Sjóður til eflingar atvinnumálum kvenna

15. fundur
Mánudaginn 18. október 1993, kl. 17:56:20 (351)

[17:56]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrst vegna þess sem fram kom hjá hv. 3. þm. Norðurl. e. þar sem hún las upp kvörtun sem borist hefði vegna þessa stutta frests þá er mér kunnugt um þessa kvörtun sem þarna kom fram þar sem ég lét koma fram í mínu máli hér áðan að það hefðu engar kvartanir borist frá umsækjendum um að þeir hefðu ekki mætt lipurð og tillitssemi í sambandi við umsóknir og gat þess að þó að umsóknir hefðu borist eftir 1. sept. þá hefði verið tekið við þeim.
    Út af fyrirspurnum hv. 5. þm. Vestf., Kristins H. Gunnarssonar, þá verða þessar tillögur kynntar í ríkisstjórn á morgun. Hann spyr um hlutfall milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Hlutur höfuðborgarsvæðisins er 45% og þá er hann um 55% úti á landsbyggðinni. Vil ég í því sambandi minna á það að í þau 2--3 ár sem við höfum haft framlag til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni, þá hefur það eingöngu gengið til landsbyggðarinnar en ekki til kvenna á höfuðborgarsvæðinu. Nú hefur atvinnuleysi aukist á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst hjá konum, þannig að það er alls ekki óeðlilegt að það fari þetta hlutfall, sem er 45% til höfuðborgarsvæðisins en 55% út á landsbyggðina.