Skýrsla dómsmálaráðherra um málefni Happdrættis Háskóla Íslands og almannavarna

14. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:28:02 (341)


[17:28]
     Árni Johnsen :
    Hæstv. forseti. Það eru alltaf jafnfróðlegar hinar háalvarlegu og þjálfuðu söguskýringar hjá hv. síðasta ræðumanni en það kemur ekki á óvart.
    Það er ljóst í þessari umræðu að mönnum þykir fýsilegast að samkomulag náist. Í sjónvarpinu í gærkvöldi var viðtal við háskólarektor, Sveinbjörn Björnsson, þar sem hann hvatti til þess að menn mundu taka sér tíma til að fara yfir málið svo það þarf enga brýningu frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni til háskólarektors til þess að hans skoðun liggi ljós, hún kom fram í sjónvarpinu í gærkvöldi.
    Það hefur einnig komið fram hjá forustumönnum þeirra samtaka sem hafa fjallað um málið um helgina, m.a. hjá forseta Slysavarnafélags Íslands, Einari Sigurjónssyni, og Ólafi Proppé, formanni Landsbjargar, að þeir telji mikilvægt að samkomulagi sé náð um málið. Á því stigi stendur það og til þess ber að hvetja.
    En mig langar að skjóta inn einu atriði í þessa umræðu sem hefur kannski ekki verið ástæða til að fjalla um beinlínis en það er hvenær þessir spilakassar hjá Rauða krossi Íslands komu til landsins og í hvaða tilgangi þeir komu. Það er kannski kominn tími til að það komi fram. Rauði kross Íslands hafði að vísu haft uppi áform um það 1972 að fá einhvers konar fjáröflun í formi söfnunarbauka og hafði heimild til þess, en 27. febr. 1973 var tekin ákvörðun um það í Finnlandi af finnska Rauða krossinum og hjálparstofnun kirkjunnar þar að senda til Íslands spilakassa til þess að afla fjár til að styrkja fólk og fyrirtæki vegna eldgossins í Heimaey. Þetta gekk eftir. Fyrstu spilakassarnir komu til landsins frá Finnlandi og fóru í gagnið. Þá var einn fastráðinn starfsmaður hjá Rauða krossi Íslands, Eggert Ásgeirsson, og starfsmaður í hálfu starfi að auki, en á nokkrum mánuðum varð Rauði krossinn stórveldi með sterka fjárhagsstöðu. Nú eru þar um 50 starfsmenn, 25 innan lands og um 25 erlendis og fara um 100 millj. a.m.k. á ári til erlends hjálparstarfs. Mér er hins vegar ekki kunnugt um það að ein einasta króna úr þessum spilakössum í 20 ára sögu Rauða krossins hafi farið til þess verkefnis sem það átti að fara upphaflega, vegna eldgossins í Heimaey og mér þykir rétt að það komi fram hér.