Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:03:38 (336)


[17:03]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Það á kannski vel við að vera að ræða hér fjárhagstjón eða fjárhagshagnað einstakra aðila á hálfrar aldar afmæli sjálfs fjmrh. ( Gripið fram í: Ha?) Ha, kemur úr salnum. Fjmrh. er fimmtugur í dag og þingheimur á auðvitað að óska honum til hamingju með það.
    Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans skýrslu. Það var tvennt sem mér þótti frekar leitt að heyra í skýrslu hans. Það er annars vegar sú túlkun hans á viðbrögðum formanns Rauða kross Íslands, að hann hafi ákveðið að veitast að ráðherranum. Minn skilningur á þessu er sá að formaðurinn hafi meint það að hann mundi berjast með oddi og egg gegn embættisfærslu ráðherrans en ekki að hann væri að veitast að honum persónulega.
    Ég er einn af þeim sem eru sammála formanni Rauða krossins, en ég er á engan hátt að veitast

að ráðherranum sem slíkum. Ég er einfaldlega ósammála þessari ákvörðun sem ráðherrann hyggst framkvæma með undirritun þessarar reglugerðar sem við erum hér að ræða.
    Hitt sem mér þótti leitt að heyra var að Rauði krossinn væri að fara fram á hrossakaup vegna samningsins við almannavarnaráð. Ég tel að Rauði krossinn sé einfaldlega að benda á það að hann geti ekki framfylgt þessum samningi ef af þessari reglugerð verður. Þá þótti mér líka leitt að heyra að það var gefið lítið fyrir þennan samning og sagt í raun og veru að hann skipti engu máli, þetta væri hvort eð er borgaraleg skylda þannig að mönnunum bæri skylda til þess að bregðast við ef á þyrfti að halda. Þetta tvennt þótti mér svolítið leitt að heyra og vona að hugur hafi ekki alveg fylgt þarna máli.
    Ég er einn af þeim sem vilja gera allt til að leita sátta og að aðilar slíðri sverðin. En það má auðvitað ekki vera á kostnað annars aðilans að hinum sé hjálpað. Það má ekki hífa annan upp og draga þá hinn niður í sömu mundinni. Menn verða að finna leiðir, leiðir til þess að fjármagna þessa starfsemi, hvort sem það heitir Háskóli Íslands eða þessi fern samtök sem við erum hér að ræða um.
    Ég tel að ef skilningur hæstv. utanrrh. á ræðu hæstv. dómsmrh. er réttur, þá þurfi ég auðvitað ekki að hafa hér fleiri orð. Það var ekki sá skilningur sem ég lagði í ræðuna, en ég vona að ég hafi þá skilið hana rangt. Ef svo er, þá er málið auðvitað leyst og það fer í frekari skoðun og við getum þá rætt það seinna ef ekki næst farsæl lausn. Hins vegar tel ég að í ræðu sinni hafi hæstv. dómsmrh. gefið upp boltann. Það kom fram hjá honum að löggjöfin um happdrættismálin er ófullkomin og hún þarfnast endurskoðunar. Ég tek því undir það sem hér hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum að við frestum þessu máli, við frestum undirritun reglugerðarinnar, flýtum okkur í vinnu á endurskoðun á lögunum og ég skal lofa því sem allsherjarnefndarmaður, sem fengi þau frv. til yfirferðar, að ég skal ekki tefja málið þar. Þetta tel ég að væri góður samningsgrundvöllur, að menn gætu unað við sáttir ef þeir færu þessa leið, ef mönnum bæri gæfu til.
