Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn ofbeldisverkum

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:37:23 (344)


[17:37]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í tilefni af þessari fsp. vil ég upplýsa að nefnd sem falið var að vinna umræddar tillögur og úttekt áætlar að ljúka störfum sínum innan skamms og mun ég þá kynna samantekt nefndarinnar og sjónarmið og hef ég lagt áherslu á það við nefndina að þessum niðurstöðum verði hraðað. Ég vil jafnframt vekja athygli fyrirspyrjanda á því að í október 1992 skilaði samráðsnefnd um málefni barna og ungmenna á höfuðborgarsvæðinu tillögum. Þar var um að ræða viðamikla skýrslu um margvísleg atriði sem lúta að málefnum barna og ungmenna. Nokkrum þeirra atriða sem fram komu í skýrslu nefndarinnar hefur þegar verið hrint í framkvæmd eða eru í undirbúningi. Ég nefni það vegna þess að það kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda að ekkert jákvætt hefði komið frá ríkisstjórninni í málefnum barna. Ég nefni í því sambandi að hafin er starfsemi lokaðrar meðferðadeildar á vegum Unglingaheimilis ríkisins. Ég nefni að heimili fyrir vegalaus börn hefur verið sett á laggirnar. Ég nefni að það er aukið fjármagn núna á fjárlögum næsta árs til málefna barna. Ég nefni að það er verið að vinna að endurskoðun lögræðislaga. Ég nefni að það er verið að kanna ástæðu þess að rýmka heimild þá sem er í lögum um vernd barna og ungmenna um nauðungarvistun ungmenna gegn vilja þeirra. Ég nefni að það er unnið að því að semja frv. til laga um skoðun kvikmynda. Það er unnið að undirbúningi þess að samræma betur starfsemi þeirra sem afskipti hafa af kynferðisbrotamálum og ég nefni að á vegum félmrn. hefur farið fram gagngerð úttekt á þeim stofnunum og þeirri þjónustu sem til er að dreifa fyrir börn og fjölskyldur og undir félmrn. heyra.
    Í grg. með till. til þál. um velferð barna og ungmenna sem fsp. nær til er fullyrt að vaxandi fjöldi unglinga lendi í miklum erfiðleikum áður en fullorðinsaldri er náð en með þáltill. var sú hugmynd sett fram að samin yrði skýrsla um orsakir vaxandi erfiðleika barna. Ég held að enda þótt vert sé að vera afar vel vakandi yfir málefnum barna og ungmenna sé óvarlegt án fullnægjandi vísindalegra gagna að fullyrða um atriði eins og það að ofbeldi aukist meðal barna, að börn séu í aukinni hættu svo sem hvað varðar neyslu fíkniefna, sjálfsvíga o.s.frv. Í því sambandi vil ég nefna að skýrslur lögreglunnar í Reykjavík frá árinu 1989 og 1990 leiddu í ljós að ofbeldismálum hefði fjölgað um 5% á milli þessara ára, nær eingöngu vegna aukningar á minni háttar málum. Á sama tíma fækkaði alvarlegum málum vegna líkamsmeiðinga um 23%. Þá fækkaði árásaraðilum yngri en 20 ára öll árin 1989--1991, enda þótt hlutfall hinna yngri sé talið af lögreglunni nokkuð hátt við aldursskiptingu íbúa. Sem betur fer er því ekki hægt að fullyrða að ofbeldi meðal barna og ungmenna hafi aukist undanfarin ár. Hvað sem þessu líður er þó ljóst að tilhæfulaust og óvægið ofbeldi ungs fólks í miðborg Reykjavíkur að kvöld- og næturlagi um helgar er mjög alvarlegt vandamál sem bregðast verður við af fullri festu.
    Það liggur líka fyrir að borgaryfirvöld og lögreglan í Reykjavík munu á næstunni grípa til margþættra aðgerða til að varna því að ofbeldisverk séu unnin í miðbæ Reykjavíkur og eru þær ráðstafanir sumar komnar til framkvæmda svo sem um að kynna útivistartíma barna og ungmenna.
    Vegna síðari liðar fsp. minni ég einnig á að lög um félagsþjónustu og vernd barna og ungmenna mæla fyrir um að ábyrgð á framkvæmd þessara laga hvíli á sveitarfélögum landsins. Það eru aðeins hinar sérhæfðu stofnanir fyrir börn og ungmenni, uppbygging þeirra og rekstur, eftirlit með störfum fagnefnda sveitarfélaganna, yfirstjórn og leiðbeiningar sem er á hendi ríkisins.