Sjóður til eflingar atvinnumálum kvenna

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:46:04 (347)

[17:45]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með það að það var ákveðið að verja ákveðnum fjármunum til eflingar atvinnumálum kvenna í tengslum við gerð kjarasamninga. En ég hef hins vegar orðið vör við að það hefur verið nokkur óánægja í þjóðfélaginu með hvernig staðið var að t.d. auglýsingu þessa sjóðs og því hef ég leyft mér að leggja fram fyrirspurn hér á hv. Alþingi til hæstv. félmrh. um sjóðinn og fleira er hann varðar á þskj. 92.
    Það er ekki bara það að ég óttist að einhverjar konur hafi alls ekki sótt um vegna þess að þær hafi talið sig vera orðnar of seinar til þess að sækja um heldur líka hitt að þær umsóknir sem sendar voru inn hafa ekki verð nægilega vel unnar út af þessum stutta umsóknarfresti. Og mér þykir þetta enn torkennilegra, þegar svo langur tími hefur liðið frá því að átti að vera búið að skila inn umsóknum og ekkert hefur heyrst frá sjóðnum eða hæstv. ráðherra um það hverjir hljóti náð. En atvinnuleysi kvenna er mjög mikið og alvarlegt og sýna tölur það sem liggja fyrir opinberar í þessu þjóðfélagi. Ég get nefnt sem dæmi að í mínu kjördæmi, nánar tiltekið á Akureyri, varð sú breyting núna á sl. vori að konur urðu fleiri en karlar á atvinnuleysisskrá og gildir það fyrir alla mánuðina frá því í apríl og munar suma mánuði mjög miklu. T.d. í sept. eru 228 konur á atvinnuleysisskrá en 149 karlar.
    Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
  ,,1. Hvernig var staðið að auglýsingu á ,,60 millj. kr. sjóði`` til eflingar atvinnumálum kvenna?
    2. Hversu langur frestur var gefinn til að leggja inn umsóknir?
    3. Hversu margar umsóknir bárust?
    4. Hverjir meta umsóknir?
    5. Hvenær verða niðurstöður um styrkveitingar birtar?
    6. Hvernig verður háttað eftirliti með styrkveitingum?``