    Menn hafa verið að ræða hér um siðferði, um spilavíti, spilafíkn og annað slíkt. Það verður auðvitað að segjast eins og er að þetta er stefnumótandi ákvörðun sem er verið að taka hér, ef þessi reglugerð verður undirrituð. Það er auðvitað stefnumótandi að því leyti að við erum að fara út í það að opna hér spilavíti. Það er alveg ljóst að þegar menn eru komnir með sal sem er uppfullur eingöngu af vélum sem menn koma til að veðja við, þá er auðvitað komin mini-útgáfa af spilavíti. Og þá finnst mér mikið hreinlegra að stíga skrefið til fulls, fara hér út í spilavíti með þeim aldurstakmörkun sem þar gilda og með þeim skyldum og reglum sem þekkjast úti í hinum stóra heimi frekar en taka þetta litla skref, sem er þá auðvitað bara fyrsta skrefið í áttina að hinu raunverulega spilavítakerfi.
    Spilafíknin hefur töluvert verið hér til umræðu og hana þekkja allir. Ég hugsa að menn þekki hana t.d. úr sínum eigin fjölskyldum. Ég þekki hana úr minni fjölskyldu. Ég á oft í basli með að rífa mína krakka frá þessum vélum. En við erum þó að spila þar um mjög litlar upphæðir. Þetta eru ekki nema nokkur þúsund krónur sem er mesta hagnaðarvon á móti því sem við erum núna að tala um, allt upp í 6 millj., að því mér skilst. Og menn geta vel séð það fyrir sér að menn reyna alveg út í hið ýtrasta og geta ánetjast þessu og hafa verið að gera það þrátt fyrir að upphæðirnar séu lágar. Menn eru að fara í meðferð út af slíkum hlutum. Og það má segja að þeirra sé valið, það má segja það. En við verðum alla vega að gera okkur grein fyrir því að þetta er stefnumótandi ákvörðun og hún getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Ég tel því að við eigum að láta hjálparsveitirnar og líknarfélögin í friði með sinn tekjustofn alveg eins og við látum Öryrkjabandalagið og íþróttahreyfinguna vera í friði með lottó og getraunir og það mætti þá alveg eins spyrja: Er von á öðrum inn á þann markað? Fá íþróttahreyfingin og Öryrkjabandalagið að vera í friði með þann tekjustofn? Og það má áfram spyrja: Er það rétt sem kom fram hjá hv. þm. Halldóri Ásgrímssyni hér áðan að Happdrætti DAS og SÍBS séu líka að sækja um að fá að starfrækja spilakassa og hvernig verður þá tekið á því máli? Er ekki fordæmið komið? Verður ekki að hleypa þeim inn á markaðinn alveg eins og Happdrætti Háskólans? Það er því að mörgu að gæta í þessu efni.
    Mig langar líka að spyrja: Hvenær fékk Happdrætti Háskólans grænt ljós á þessa ákvörðun? Það hlýtur að vera alveg ljóst að það kom fyrir nokkru síðan. Kassarnir, eftir því sem mér skilst, eru þegar komnir til landsins og ég veit að uppi í háskóla eru skarpgáfaðir menn og þeir hefðu ekki farið að panta þessa kassa og látið senda þá til landsins nema þeir hefðu fullvissu fyrir því að heimildin væri klár, að hún fengist. Ég hefði því gaman af að vita hvenær þeir fengu græna ljósið.
    Ég vil líka spyrja: Á þá ekki að herða eftirlit með noktun þessara kassa? Við vitum hvernig eftirlitinu er háttað í dag. Það er nánast ekki neitt. Hér er orðið um miklu, miklu stærra og alvarlegra mál að ræða þannig að það verður að herða það. Þá má spyrja í framhaldi af því, hver á að greiða fyrir það eftirlit? Á að taka það af háskólanum eða hverjum þeim sem fær að reka þessa kassa þegar upp verður staðið?
    Hæstv. forseti. Það eru fjölmargar spurningar sem vakna þegar þetta mál er skoðað. Ég vil hjálpa þessum samtökum alveg eins og hér hefur komið fram hjá öllum öðrum, en ég vil ekki gera það á kostnað hins aðilans. Ef það vantar tekjustofn fyrir háskólann þá verðum við bara að finna hann, en ekki á kostnað þessara fernra samtaka.