. Það er verið að tala um það að þarna komi á einu bretti mjög stór nýr aðili, eða öllu heldur ný aðferð, inn á markaðinn og það hlýtur að setja hann í mikla óvissu. Það er ekkert skrýtið þótt þessi fjögur félög og samtök, sem hafa verið með þessa umræðu um helgina, veki athygli á því að verði fé skert til þessara samtaka þá er ekki hægt að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru vegna almannavarna til þessara samtaka. Það var raunhæft á meðan staðan var slík sem hún var þegar samningar voru gerðir en það er ekki raunhæft ef þau verða fyrir mikilli tekjuskerðingu og snöggri.
    Þetta finnst mér skipta verulegu máli en ég vil jafnframt vekja athygli á því af því að það hefur ekki komið mikið fram hér að það er ekki bara Háskóli Íslands sem þarf að sækja meira fé inn á þennan markað vegna þess að það skortir fé eftir öðrum leiðum, heldur er verið að skerða framlög og auka verkefni ýmissa þessara samtaka. Það virðast allir sáttir við það að velta fleiri verkefnum yfir á þessi samtök. Það virðast allir sáttir við það að þau sinni mikilvægri þjónustu í samfélaginu en á sama tíma mega mörg þessara samtaka, og þá vil ég nefna t.d. SÁÁ, sæta því að það er verið að ræða það að skerða framlög til þeirra, t.d. til áfengisvarnamála. Ég vil benda á það að Rauði krossinn gegnir mikilvægu hlutverki í vímuvörnum. Ég vil líka benda á það að þörfin fyrir fullkomin tæki hjálparsveita til leitar minnkar ekki, hún eykst. Þörfin fyrir alþjóðlegt hjálparstarf eykst, hún minnkar ekki. Og ef við drögum okkur út úr því þá er ekki einhver önnur þjóð tilbúin að hlaupa undir bagga. Þetta er peningur sem tapast úr þeim verkefnum. Þannig er hér í afskaplega mörg horn að líta og það væri mikill skaði ef það væri bara slengt fram lausn sem væri meira og minna til þess að skapa bæði ólgu og mikil vandamál í samfélaginu. Slíkt er engin lausn. Ég held að við stöndum frammi fyrir því að Háskóli Íslands þurfi í auknum mæli að fá trygga tekjustofna frá ríkinu vegna þess að hann stendur að mörgu leyti allt öðruvísi en aðrir sem hafa þurft að sækja út á þennan happdrættismarkað. Það á að vera verðugt verkefni ríkisins og góð fjárfesting í framtíðinni að fjárfesta í menntun fólks. Það skilar sér út í samfélagið og það á að standa myndarlega að því. Það er verið að setja Háskóla Íslands í óþolandi stöðu ef þetta er ekki íhugað í fullri alvöru og vikist undan með því að segja að það sé ekki nóg til af peningum því það er ekki aðalvandamálið heldur hvernig þessum peningum er skipt.